30 mars 2006

Babbl

Það er næstum komið sumar og ég er aftur á löppum. Sakna þess mjög að geta ekki hjólað leiðar minnar lengur og það tekur mig alveg korter að koma mér niðrí bæ en maður lætur sig hafa það. Feta fjölstigið upp Njarðargötuna í sólinni með töskuna á bakinu og jökulstorm í nýklipptu hárinu.

Sest inná Babalú inní horn þarsem enginn sér mig nema franska stelpan sem skype-ar á babbli hinumegin í herberginu. iBook er ennþá málið hjá kúlistunum. Fæ mér indælis bolla af piparmintutei sem mér er sagt að skófla sjálfur inní töngina og dýfa í tevatnið. Stöðvarstjórar skiptast á að hringja í mig, það vantar allstaðar fólk nema þar sem ég vil vera.

Viðtalið í gær hefði getað farið betur, en hefði líka getað farið mun verr. Strax skárra að þekkja tappann sem heldur á hljóðnemanum, en ég virka ekki mjög vel svona tafarlaust.
(Hún þagnar í stundarkorn og lítur hægt til hliðar með stórum augum einsog ég hafi sent henni hugskeyti, en ég gerði það ekki; ég var að skrifa.)
Hefði verið meira vit í þessu hefði þetta farið fram í texta? Kannske.

Ég er að velta því fyrir mér hvað myndi gerast ef ég næði ekki 10 einingum á þessari önn. Myndi ekki fá nein námslán, þyrfti að vinna í sumar til að borga bankanum yfirdráttinn. Myndi missa íbúðina næstum örugglega, gæti ekki verið í Reykjavík til að vinna fyrir bankann nema fyrir eitthvað íbúðarkraftaverk. Þetta er eitthvað sem ég vil forðast. En ég sit hérna og hristi ermarnar og það kemur ekkert erindi útúr þeim.. Útó- dystó- heteró-tópíur hvað? Hvar? Hvernig?
Arg.

Ætli Frikki sé mættur og sestur hinumegin?

Neibb. Hinsvegar er reyksvæðið þéttsetið af túristum og útlenskum Íslendingum.

Arg. Ég er farinn að gera allt annað. Satans.

-b.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já þessir útlensku íslendingar. Það er dáldið af þeim þarna á baba.

Ingi

Björninn sagði...

Það er sko engin lygi.