15 mars 2006

Sjórán?

Helvíti fín grein um The Pirate Bay og hversvegna þeir eru ekki nefndir í nýlegum ákærum MPAA á hendur fjöldamargra netsíða, s.s. isohunt, torrentspy, niteshadow o.fl.

Ég leit inná heimasíðu SMÁÍss, en þar er dálkur tileinkaður netkerfum menntastofnanna á borð við háskóla eða menntaskóla. Svona vilja þeir höfða til þeirra:
Rétt eins og ætlast er til að heimilda sé getið við ritgerða og verkefnasmíð svo ekki sé brotið á réttmætum höfundi texta ætti einnig að vera ætlast til að önnur hugverk séu meðhöndluð með réttmætum hætti.
Þarna er náttúrulega verið að bera saman tvo mjög ólíka hluti. Höfundaréttur, það að eiga sjálfur réttinn á því að fjölfalda höfundarverk þitt, er ekki það sama og að ætlast til þess að nafns þíns sé getið þegar þetta verk þitt er nýtt í heimildavinnslu. Það fyrra hefur að gera með gróða sem hlýst af sölu en það síðara snýst um það sem kalla mætti eign á hugmyndum.

Nú er ég reyndar að gefa mér að þarna sé rætt um ritgerðir og þessháttar sem eru ekki gefin út í gróðaskyni, en ef útí það er farið erum við kannske frekar farin að tala um ritstuld. Er það brot á höfundarrétti? Það mætti e.t.v. gera því skóna. Ekki er ég lögmaður. En það er deginum ljósara að efni, sem dreift er ólöglega á netinu, er ekki eignað öðrum en þeim sem gaf það út, svoleiðis að umræða um ritstuld á ekkert efni þangað.

Og engin umræða um ,,stuld" í rauninni, þósvo að SMÁÍs og co. vilji endalaust koma því orði að í þessu samhengi. Ég hef sosum minnst á þetta áður, en stuldur eða þjófnaður er þegar þú tekur einhvern hlut frá einhverjum öðrum og gerir þarmeð tvennt:
  • Þú rænir hann hlutnum sjálfum,
  • og sviptir hann um leið möguleikanum á því að selja hlutinn síðar meir
.
Ólögleg dreifing efnis á netinu hefur að gera með fjölföldun (og gengur þannig uppí skilgreininguna á höfundarréttarbroti), en þeir sem eiga 'hlutinn' sem er tekinn og fjölfaldaður eiga hann ennþá. (Og þessvegna er allt tal um ,,sjórán" kannske illa til fundið líka, þósvo að thepiratebay velti sér uppúr því..) Það er ekki búið að fjarlægja neitt sem ekki verður gefið aftur.

..nema kannske hugsanlega kaupendur. En þú getur ekki eignað þér fyrirhugaða kaupendur að einhverri vöru í þessum geira frekar en annarstaðar, en það er nákvæmlega það sem þessir kónar eru að gera þegar þeir kenna vefsíðum á borð við thepiratebay um síminnkandi aðsókn í kvikmyndahús o.s.frv. í staðinn fyrir að einbeita sér að því að búa til kvikmyndir sem fólk kemur til með að vilja sjá í bíó.

Æ maður gæti talað um þetta endalaust. En ég nenni því ekki. Kvefið virðist ætla að taka sig upp og ég ligg og les.

Erindið í gær gekk ágætlega, en ég hlýt að vera með verri fyrirlesurum sem ég þekki.. Gengur betur næst.

-b.

Engin ummæli: