20 mars 2006

,,Brjóstahaldarinn er í skápnum vinstra megin!"

Föstudaginn síðastliðna var ég í sturtu klukkan að renna í þrjú og velti fyrir mér hvað hann Hallgrímur ætti við þegar hann sagðist ætla að fjalla um hvernig hann myndi skrifa, væri hann kona á málþinginu sem ég ætlaði að kíkja á (en ég var einmitt að verða of seinn). Mér datt í hug að hann myndi mæta seint með illa undirbúinn fyrirlestur, bara til að gera gys að konunum sem stóðu fyrir málþinginu og þeim sem voru með erindi; svona myndi ég haga mér, væri ég kvenmaður.

Þegar ég mætti var Gerður Kristný komin vel inní sitt erindi um Svövu Jakobsdóttur, og stofan var þéttsetin. Fólk sat á gólfinu meðfram veggnum og hélt áfram að tínast inn eftir að ég hafði komið mér fyrir. Í hlénu fékk ég að vita að Hallgrímur myndi ekki mæta: hann hefði boðað forföll. Börnin hans voru veik heima sagði hann, og hann kæmist ekki. Þannig að í staðinn fyrir að skrifa einsog kona myndi hann lifa einsog kona. Eitthvað svoleiðis.

Þannig að þetta var hálfrétt giskað hjá mér. Meiningin var sú sama en Hallgrímur þurfti auðvitað að ganga of langt og útskýra brandarann. Lélegt.

En fólk vildi tala um þetta þegar skipulögð dagskrá var búin. Hvað var Hallgrímur að meina? Hvernig getur hann sagst ætla að tala um hvernig skáldskapur sinn myndi líta út ef hann væri kona? Þá væri hann (eða hún) alltannar einstaklingur, jafnvel ekki rithöfundur. Og svo framvegis. Það kom mér á óvart að fólk hafði ekki náð sneiðinni jafnvel þótt hann hafi stafað það oní þann sem tók við skilaboðunum (hver sem það var). Hallgrímur hafði ekkert að segja um kven-skáldskap sinn. Hann þurfti ekki að meina neitt með því sem hann auglýsti annað en það að þegar á hólminn væri komið myndi hann ekki mæta. Það að hann skyldi ekki tala um það sem hann sagðist ætla að tala um er í sjálfu sér fyrirlesturinn.

Og nú er ég bara að leiða útfrá því sem mér hefur sýnst um Hallgrím við að lesa greinar eftir hann, sjá og lesa viðtöl við hann o.s.frv. í gegnum árin. Til að sýna framá viðhorf hans til alls þessa er styst að sækja í skilaboðin sem hann sendi: Það að sitja heima með veikum börnum er eitthvað sem konur gera, ekki karlmenn.

Gott og vel. Þar fór sá djókur.

En einhver spurði Gerði Kristnýu í framhaldi af þessu eitthvað í þessa átt: Getur maður í raun og veru skrifað sem hitt kynið. Gætir þú skrifað einsog þú værir karlmaður?

Og hún svarar: ,,Ég skrifa einsog ég væri karlmaður." Punktur.

Talið leiddist eitthvað annað í smá stund en síðan gerðist það, mér til mikillar undrunar, að hún var spurð hvað hún ætti við með því sem hún sagði.

,,Maður svarar nú bara svona," sagði hún þá.

Mér fannst frekar neyðarlegt að hún skildi missa boltann svona og játa bara undireins að hún hefði ekki meint neitt með þessu, en þó frekar þegar hún hélt síðan áfram eftir smá hik og sagði að það væri karlmannlegt að skrifa og tjá sig. Konur gætu það ekki; þeim væri gert að þegja. Og svo framvegis.

Ég náði ekki að setja þetta í almennilegt samhengi fyrren nokkru seinna þegar við Davíð sátum á Stúdentakjallaranum, drukkum Guinness og horfðum á À bout de souffle, sem kvikmyndafræðinemar voru að sýna á tjaldinu.. Þar er sena sem gerist á blaðamannafundi: Einhver mikill spekúlant að nafni Parvulesco situr fyrir svörum og hver snápurinn á fætur öðrum skýtur að honum spurningum sem tengjast eflaust einhverju sem hann á að hafa gefið frá sér. Eitthvað um samskipti kynjanna, kynferði kvenna og hlutverk þeirra í samfélaginu, álit hans á hinum og þessum listamönnum o.s.frv.

Hann ryður úr sér svörum sem eru öll rosa sniðug og fyndin, spyrlarnir skrifa þau hjá sér og halda áfram að spyrja. Aðspurður hvaða takmark hann eigi sér í lífinu svarar hann:
Að verða ódauðlegur. Og deyja síðan.

Hvað á hann við? Enginn spyr neitt frekar útí það sem hann segir, hver einasta spurning stendur útaf fyrir sig og virkar sem uppsetning á brandara sem Parvulesco klárar síðan með svarinu, hnyttnum lokahnykk.

Það er nákvæmlega þetta sem Hallgrímur og Gerður Kristný voru að gera. Einhver biður Hallgrím um að koma og ræða um kvenkyns rithöfunda. Já já, segir hann. Ég skal sýna ykkur hvað ég myndi skrifa ef ég væri kona. Og svo mætir hann ekki. Hans hlutverki í brandaranum er lokið og hnykkurinn er sá að hann lét ekki sjá sig.
Einhver spyr Gerði Kristnýu hvernig hún myndi skrifa ef hún væri karlmaður. Hún hefur eflaust heyrt þessa spurningu áður í einhverju formi og er e.t.v. orðin þreytt á henni. Ja, ég skrifa einsog ég væri karlmaður. Spurningin er þannig ógild og hún kláraði brandarann sem var lagður upp fyrir hana.

Hvers eiga þau að gjalda að vera síðan grilluð af fólki sem fattar ekki brandarann? Erum við í Sovjetríkjunum? Verið ekki að böggast utaní þessu klára og andríka fólki þegar það segir eitthvað fyndið sem þýðir ekki neitt. Nógu lengi þarf það að bíða eftir réttu spurningunum.

-b.

Engin ummæli: