15 maí 2006

Þessi hét heldur ekki ,,Hjálp, köngulærnar éta mig!"

Ég var að skila síðustu ritgerðinni. Í dag er annar í þynnku. Harðsperrur í kálfunum. Mamma sendi mér sms áðan: ,,Heyrst hefur að þegar Eyþór Arnalds verður bæjarstjóri ætli hann að breyta Árborg í Tuborg." Mér fannst þetta helvíti fyndið.

Það var annars mömmudagur í gær og ég hringdi ekki einusinni í hana mömmu mína. Svei mér. Hugsaði samt til hennar. Gekk um einsog haltur draugur, drakk appelsínusafa og vorkenndi sjálfum mér. Skárri í dag samt. Lítið að gerast.

Innivið beinið er ég ennþá á sveitaballi þegar ég fer á djammið. Eggert Mausari setti Killing á fóninn og þá tók karlinn við sér. Rölti heim og settist í grasið fyrir utan 10-11 um sjöleytið, lét sólina hlýja mér. Hitti Ólöfu fyrir utan Ellefuna, hún var að koma af djassbar í Boston árið 1934. Hitti eitthvað annað fólk líka en man ekki eftir því. Það er strax betra að hanga niðrí bæ þegar nóttin er björt.

-b.

Engin ummæli: