14 maí 2007

Hífa!

Var að taka til áðan og fékk einhvern helvítis sting í mjóbakið. Dálítið aumur. Vona að þetta verði ekki einsog þarna um árið, þegar ég var slæmur í bakinu í marga mánuði. Það var reyndar helvíti skrýtið, ég var búinn að vera helaumur lengi, ónýtur til allra verka, og svo ætlaði ég að fara að háþrýstiþvo planið niðrá Vogum. Dælan var erfið í gang, maður þurfti að toga hana í gang mjög snöggt og mjög fast. Ég tók loksins á henni af öllu afli, rykkti í helvítið, hún hrökk í gang og ég hneig niður af sársauka, einsog einhver hefði sparkað í mjóbakið á mér.

Daginn eftir vaknaði ég sem nýr maður.

En það er þó orðið hreint hérna. Tók til, sópaði og skúraði í bæði herberginu mínu og eldhúsinu. Smúlaði baðherbergið, þreif vaskinn. Þetta þarf ég allt að gera aftur áður en ég flyt út.

Sem verður að kvöldi mánudagsins ellefta júní á þessu ári. Keypti flugmiðann um daginn, þetta er svo gott sem meitlað í stein. Ég kem til með að lenda um ellefuleytið á flugvellinum, tek eina nótt í Reykjavík og reyni svo að byrja að ferja dót yfir í nýju millibilsíbúðina daginn eftir. Þarf vonandi ekki að byrja að vinna fyrren 18. júní, þá hef ég fjóra daga til að koma mér fyrir, einn enn til að fara í brúðkaup og annan til að fagna lýðveldinu okkar.. hvort sem það verður útá götu eða uppí rúmi.

-b.

Engin ummæli: