15 maí 2007

Fólkið á mbl.is

mbl.is greinir frá því að þrír átján og nítján ára strákar hafi verið sýknaðir af nauðgunarákæru. Stelpan þótti reikul í frásögn o.s.frv. á meðan strákarnir neituðu útí eitt. Maður hefur lesið um svona lagað áður. En nú getur maður haldið áfram og lesið um það sem öðru fólki finnst, því mbl.is tengir beint á blóksíður sem ræða þessa tilteknu frétt. Hann Þröstur segir sína meiningu:
Þetta dóm er ekki á réttum farvegi. Dómari mæti taka betur á þessu og dæma í vist , betrunavinnu og fræðslurnámskeið ofl.

Svona dóm eykur meira vanda og finnst mörgum það sé lagi ( sem er ekki lagi ) og halda komast upp með það. nú er mál að setja fleira dómsreglur og ákveðin dómsstigum svo það sé ekki mismuna öðrum dómsþolendum.

Hérna er engin setning í lagi. Og þetta er allt það sem hann hefur um málið að segja. Að svona dóm sé ekki á réttum farvegi og að það auki meiri vanda. Getur maður annað en hlegið að þessu?

Yfirleitt er samt tengill á aðra síðu, ef fleiri en einn hafa sýnt greininni áhuga (sem er yfirleitt málið). Hún Salvör fer aðra leið en hann Þröstur vinur okkar. Hún tengir líka á dóminn í heild sinni, tekur dæmi úr honum og ber saman hvernig sögur fórnarlambsins annarsvegar og ákærðu hinsvegar eru settar fram. Hvort um sig er greinilega umorðun, en það er samt feykilegur munur á. Stelpan: ,,Hún hefði samt ekki grátið eða neitt þannig og jafnvel verið hlæjandi..." Einn af strákunum: ,,...og viðhaft samfara­hreyfingar uns ákærði hefði fellt til hennar sæði." Hjá ákærðu verður frásögnin fagmannleg og allt að því klínísk, á meðan frásögn stelpunnar lítur út einsog gelgjuraus á pappír. Þetta er virkilega góður punktur hjá henni, og eitthvað sem fréttin sjálf kemur ekki nálægt.

..þó svo hún sé eflaust nokkuð hlutdræg sjálf, einsog titillinn á færslunni - ,,Nauðgun á barni" - bendir til.

Fólk hefur auðvitað rétt á því að skrifa það sem það vill, og Þröstur er án efa sáttur við sitt innlegg, en ég held að það sé nokkuð ljóst að almennilegur fréttamiðill tengir ekki á svona rugl. Ég leita sjaldan í þessar tengdu blókfærslur, en þegar maður gerir það á annað borð þá ætti maður sjálfur ekki að þurfa að vinsa út vitleysingana.

Með öðrum orðum: Skamm mbl.is. Ritstýrið þessum andskotum. Veljið og hafnið. Og svo framvegis.

(Mig minnir að Guðni Elísson hafi verið grein einhverstaðar (Lesbók?) um þetta mál.. en ég er latur og nenni ekki að leita hana uppi.)

-b.

Engin ummæli: