23 apríl 2007

Immortal Iron Fist #2 (stórar myndir)

Matt Fraction er kátur karl.

Á Kútter Haraldi? Nja. Þessir gaukar eru í það minnsta á dalli:





Aðallega eru það þessar línur á mörkum síðanna** tveggja:
I will cut out her tongue and listen to her gurgle for mercy.

Would that I could somehow rape her ancestors.

Þetta er bara.. vá. Ofsalega ofbeldisfullt. Eiginlega absúrd. Og þarna sér maður að hann er að horfa eitthvert langt í burtu, lætur augun reika um sjóndeildarhringinn á meðan hann hugleiðir hversu frábært það væri nú ef hann gæti, í alvörunni, nauðgað forfeðrum hennar. Þetta er illmenni.

En hann nær ekki að príla þann hugaþráð til enda því hún sallar þá niður. Jæja.

...

Tilviljun? Katrín kemur heim og alltíeinu dettur internetið hjá mér niður í skrið. Eða skreið? Það sem áður var spriklandi lax í þéttum straumi er nú skraufþurr steinbítur á teini. Hún er hljóðlátur fellibylur þessi kona. Stormur í vatnsglasi sem hringiðar til sín þráðlausum internettaugum og hendir þeim oní frystikistu.

Eða kannske eru Trekkarar annarstaðar í heiminum að fá sér lúr. Hvíla adsl rásirnar. Annars er ég kominn á seinni hlutann í annarri þáttaröð af DS9.

Ég var að hugsa um Deep Space Nine í sturtunni í morgun, lét hugann reika: Þetta er sjónvarpsþáttur þarsem við fylgjumst með allt að því óskeikulum leiðtoga. Hann kann allar reglurnar, er strangur en sanngjarn við starfsfólkið sitt, hefur yndi af hinu smálega í lífinu, hefur sterkan sjálfsaga, les góðar bækur, lifir sínu lífi eftir ákveðinni heimspeki en gerir sig vel skiljanlegan á mannamáli. Þessi leiðtogi er auðvitað of hæfur til að geta verið til í alvörunni, en þættirnir gerast í öðrum heimi.

Fólkið í kringum hann kann vel til verka, sem sést helst á því að þau virðast skilja hvort annað þegar þau velta útúr sér runum af sérfræðingatæknimáli einhverju, en það gerist oftar en einusinni og oftar en tvisvar í hverjum þætti. Það er smá drama hér og þar í kringum einhvern tittlingaskít, en annars eru allir vinir og allir leggjast á eitt því starfið skiptir öllu máli; þeim finnst þau í raun vera að bjarga heiminum.

Og það rann upp fyrir mér að þetta er The West Wing. Meira og minna. Bara útí geimnum. Magnað. Ekki nóg með það: DS9 var í loftinu frá '93 - '99, The West Wing hóf sýningar '99 og entist til 2006. West Wing skarst á við Voyager reyndar, í tvö ár '99 - '01, en það voru allt öðruvísi þættir. Fannst mér, að minnsta kosti.

Annars er allt að gerast bara. Svona í fréttum, á ég við.

-b.

**Nýmóðins orðabækur vilja væntanlega hafa það ,,síðnanna"? Nei takk.

2 ummæli:

[Davíð K. Gestsson] sagði...

Ég vildi óska þess að hann hefði fengið að klára þessa fantasíu sína: ,,I would even...".

Björninn sagði...

Nákvæmlega! Hvaða óhroði hefði komið útúr manninum þá?

En þetta er annars gott trikk, að láta mann lengja eftir því að heyra frekari nauðgunar- og morðfantasíur með því að stoppa manninn í miðri setningu.

Ég greip titilinn á lofti í cgs-poddkast-viðtalinu sem ég benti á um daginn, með honum Fraction. En ég hafði ekki hugmynd um hver þetta var fyrren ég fletti því upp á Wikipediu. En ég man vel eftir þessum gaur, hann og Power Man komu fyrir í amk. einni Daredevil sögu sem ég átti í íslenskri þýðingu. Hann hét Járnglófi eða eitthvað álíka.. Ekki spyrja mig hvað Power Man hét, það hefur verið einhver hörmung.