11 apríl 2007

Kisið mig

... Okkur dótið hætti að vera sniðugt fyrir margt löngu síðan, en Eineygði kötturinn Kisi og hnakkarnir finnst mér nokkuð góð. Það er náttúrulega tími kominn til að einhver geri grín að þessari endalausu hnakkainnreið og það hversu fyrirhafnarlítið metrósexúal-gaufið hefur lagst yfir landið. Skýringarmyndin af hnakkanum er kostuleg, og dæmigerð fyrir söguna í heild. Að benda með hneykslunartón á hárspreyið, træbal-tattúin og rándýru fötin sem hnakkarnir hlaða utaná sig er kannske viðeigandi í svona sögu, en ekkert sérstaklega fyndið. Að þeir skuli vera andlitslausir, og með hnakka báðum megin á kollinum í staðinn er hinsvegar frábær punktur. Húmorinn í þessari bók er voða stúpid, en einstaka sinnum jafn beittur og hann er bitur.

Og nokkrir aulabrandarar einsog ,,felum okkur bakvið egóið hans Bubba" eru síðan brotnir inní söguþráðinn þannig að bókin virkar einsog eitthvað aðeins meira en runa af bröndurum - þótt hún sé alltaf endalaust stúpid: Egóið hans Bubba er skrímsli sem stækkar að lokum svo rosalega að það vinnur sigur á dómsdagsvélmenninu FM957. En það er bara fjör.

Merkilegast finnst mér að hún skuli, þrátt fyrir alla vitleysuna, skjóta inn nokkrum gullfallegum römmum. Síðan þarsem Björn Jörundur flýgur til bjargar á töskugeimskipinu sínu og grípur kanínuna, þarsem hún fellur úr turni skemmtistaðarins, er til dæmis mjög sérstök. Hún minnir frekar á ofur-Evrópska ljóðmyndasögu um svefngengla og prinsessur og ferðir til tunglsins heldur en ógeðisstrípu um eineygðan kött og klósettpappírsskrímsli. Heil myndasaga í þessum tón væri eflaust hrikaleg.. En síðan svínvirkar samt í þessu samhengi, og sýnir fýlupokum einsog mér að Hugleikur er fær um annað en spýtukalla og grótesku.

-b.

Engin ummæli: