04 apríl 2007

Flug - fegurð - framtíð (- fiskur?)

Best að skrifa þetta bara á meðan það gerist.

Ég er tímanlega á ferðinni í morgun. Vakna klukkan níu, kominn útúr húsi að verða tíu, lestin rennur af stað tuttugu mínútur yfir. Labbið í næstu flugstöð gengur áfallalaust, taskan sem ég tékka inn er rétt yfir 14 kílóum og ég fjúkka í huganum. Lána fjölskyldunni á eftir mér penna, vitandi það að hann skrifar illa en það er a.m.k. betra en ekki neitt. Þar sem ég sit og skrifa þetta sitja þau tveimur borðum í burtu.



Við setjumst inní vél klukkan eitt, flugmaðurinn skipar ,,arm the plane," og landgangurinn bakkar aftur á sinn stað. Við erum greinilega að fara að sprengja Ítalíu eða þýskaland. Flugfreyjurnar eru byrjaðar á öryggisdansinum sínum (við horfum öll á hendurnar á þeim) þegar flugstjórinn endurkallar fyrri skipun: ,,disarm the plane."

Ókei.

Það eru tíu mínútur í vélvirkjana, segir hann. Einhver rofi þarna framí er bilaður. Við bíðum. Fjórir vélvirkjar mæta uppað landgangnum, tveir og tveir saman, hvort parið á sínum bíl. Rauðum nissan hábak. Stuttu seinna segir flugmaðurinn okkur að þeir hafi fundið hvað er að, nú þurfi þeir bara að finna tólin til að laga það. Tíu mínútur, segir hann. Svo líður og bíður. Og ennþá eru það tíu mínútur. Stelpan í sætinu á ská fyrir framan mig talar bara sænsku en það gerir engin af flugvfreyjunum. Hún spyr sífellt hversu langt sé þangað til við leggjum af stað. Tíu mínútur, segja freyjurnar. Einhverntíman á þessum tíu mínútum fer hún að gráta. Svo spyr hún hvort hún megi kveikja á símanum sínum, jú hún má það. Sendir foreldrum sínum skilaboð, sem ætla að sækja hana á flugvöllinn.

Flugfreyjan gengur framhjá og stelpan spyr hversu langt sé í brottför. Flugfreyjan talar bara íslensku, en gerir það hægt. ,,Það Gætu Verið Tíu Mínútur.. Eða Einn Klukku Tími.. Ég Veit Það Ekki." Og hún yppir öxlum.

Ég er pirraður og þreyttur. Legg mig yfir tóma sætið við hliðina, jakkinn í vegginn og sofna.



Kallkerfið vekur mig klukkan að verða þrjú og færir mér hálsríg. Það er flugmaðurinn. Hann segir að þeir hafi borið kennsl á vandamálið, en þurfi að bíða eftir varahlut. Hann kemur frá Osló eftir tvo tíma. (Heppilegt að vélin hans sé ekki biluð, hugsa ég.) Síðan taki tíu mínútur að gera við vélina. Áætluð brottför korter í sex. Vinsamlegast takið þessa afsláttarmiða uppá 75 danskar krónur og fáið ykkur að borða inní flugstöð, kannske eitthvað að drekka. Gerið svo vel að taka allan farangur með ykkur úr vélinn [ef skyldi vera að vélin lagist bara ekki og við þurfum að farga henni, fleygja hræinu oní ómerkta flugvélargröf og segja ykkur að koma aftur á morgun].



Piff. Mig langar ekki í mat. Ég kom með samloku. Kaupi mér kippu af Carlsberg og dollu af hnetum. Á dollunni stendur m.a. að hún innihaldi ,,flavour enhancer (E621)" og ,,may contain traces of nuts." Ég skyldi nú vona það. Rusla því oní mig á meðan ég sit og skrifa um það hvernig ljóta flugfélagið fer með mig. Kaupi líka svona hipp lítinn tinbauk af Fisherman's Friend. Hef ekki séð þá áður. Þegar ég opna hann er poki af Fisherman's Friend inní. Seim óld seim óld.



Batteríið á lappanum hrynur niðrí 72 prósent á meðan ég skrifa og það er bara kominn klukkutími. Ég verð að öllum líkindum ekki kominn í bæinn fyrren um níuleytið að staðartíma. En í millitíðinni á ég nokkra bjóra og slatta af hnetum. Og hálsríg.

...

Nú er ég kominn í vélina, það eru tæpir tveir tímar í lendingu. En sjáum nú til.

Klukkan korter í sex er okkur hleypt aftur inní vél. Okkur er bent á að fjölskyldur með ung börn hafi forgang, og ég undra mig á því að þau vilji láta þann hóp bíða inní flugvél lengur en okkur hin. En gott og vel. Allir setjast í sætin sín nema ég, en það er par af gömlum austanlandsbúum í tvíplássinu sem ég hafði áður útaf fyrir mig. Ég segist hafa þetta sæti en þau virðast ekki skilja hvað ég á við. Ég sest í aftari röð, en hef blessunarlega ennþá tvö sæti útaf fyrir mig. Allir eru sestir og vilja burt, en ekkert gerist. Ein af flugfreyjunum gengur framhjá og fær spurninguna: ,,Förum við ekki að fara í loftið?" Ekki strax, segir hún, ,,þeir eru að gera við." Ennþá. Og hún veit ekki hvað við skulum bíða lengi enn.



Hálftíma eftir að við setjumst kemur flugmaðurinn í kallkerfið og útskýrir stöðuna. Varahluturinn er fastur í tollinum, eitthvað sem þeir áttu alls ekki von á. Fimm mínútur í að hann komist til okkar, og svo tíu til tuttugu mínútur í viðgerðir og svo fljúgum við, segir hann. Þetta með tollinn er annaðhvort sorgleg lygi eða ennþá sorglegri sannleikur - bölvað flugstöðvaskrifræðið er samt við sig.

Flugfreyja grípur í kallkerfið og endurtekur á íslensku það sem flugstjórinn sagði áður á ensku. Fimm mínútur, tuttugu mínútur. ,,Má ég fá mér sígarettu á meðan?" spyr ljóshærður móhíkanagaur, þrem röðum fyrir framan mig. Mér fannst það gott hjá honum. ,,Mín vegna." ,,Nei," segir flugfreyjan, ,,því miður." ,,Afhverju ekki?" ,,Því miður."

Einhverju síðar tek ég eftir því að rauði Nissaninn er kominn aftur. Og korter yfir sjö, réttum sex tímum eftir að við áttum að fara í loftið, fáum við skipunina aftur í pall: ,,Arm the flight." Einhverjir ánar afturí vél klappa þegar vélin sleppir loksins jörðinni en flestir eru drullupirraðir. Á þeim tíma sem við biðum eftir að þeir skiptu um varahlut hefðum við getað farið heim til Íslands og aftur tilbaka. Mér finnst það frekar fyndið. Og það hefur náttúrulega ekkert uppá sig að pirrast útí flugfreyjurnar. En mér þykir furðulegt að þessi bilun skuli ekki hafa komið upp fyrren við vorum að leggja af stað. ,,Hjá Iceland Express er öryggið ávallt í fyrirrúmi," byrjar textinn við öryggisdansinn. Maður má kannske vera feginn því að þeir skyldu grípa bilunina áður en vélin var komin í loftið, en mér þykir það lélegt öryggisviðmið að hafa ekki yfirfarið helvítis blikkdósina áður en fólk er sest inní hana.

Og hana.

Einn og hálfur tími í lendingu. Hlusta á Ratatat og á ennþá tvo bjóra eftir af kippunni sem ég nenni ekki að drekka.

Eru þetta Færeyjar? Greinilega. Hm. Ég hef ekki séð færeyjar áður. Þær rétt gjægast útundan skýjahulu sem nær síðan eins langt og ég greini, rennur saman við himininn í fyrst rauðum, svo gulum, svo bláum og þaðan uppí dekkri bláan með skýjum sem hanga ennþá ofar.

Það er ekki erfitt að ímynda sér að stíga niður í þessa hvítu breiðu, leggja vegi og skólprör og setjast að í kulda og blæstri og eilífri sól yfir Norður-Atlantshafi. Ja, ég myndi vitaskuld ekki gera það sjálfur.. ég myndi fá fólk í það. Ýta því síðan framaf þökunni þegar það vill fá greitt.

Og núna er ég bara að skrifa það sem mér dettur í hug því ég hef ekkert annað að gera. Gaukur í blá/hvít-teinóttri skyrtu gengur um gólf með ungabarn. Fólk situr og les og stendur í biðröð á klósettið. Vélin titrar pínulítið. Framundan sé ég hvar ægistór sprunga skiptir hafsbotninum í tvennt og gleypir sjóinn sem vellur yfir barmana, einsog Færeyjarnar hafi sest í kúfullt baðkar. Hvað verður um allan þennan sjó? Fyrir aftan mig stendur vængurinn útúr vélinni. Hann blikkar sprunguna með broddljósunum. Hún gleypir blikkin líka.

Batteríin í vélinni duga mér þartil við komum að ströndum Íslands. Kannske skemur. Þannig að ég kem ekki til með að geta lýst þjóðvegum í hrauni jafnóðum og ég sé þá. Sem er eina skemmtilega leiðin til að lýsa þjóðvegum. Og hrauni. Og nú sé ég að við erum með mótvind. Það hlaut að vera. Lítil stelpa í hvítum bol labbar framhjá mér. Í röðinni við hliðina stendur lítil ljóshærð stelpa og spjallar við sköllóttan mann. Ég sé sænsku stelpuna hvergi, en hún hlýtur að vera hérna einhverstaðar. Og ungabarnið sem röltir um gólfin. Og minnsti strákurinn, bróðir stelpunnar í hvíta bolnum. Fólk er að flýja land með börnin sín.

Bill Hicks vildi banna börn í flugvélum um leið og þeir bönnuðu reykingar. ,,Fyrst þið seinkið vélinni, má dóttir mín þá koma með okkur til Íslands?" ,,Nei, því miður." ,,Afhverju ekki?" ,,Því miður." Konan sem á ljóshærðu stelpuna minnir mig á Jónínu, systur hans Fúsa. Ég var svei mér ekki viss þegar hún gekk inní biðstofuna. En nei, Jónína hefði haft tvö börn á mjöðminni, ekki bara eitt. Það borgar sig að muna svona hluti.

Klukkutími í lendingu. Helvíti er að geta ekki sofið. Fyndið að sjá öldur svona útá rúmsjó.



-b.

Engin ummæli: