16 febrúar 2007

Rome, Studio 60 og ó hversu gaman það er að horfa uppá fólk skemma sig (spoilerar)

Önnur þáttaröð af Rome byrjar á sama augnabliki og sú fyrri endaði: Það er nýbúið að drepa Sesar í þinginu, og Vorenus kemst að því að konan hans átti barn með öðrum manni á meðan hann var í hernum fyrir norðan, sem verður til þess að hún fyrirfer sér. Og síðan versnar ástandið snarlega. Markús Antóníus er hundeltur á götum Rómar af mönnum Kassíusar, Vorenus gerir sig líklegan til að drepa gauksungann - sem hann hafði áður talið dótturson sinn - en er að lokum talinn af því, og lætur sér nægja að bölva fjölskyldu sinni allri og rjúka á dyr.

Nota bene**, það er heilmikið gert úr bölvunum í þessum fyrstu tveimur þáttum. Það er ekki einsog hann sagi ,,fariði fjandans til" og skelli hurðinni; hann er að skipa þeim, sem höfuð fjölskyldunnar, að fara og koma aldrei aftur, og þegar þau deyja skuli þau beina leið til helvítis. Eða Hadesar, eftir því sem þið viljið.

Þegar hann tekur loks sönsum og heldur heim að aflétta bölvuninni, þá eru þau öll horfin. Þeir Pullo frétta að óvinur Vorenusar hafi komið í millitíðinni og haft þau á brott með sér. Þeir elta hann uppi, drepa menn hans og krefjast fjölskyldunnar aftur. Sorrí, segir hann. Ég reið þeim öllum, drap þau og fleygði þeim í ána. Verinus heggur af honum höfuðið og þátturinn endar.

Þetta finnst mér ekta gott sjónvarp, og ég vil taka annað nýlegra dæmi áður en ég fer lengra.

Eftir að Studio 60 kom úr jólafríi komu þrír þættir sem gerðu samasem ekki neitt. Þeir ræstu einhverja rómantík sem var búin að vera lengi í uppsiglingu og var óttalega óspennandi, og ráku endahnútin á aðra rómantík sem var búin að vera lengi að detta í sundur og var jafnvel minna spennandi. Geisp.

Í síðasta þætti kvað við annan tón, að vissu leyti. Þar sjáum við hvernig stressið hefur náð tökum á Matt, aðalskrifaranum, og hann er farinn að gleypa pillur til að halda sér við lyklaborðið. Hann fær ofsjónir og getur ekki einbeitt sér að því sem er í gangi í kringum hann, en flestir sem vinna með honum eru of uppteknir af sjálfum sér til að fatta hvað er að gerast. Að vísu sýnist manni einsog pródúserinn, vinur hans, sjái hvað er í gangi en kjósi að minnast ekki á það svo Matt geti haldið áfram að skrifa - svo þátturinn geti haldið áfram. En það er jafnvel verra.

Eða betra.

Því þegar þátturinn endar á Matt, einum á skrifstofunni sinni að taka pillur oní bjór á meðan hinir byrja að taka upp ,,Studio 60" á hæðinni fyrir neðan sagði ég Já! Núna er eitthvað að gerast. Þetta er auðvitað ekkert á borð við það að valda dauða eiginkonu sinnar og missa síðan fjölskyldu sína, eftir að hafa bölvað henni til helvítis, en þetta er a.m.k. skref í rétta átt. Og ég fattaði að það er andskotann ekkert gaman að horfa á fólk fara á deit og bjarga fyrirtækinu, ég vil sjá fólk steypa sjálfu sér í glötun og ég vil sjá fólkið í kringum það horfa uppá hlutina gerast án þess að skerast í leikinn. Þegar drama er annarsvegar vil ég sjá tragedíu.

Það var af nægu slíku að taka í framhaldinu af Rome þegar Vorenus gerist snaróður glæpaforingi, á hraðri leið með að drepa sjálfan sig og þá sem eru í kringum hann - vitandi það að fjölskylda hans öll er dauð og farin til helvítis, þar sem honum gafst ekki tími til að aflétta bölvuninni. Hann sekkur neðar og neðar, og það er unun að fylgjast með þessum áður stolta hermanni, einum af höfuðlífvörðum Sesars, slá upp búðum á götunni, opna hóruhús, bölva guðunum og drepa mann og annan. En seinna kemst hann að því að fjölskylda hans var seld í þrældóm, hann fer og sækir hana og.. já, svo hef ég ekki horft á meir. En mér finnst ég hafa verið snuðaður um eitt stykki hörmungarsögu.

Ég hef það samt á tilfinningunni að þetta komi ekki til með að enda vel, svona þegar allt kemur til alls. Ég man ekki eftir því að nokkur karakter í Rome hafi fengi að ganga útaf sviðinu hægra megin með bros á vör. Kannske ætti maður að taka þessum uppsveiflum sem einskonar pásum, tómi þar sem persónurnar fá að draga andann á meðan frekari hörmungum er stillt upp fyrir þær. Ég vona það allavega. Farsæl endalok eiga ekki heima í kapaldrömum.

Studio 60 veit ég hinsvegar ekki um. Ég vona bara að þeir leyfi þessu að versna nógu mikið áður en grey dópistinn er dreginn í land.

-b.

** tíhí, ég sletti á latínu. En viðeigandi.

Engin ummæli: