04 febrúar 2007

Dagamunur

Alltíeinu er kominn fjórði febrúar. Núna nýlega hef ég:
 • Horft á fyrstu seríu af 24. Eða, einsog ég hef nú kosið að kalla þættina, Börn og konur gera heimskulega hluti og Jack Bauer kennir sjálfum sér um alltsaman og biður fólk fyrirgefningar í 24 klukkustundir. Þetta eru ágætis þættir, og formið er nokkuð sólid, en það er ekkert við þá sem stekkur fram og segir mér að fylgjast með.. Og að þeir skuli fleyta eiginkonunni áfram um nokkra þætti með því að gefa henni minnisleysi finnst mér bara leim.
  Gott þegar hann skar puttann af gaurnum þarna samt. Og svo ekta byssubardagi í lokin.
 • Séð Hollywoodland. Enn ein Hollywood-skáldævisagan og ekkert mikið á seyði. Affleck kom mér þokkalega á óvart og myndin sem slík er vel smíðuð, en hún er ekkert sérlega eftirtektarverð.
 • Heimsótt Carlsberg verksmiðjuna. Í dálítilli hraðferð, þarsem við vorum pínu seint á ferðinni, en það var samt gaman að fara þarna í gegn. Sá svarthvíta auglýsingu frá '37 þarsem þeir sýna bjór í aldanna rás, skápana þarsem starfsmenn geymdu daglegu bjórskammtana sína (fjóra lítra ef ég man rétt), og rúmlega þrettán þúsund bjórflöskur í uppstillingu. Carlsberg frá Kína og Taílandi og þriðja ríkinu. Bjórflösku sem bjargað var úr skipbroti, aðra úr takmörkuðu upplagi krýningarbjórs frá Bretlandi á sjötta áratugnum. Og í lokin fékk ég mér dökkan lager og öl.
 • Verið í nánu sambandi við bankann minn, þarsem fjármálin eru í bölvuðum ólestri hjá mér í augnablikinu.
 • Sorterað tölvupóstinn minn og hent í möppur eftir árum. Elsta bréfið er frá áttunda apríl 2003, skömmu eftir klukkan eitt eftir hádegi. Þar segir Hallur meðal annars: ,,Eg veit ekki rassgad hvad eg à ad setja meira i thetta djoflurugl. Eg held eg setji ekki neitt. Veridi bara thaegir og godir thangad til naest tharna dryslar.... drysladot.
  Hak Kak Hinkak. Blez dràkar o veridi gùl. Svaridi mer lika , thad er rosa gaman."
 • Barmað mér yfir lélegu netsambandi. Þessa stundina sýnist mér það meira að segja liggja niðri aftur, eftir að hafa verið að stríða mér í allan dag, og síðustu daga af og á.
 • Hobb, þarna kom það aftur. Best ég hendi þessu inn á meðan ég get.

-b.

Engin ummæli: