06 febrúar 2007

Aukið mér leti og hugarró, bíó

Fleygi þessu upp hérna líka, ef svo ólíklega vill til að hingað rati fólk sem les ekki vitleysinga..

...

Ókei, hérna er fólk sem hefur horft á kvikmyndir. Ég er að leita að tveimur b-myndum, vísindaskáldsögum, sem ég sá einhverntíman þegar ég var krakki. Ég man varla neitt eftir þeim, nema einstök atriði, og mig langar að vita hvað þær heita.

Þá fyrri finnst mér ég hafa séð í Fjalakettinum svokallaða á RÚV, þegar ég átti ennþá heima austur í sveit, eða skömmu eftir það, svo ég hef verið sirka fjögurra fimm sex ára. Eða ekki. Allavega, mig minnir að þessi mynd gerist í geimnum, hún er allavega nógu fútúrísk í minningunni. Það eina sem ég man virkilega eftir er einhverskonar apparat sem aðalskúrkurinn notar til að drepa menn. Það eru fullt af svona opum, eða túbum, sem standa saman í haug, og hann fær menn til að stinga höndinni oní eitt af þeim til að sækja.. eitthvað. Ef þeir velja það rétta þá er þar eitthvað sem þeim vantar, annars eru þeir bitnir og deyja skömmu síðar.

Þetta er svona rússnesk geimverurúlletta.

Svo er hetjan komin til að gera nákvæmlega þetta, stingur hendinni oní og þykist vera bitinn, og þegar skúrkurinn fagnar sigri grípur hetjan tækifærið og.. eitthvað. Kýlir hann kaldan? Eitthvað flóknara kannske, en hann grípur daginn. Þetta er það eina sem ég man.

Það hljómar skringilega að segja frá þessu, en þetta er eitt af þessum smáatriðum sem maður man, án þess að nokkrar aðrar minningar tengist því á neinn hátt. Og mig langar að vita hvaða mynd þetta er, satans.

...

Seinni myndina held ég að ég hafi séð talsvert síðar, mögulega niðrá Sólheimum í einhverri heimsókninni. Það eru sko þessir tveir gaurar sem eru í ákveðinni sendiferð, á flótta undan einhverjum ribböldum, og takmarkið er að hitta geimverur útí skógi. Það er búið að ákveða fund á milli jarðarbúa og þessara geimvera, en í staðinn fyrir glas af vatni eru geimverurnar tilbúnar að gefa jarðarbúum annaðhvort eitthvað hókus pókus til að losna við mengun og þessháttar á Jörðinni, eða einhverskonar tortímingartól sem grandar.. ja, öllu býst ég við. Þetta kalla þeir ,,The Gift" annarsvegar og ,,The Gun" hinsvegar.

Þessir gaurar sem við fylgjumst með vilja fá Gjöfina, en óþjóðalýðurinn sem er á hælum þeim vill komast yfir Byssuna. Mig minnir á einhverjum tímapunkti sveifli annar þessara gaura sér á milli svala á hóteli með því að nota skóreimarnar sínar.

Mér er að detta í hug að þetta gætu allt eins verið sjónvarpsþættir.. Hvortveggja gætu verið úr Twilight Zone, ég hef ekki hugmynd. En kannast einhver annar við þetta?

-b.

Engin ummæli: