19 febrúar 2007

Lestur í lestum

Lyftan hérna á Árnasundi er þrjátíu og fimm sekúndur að klifra úr jarðhæð uppá níundu hæð. Hún er jafnlengi niður aftur. Það þýðir að hún er rétt tæpar fjórar sekúndur að koma sér á milli hæða, sem mér finnst óþarflega langt.

Ég kíkti í mat til Ýmis og Kristínar, þarsem ég fékk kjúkling á disk og svo bolludagsbollur í eftirmat. Með þeyttum rjóma. Það var ekta. Á leiðinni til baka tók ég 5A í staðinn fyrir S350, því hann er aðeins lengur á leiðinni (fleiri stopp) og þá gæti ég slappað af með bókina mína. Mér fannst það gott plan. Rankaði síðan við mér þegar hann var að keyra framhjá Nörreport stöðinni, svo ég fékk smá rölt tilbaka í metróinn.

Það vildi ég óska að ég gæti bara setið í lest og lesið. Maður fær að vera í friði en það er alltaf einhver hreyfing í kringum mann. Ef maður verður þreyttur á að lesa getur maður skoðað fólkið eða bara horft útum gluggann.

Ég kláraði Mao II niðrí þvottahúsi í gær. Þetta er svona snöggorð og sniðug pæling um skrif, hryðjuverk og hópa-mentalitet. Einn á móti fjöldanum eða einn inní fjöldanum.. ,,The future belongs to crowds," segir hann. En þó virðist alltaf einhver þurfa að leiða fjöldann.

Já.

Og núna er ég í Extremely Loud and Incredibly Close, sem greip mig betur en Everything is Illuminated eftir sama höfund, Jonathan Safran Foer. En ég var að vísu ýmislegt annað að gera þegar ég byrjaði á þeirri bók. Sögumaðurinn er reyndar nett óþolandi krakkaandskoti, en hann er tiltölulega nýbúinn að missa pabba sinn og maður gefur honum séns.

Báðar þessar bækur gætu allteins verið til lestrar í hinum kúrsinum, um póstmóderníska skáldskapinn.. Það er spurning hvort allar elleftaseptember-skáldsögurnar sem við komum til með að lesa geti fallið í þann flokk, hvort sjónarhorn skáldsögunnar á þessa atburði markist af bullandi póstmódernisma. Það kæmi sosum ekki á óvart. En ég er að velta þessu upp eftir að hafa byrjað á einni stakri bók, svo við skulum ekki sleppa okkur alveg.

Það væri annars pæling, með hvaða ljósi skáldskapur hefur sýnt lesendum önnur og fyrri ,,stór atvik" í mannkynsögunni. Eða sögu þjóða. Og sumir myndu benda á að slíkir atburðir hafi óbeint getið af sér nýjar leiðir í listsköpun, samanber iðnvæðing og módernismi. Fyrir Ísland? Umm.. Handritin heim? Gamli sáttmáli? Örlygsstaðabardagi? Spánska veikin? Móðuharðindin?

Ég þekki ekki íslenskar bókmenntir.

-b.

Engin ummæli: