29 janúar 2008

Frekar af bústaðarferð

Nei heyrðu annars. Það var ekki terpentína sem við drukkum á föstudeginum, það var bjór. Ferðin heldur samt nafninu. Og nú skal hún skrásett nánar:

Þegar ég kom heim úr vinnunni sat Víðir á stól fyrir framan dyrnar og beið eftir mér. Ég opnaði hurðina og hann sagði komum af stað. Hann var spenntur. Hei ég var það líka. En ég þurfti aðeins að græja mig, og Davíð yrði ekki búinn í vinnunni alveg strax. Þetta er svona: til að eiga efni á afslappelsi í sumarbústað þá þarf maður að vinna framá myrkur aðra daga. Og plánetan snýst.

Við gerðum okkur tilbúna og hentum þessum örfáu ferðapokum okkar í skottið á bílnum hans Víðis. Við sóttum Egil í verkstæðið hans og héldum til Davíðs. Þar sat Ari og vildi sýna okkur Guitar Hero-kúnstir sínar, sem voru þó nokkrar. Davíð lenti vígreifur og við sögðum komum af stað. Ég skrifa ekkert um það að lykillinn að bústaðnum skyldi ekki finnast undireins.

Stopp í tíu ellefu, stopp á enn einum og svo engin stopp fyrren á Grímsstöðum. Ég dró upp diktafóninn og skrásetti upphaf ferðarinnar, menn sögðu gamansögur og kölluðu hvor annan skrautlegum nöfnum, einsog vera ber. Víðir keyrði og ég fyllti úlpuvasann minn af pistasíuskeljum úr tíu ellefu. Ferðin gekk vel, fjöllin voru ekki of grimm með vindunum sínum og hrákum af skafrenningi yfir veginn okkar. Það kostar 900kall í göngin, og hefðum við verið á Fear and Loathing-ferðalagi með öllu tilheyrandi hefðum við örugglega ekki séð eftir tæpum þúsundkalli til að draga leðurblökuslektið inní hellinn aftur. En það kemur sjálfri ferðinni ekki svo mikið við.

Þegar við komum uppúr Borgarnesi og inná afleggjarann að bústaðnum fór að setja í veðrið. Vegurinn var temmilega þungur - við hefðum fráleitt komist þetta á fólksbíl - og á tímabili var snjókoman svo mikil að við rétt sáum glitta í næstu stiku, renndum eftir djúpum hjólförum í slóðanum og leituðum að Grímsstaðarljósastaurnum í myrkrinu. Við höfðum enn ekki komið auga á hann þegar við keyrðum framá sumarbústað og vorum þá komnir of langt. Við snerum við. Nú sat Davíð framí og vísaði sem best hann gat í gegnum fannfergið, við komumst uppað Grímsstöðum og þóttumst sjá hvar vegurinn að bústaðnum kæmi handan við trukkinn framundan, Víðir gaf í og festi bílinn í skafli svo hann sat á maganum.

Við Davíð gripum nokkra poka og lögðum af stað niðrí bústað að sækja skóflur. Vindurinn var í bakið en snjórinn náði okkur sumstaðar uppí mitti. (Ja, hann náði mér sumstaðar uppí mitti.) Og við vorum ekki beint klæddir fyrir svona ævintýri, í gallabuxum og úlpum og þótt ég hefði húfu og vettlinga þá öfundaði ég Davíð af treflinum hans. Ferðin tók svona rúmar tuttugu mínútur, það sem annars hefði tekið rúmar fimm. Og þegar við komum uppí bústað þá var bara ein skófla á svæðinu. En við komum pokunum fyrir, kveiktum uppí því sem hægt var að kveikja uppí og lögðum af stað tilbaka. Egill og Víðir höfðu grafið þónokkuð undan bílnum og eftir dálítinn mokstur í viðbót náðum við að losa hann. Víðir lagði á grynnri snjó, við hlóðum restinni af draslinu á okkur, röðuðum bjórnum á snjóþotu og lögðum af stað aftur. Þessi önnur ferð að bústaðnum var talsvert svipuð þeirri fyrri. Ferðin heiman frá Davíð hafði þá tekið rúma þrjá tíma, líklega nær fjórum.

Það sem var svo hrikalegt við að koma að bústaðnum í fyrri ferðinni var að vita að við þyrftum að fara þaðan aftur. Þessvegna stoppuðum við stutt og ég vildi ómögulega hvíla mig og hlýja í bílnum þegar við komum með skófluna, vegna þess að ég myndi þurfa að dýfa mér oní snjóinn aftur hvorteðvar. Að koma í bústaðinn í annað sinn, hinsvegar, vitandi það að ég myndi ekki þurfa að stíga útfyrir dyrnar aftur fyrren á sunnudaginn, var ein góð tilfinning.

Þegar við lentum í fyrra skiptið uppgötvaði ég það að diktafónninn hafði verið í gangi alla leiðina frá því þegar við snerum við, og ég hafði þá fest festinguna og fyrra bröltið uppí bústað á band. Tækið var hinsvegar vafið í sokk og geymt í peysuvasa innanundir úlpu, svo það er líklega ekki margt að heyra..

Og ég get ekki sagt frá fleiru, vegna þess að á leiðinni heim var gert samkomulag um að við myndum ekki greina frá því sem gerðist í bústaðnum. Þessu lýkur þessvegna við þröskuldinn. Nattsj.

-b.

Engin ummæli: