30 ágúst 2006

I Denmark (400)

Meira vesenið.

Nú er ég búinn að vera hérna í tæpa viku, og eftir smá stund er ég loksins að komast á netið. Ef allt gengur upp.. ef allt gengur ekki upp þá býst ég við að það verði meir bið á þessu, og enginn les þessi orð fyrren seint og síðarmeir. Ég finn að fingurnir eru komnir úr æfingu, fjandinn hafi það. Vélrita einsog í ryðguðum danssporum, hreyfingarnar of meðvitaðar til að leyfa frelsi annars huga.

Lenti á föstudag. Ása tók á móti mér, leigari heim til hennar og svo tók ég lestina (aleinn, sko mig) frá henni til Lyngby, með einni skiptingu í Hellerup. Tvær ferðatöskur, bakpoki og plastpoki. Mér reiknast til að þetta hafi verið tæp 50 kíló, án gríns. Ég pakkaði þeirri stærri niður þannig að hún rétt slefaði yfir 20 kíló (hún skyldi á bandið á flugvellinum), en sú minni var alveg jafn þung. Ég myndi taka hana í handfarangur og vona að hún yrði ekki vigtuð, sem gekk eftir. Bakpokinn hélt í sér tölvunni og allskonar drasli sem ég treysti töskunum ekki fyrir, og seig í.

Allavega.

Þetta er það sem ég var að bera með mér í gegnum lestirnar. Og útúr lestarstöðinni, þarsem ég fattaði að ég vissi ekki hvert ég átti að fara. Ég mundi að íbúðin var einhverstaðar fyrir norðan lestarstöðina, á vegi sem héti Rævehojvej, en sá hann ekki á neinum kortum. Gekk að einhverju sem virtist vera miðbær fyrir plássið og hringdi í Ými. Hann hafði gerst svo hjálplegur að búa til kort handa mér, hvaða strætó ég ætti að taka frá Norrebro og hvenær ég ætti að stoppa - sá færi beint á staðinn. En ég tók lestina en ekki strætóinn, og var þess utan ekki með kortið - gleymdi því í prentaranum heima á Heiðarveginum.

Ýmir benti mér á strætóstopp sem var í nokkurra metra fjarlægð. 300s hét sá. Draslaði draslinu uppí hann, sat, draslaði því út aftur og bar það síðan yfir brú niður þennan Rævehojvej (sem virtist nær endalaus þegar þangað var komið). Þegar ég loksins fann herbergið var ég búinn að skemma handfangið á stóru töskunni hennar mömmu. Settist niður og sofnaði.

Þegar ég vaknaði daginn eftir fannst mér einsog ég væri þunnur, en það var bara vegna þess að ég hafði ekkert drukkið síðan í flugvélinni. E-coli sýkingin í vatnsbólinu sem þetta kollegí notar hélt mér frá því að svolgra kranavatnið, svo ég þurfti að gjöra svo vel og rölta eitthvað að kaupa mér vatn.

Laugardagur og sunnudagur voru ekki merkilegir. Ég skoðaði mig um.

Á mánudeginum tók ég lestirnar niður til Orestad, bankaði uppá í skrifstofunni og fékk lyklana með furðu litlu veseni. Ég hafði samt ekki tekið töskurnar með mér, því ef eitthvað hefði komið upp, þá hefði ég þurft að taka þær með mér tilbaka. Flutti loksins inn í gær, en var ekki kominn með rúm í staðinn ennþá svo ég svaf á fötunum mínum. Vaknaði í hvert skipti sem ég bylti mér, en maður hefur vissulega þolað það verra. Og ég ætlaði sko ekki að fara aftur til Lyngby, sama hversu lítið drasl ég kæmist upp með í þetta skiptið..

Íbúðin er galtóm. Það eru tvö önnur nöfn á hurðinni (þriðja er á leiðinni, býst ég við) en enginn fluttur inn ennþá. Þetta er líka dálítið einsog Stóri Garður þegar fólk byrjaði að flytja þar inn, allstaðar verið að byggja í kring og ekki allt klárt í húsinu sjálfu. Það liggja svalir utanum hverja hæð fyrir sig. Gaurinn útskýrði fyrir mér (á dönsku) að þetta væru jú mínar svalir, en ég mætti samt ekki henda neinum stórum hlutum þar út, því þetta væri líka brunastiginn.

Herbergið mitt á víst að vera 12 ferimetrar, en þetta er ekkert beisikk 3x4 neitt. Það lítur svona út:



Ég nenni ekki að teikna restina af íbúðinni.

Og ég nenni eiginlega ekki að röfla mikið meira í bili, þetta net-drasl hlýtur að vera dottið inn núna.. tékkum.

-b.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta hefur nú verið meira vesenið. Ég samhryggist. Ertu kominn með dansk símanúmer?