21 ágúst 2006

Hann Davíð, þið vitið

Úr gamalli stílabók:

Á íslensku má alltaf finna svar
þá inntur ert'að hví og hver og hvar,
því dafna ennþá djöfuls hálf-lygar
og Davíð fær sér meiri kavíar.


Rakst á þessa bók þegar ég setti í kassa um daginn. Las í gegnum hana núna áðan. Hún er keypt tíu dögum áður en ég fer út í heimsókn til Halls í Quimper árið 2004. Ég man sosum nógu vel eftir ferðinni, en ekki endilega hvernig ég upplifði hana á þeim tíma.. svo það er gaman að líta yfir þetta.

Rímar skemmtilega við það sem er í gangi núna því það eru þrír dagar rúmir í brottför og ég veit ekki alveg hvernig mér líður. Það saxast á listann sem merktur er ,,það sem ég þarf að gera áður en ég fer út" og ég vona að ég sé ekki að gleyma neinu.. núna á eftir ætla ég að pakka niður því sem ég get, sækja og skila því sem ég á eftir að sækja og skila, og þá fer þetta að verða komið.

Til þess að fá lyklana að íbúðinni þarf ég að hringja í umsjónarmann íbúðanna í þessari tilteknu byggingu a.m.k. þremur dögum áður en ég ætla að flytja inn, og arrangera fund. Ég verð að hafa með mér undirritaðan samning og kvittun fyrir innlegginu. Ég hef enga kvittun fyrir innlegginu, en vonandi duga ljósritin af tékkanum.. danske bank sendir víst enga pappíra hingað vestur fyrir svona löguðu.

Ég hringdi í morgun og það var á tali. Það var á tali næstu tuttugu mínúturnar og þá var símatíma hjá téðum umsjónarmanni lokið. Á morgun er semsagt síðasti séns ef ég ætla að hitta hann á föstudaginn, eftir að ég lendi.

Það væri gott að hafa eitthvað bakköpp.. en vonandi gengur þetta bara. Það fara tugir íslenskra námsmanna útí lönd á hverju ári, og einhvernvegin virðist þetta ganga upp. Afhverju ætti það ekki að vera fyrir mig líka?

-b.

Engin ummæli: