02 apríl 2008

Heimkominn úr Svíabríaría

Þá er ég kominn heim og sit á stólnum mínum í vinnunni.

Gærdagurinn fór svo að segja allur í ferðina heim. Ég vaknaði að verða ellefu, við vorum lögð af stað klukkan tólf og keyrðum til Malmö í einum rykk. Þar borðuðum við nautasteik á trébretti sem var ljúffeng og keyrðum síðan smá krókaleið á Kastrup flugvöll. Það hefði alveg mátt tæpara standa, en við skráðum okkur inn og flugum heim án nokkurra vandkvæða. Eftir að hafa keyrt rúmlega þrjúhunduð kílómetra niðrá flugvöll eftirlét ég henni ömmu að keyra heim frá flugvellinum. Ég sofnaði skömmu eftir að ég hafði tekið úr töskunum og hent nammi í strákana.

Þetta var mikil verslunarferð, fyrir mig, manninn sem verslar sjaldan og lítið. Eða mann sem telur sjálfan sig versla sjaldan og lítið. Ég keypti eftirfarandi, magn eða fjöldi ótilgreindur:

Buxur
Boxera
Sokka
Boli
Skyrtur
Bindi
Peysu
Skó
Inniskó
Kúluspil
Píluspjald
Pílur
Bók
Bjór
Viskí
Geisladisk
Glas
Fána
Sígarettur
Heyrartól
Sælgæti

Þannig að núna á ég slatta af fötum, þar á meðal buxur sem þarf að stytta (ha ha) og inniskó í vinnuna, loksins. Píluspjaldið var keypt í íbúðina, það hefur verið sameiginlegur draumur þar á bæ síðan seguldúkurinn var festur upp skömmu eftir flutningana. Sígaretturnar eru fyrir bróður minn, og svo eru einhverjar litlar gjafir þarna inná milli.

Ég gerðist líka svo frægur að versla í sænska ríkinu, sem var nú ekki jafn forræðishyggjustofnanalegt og mér hafði verið lofað. Það var þarna eitthvað sem var afgreitt yfir borðið, en það var allt frá líkjörum uppí sterkt. Hinsvegar voru sambærilegar tegundir fáanlegar útá gólfi. Bjórinn var ögn ódýrari þarna en ekki svo mjög. Gestgjafarnir vildu meina að fólk færi helst til Þýskalands til að kaupa bjór. Þetta gera Danirnir líka, en ég hefði haldið að það hætti að borga sig þegar maður væri kominn svona langt norður í land..

Það er væntanlega spurning um magn. Og hvort maður á leið.

Í ferðinni las ég Bjagaða ensku Lúdmílu, Falling Man, Doom Patrol: Planet Love og The Last Musketeer. Ég er hreint ekki viss um Bjagaða ensku ennþá. Falling Man fannst mér leiðinleg til að byrja með en hún batnar til muna eftir að komið er inní hana hálfa, og það eru nokkrir góðir ekta DeLillo sprettir.. Pókerkvöldin reglulegu fyrir árásirnar eru t.a.m. algert hunang.

(Ég á reyndar ennþá tíu síður eftir, ég náði ekki alveg að klára hana í flugvélinni heim. En bráðum, bráðum.)

Planet Love var þokkaleg. Ég hugsa að það sé of langt síðan ég las bókina þar á undan, eða kannske las ég hana þunnur? Endalokin virkuðu frekar losaraleg. The Last Musketeer er ekki besta bókin hans Jasons, en hún er þrælgóð. Sumt virkar og sumt ekki, en það er nóg af góðum góðum Jason á þessum síðum.

Það er eitthvað við þessar mannlegu dýrafígúrur sem leyfir honum að snúa uppá lesandann öðruvísi en hann gæti annars.

Akkúrat núna er viðurkenningarafhending uppi á sjöttu hæð. Vigdís Finnbogadóttir er þar á fremsta bekk. Ég sá hana líka í fríhöfninni í gær. Hún var líklega í sömu flugvél og ég. Ég vann einusinni fyrir stofnunina hennar, á málþingi. Kannske verð ég forseti einhvern daginn. En fyrst ætla ég á þing.

Mig á þing!

Ég lofa að spillast ekki fyrren ég hef uppfyllt megnið af loforðunum mínum.

Annars fær þetta lið að éta eitthvert gotterí þegar móttakan er búin. Ég hugsa að ég skoði borðið, kannske er eitthvað þarna sem mannfólk getur borðað. Ísskápurinn minn er nánast tómur! Hjálp! Ég á kókómjólk og fjórtán prósent gáda!!! Væntanlegt hungur lamar mig í líkamanum!!!!!

-b.

4 ummæli:

Gunnar sagði...

Ég man ekki í hvaða Discworld bók það var, það var í einhverri þeirra, þar sem segir að einungis brjálæðingar noti fimm upphrópunarmerki í röð.


Ertu brjálæðingur, Björn?

(Annars barst mér njósn af því að Uppáhalds Forsetinn Okkar Allra hafi í gær verið við serímóníu þar sem einhver gaf íslenzkum Hafnarstúdentum péninga í nafni Mærsk McKinney Möller.)

Gunnar sagði...

(Ég fékk samt enga.)

Björninn sagði...

Mig rámar í þetta.. en ég er samt ekki viss um að ég hafi lesið bókina. Það er eiginlega ólíklegra en hitt. Jú, maður er nú soldið kreisí. Ef fimm upphrópunarmerki er það sem þarf þá get ég útvegað þau. !!!!!

Bömmer með peningana samt. Blóðpeningar eru betri en allir aðrir peningar.

Sævar sagði...

http://wiki.lspace.org/wiki/Multiple_exclamation_marks

Hérna er þetta!!!!!

Það er sem ég segi, Gúgl leysir allar gátur.