19 september 2007

..ræða það eitthvað?

Get ég annað en skrifað um Næturvaktina?

Ég hafði gaman af þættinum. Það var engin saga í gangi þarna til að byrja með, meira svona runa af sketsum. En það getur líka virkað. Helst fer Jón Gnarr í taugarnar á mér, því þarna er hann einsog hann er alltaf.. Það dugar ekki bara að raka hausinn á sér til að búa til karakter. Þessi vaktstjóri hljómar einsog allir þessir miðaldra kverúlantar sem Jón hefur leikið í gegnum tíðina, í sjónvarpi og útvarpi.

Hinir tveir voru samt fínir. Pétur kemur mér dálítið á óvart, og ætti maður að reikna gildi gamanþátta útfrá katsfrösunum þá heldur hann sjóinu uppi.

Mér hefði þótt gaman að kannast við umhverfið, að sjá einhvern spes húmor í þessu þar sem ég hef unnið á bensínstöð í dálítin tíma, en það var alls ekki. Það eina sem snýr að þessum tiltekna bissness er það hvernig á að dæla bensíni og rútínan sem kortaviðskipti eru: renna korti, láta kvitta, bjóða afrit, þakka fyrir. En nú dælir megnið af fólki bensíni á bílana sína sjálft, og því þekkja það flestir. Það sama má segja um kortaviðskiptin, hver hefur ekki farið í gegnum þessa athöfn þúsund sinnum?

Munurinn á því að vera fyrir framan kassann og að vera bakvið hann er sá að þar gerir maður þetta þúsund sinnum á einum og sama deginum. Einsog í Clerks þarsem félagarnir eru að selja sígarettur allan daginn, og Randall selur loks smástelpu pakka af rettum vegna þess að hann er einfaldlega hættur að hugsa um hvað hann er að gera. Ég ætla ekki að stilla þessu tvennu saman, Clerks og Næturvaktinni, en þarna er brandarinn sagður frá sjónarhóli þess sem afgreiðir, og það er verið að segja manni eitthvað um þennan bissness sem maður hefði ekki endilega getað sagt sér sjálfur.

Í Næturvaktinni, í stað þess að gera grín að endurtekningunni, firringunni sem fylgir því að láta fólk kvitta á seðla og þakka því fyrir án þess að vita hvað það heitir eða muna hvernig það lítur út, þá snýst brandarinn í kringum eitt óþægilegt skipti. Og jafnvel þótt áhorfandinn sé leiddur inní stöðina með nýja starfsmanninum þá sjáum við þetta atriði frá sjónarhorni kúnnans. Mér sýnist það sama eiga við um restina af þættinum.

Hver einasti viðskiptavinur sem kemur inná stöðina er grunlaust fórnarlamb. Daman er að flýta sér og má ekki vera að því að bíða eftir kvittun; karlinn þarf að komast á klósettið og má ekki vera að því að kaupa neitt til að geta talist viðskiptavinur; gaurinn þarf að klára að þrífa bílinn sinn, vantar bara vatn í smástund í viðbót og má ekki vera að því að bíða framá morgun. Það er í raun ekki verið að sýna manni neitt nýtt: Hver kannast ekki við að vera að flýta sér á bensínstöð, lenda á einhverjum þurs bakvið afgreiðsluborðið og standa í veseni?

Ég veit náttúrulega ekki hvernig þeir halda áfram á næstu vikum, en þessi fyrstu þáttur fjallar ekki um það að vinna á bensínstöð, heldur það að versla við bensínstöð.

Það er ekki þarmeð sagt að mér þyki þátturinn lélegur, ég hafði gaman af honum. Mín reynsla af þessu umhverfi er hinsvegar sú að sama hversu skrýtnu liði maður þarf að vinna með þá eru kúnnarnir, þegar þeir eru uppá sitt versta, ótal mörgum sinnum skrýtnari, dónalegri, heimskari og þar af leiðandi fyndnari.

Má kannske vera að allir þessir kúnnar vilji ekki sjá bölvað afgreiðslufólkið, leikið af Jóni Gnarr og Pésa úr Strákunum, gera grín að sér í sjónvarpinu?

-b.

Engin ummæli: