29 september 2007

Our particles are in motion

Ég sit inná tölvuherbergi í Öskju, hlusta á Interpol. Ég hef ekki komist inní nýju plötuna þeirra. En hann syngur um fólk sem heldur á kertum. Eða kannske bara eina manneskju sem heldur á kerti.

Heyrðu ég var annars fenginn í vinnu. Ég mætti á semínar í Nýja garði í gær og hann Benedikt plataði mig til að aðstoða við málþing í dag og á morgun. Við erum tveir, ég og gaur úr listfræðinni. Málþingið ber yfirskriftina ,,Avant garde and violence." Fjórða árlega málþing áhugamanna um framúrstefnu á norðurlöndum, eitthvað svoleiðis. Þetta byrjar ágætlega. Ég mætti hingað klukkan níu í morgun, rétti bæklinga og nafnspjöld, hellti vatni í könnur. Núna er liðið í hádegismat, það kemur aftur um tvöleytið. Þá eigum við að útbúa kaffihlaðborð klukkan rúmlega fjögur, og svo er eitthvað svipað prógramm á morgun.

La tí da.

En já við fórum semsagt á semínar, við Ingi Björn. Þaðan litum við á opnun myndlistasýningar í galleríinu Lost Horse á Skólastræti. Frikki, Mundi og Skæler (það er ekki stafað svona en við látum þetta duga) voru að sýna samstarfstússportrettkollasj-myndir. Gaman að því. Svo sótti ég Davíð á Miklubraut og við kíktum með Sævari í partí til Bjartmars í Hátúninu. Bjartmar á heima hinumegin við hæðina. Rétt handan við ásinn, einsog þar stendur. Helvíti snotur íbúð. Ég drakk bjór en fór snemma heim.

Þegar ég var að leggja af stað hingað niðreftir hitti ég Víði, en hann var þá að koma sér í bælið.

Og núna er það Godspeed You Black Emperor.

Á síðustu opinberu vaktinni minni á stöðinni gerðist tvennt næstum því markvert. Í fyrsta lagi var ég í einnar krónu mínus á kassanum. Það er alltaf einhver mínus eða plús þarsem við rúnum kassann að næsta fimmhundruðkalli, en núna var salan 37.001króna og féð í pokanum 37.000krónur sléttar. Ég hef aldrei lent á sléttu, það gerist einusinni á öld, að ég held. Næstum því þarna samt.. hefði ég ekki farið eina krónu yfir á bensíni í eitthvað skiptið þá hefði ég lent á núllinu. Vá. Við hefðum sett upp hatta og dansað í kringum nammibarinn.

Í öðru lagi var ég að klára vaktina, búinn að gera upp og var að setja peningana og kassann inní öryggisskápinn, þegar ég set skúffuna ekki alveg nógu vel inná hillu svo öll skiptimyntin hellist niður á gólf. Þetta voru mistök sem ég hef aldrei gert áður. Svona geta mistökin blundað í manni í mörg ár.

Mikið var þetta óáhugavert. Og það er ennþá hálftími í að ég eigi að mæta í hurðina aftur. Kannske ég fái mér bara kríu.

-b.

Engin ummæli: