17 september 2007

Heimurinn árið 1989 - Úr A Gentleman's Game eftir Greg Rucka

Ég fór á bókasafnið áðan og henti inn pappírum. Skilaði bókum. Tók nýjar bækur. Í myndasöguhorninu fann ég innbundna skáldsögu, A Gentleman's Game eftir Greg Rucka. Hún kom út árið 2004. Mér fannst nógu undarlegt að sjá hana á þessu bókasafni, en að einhver skuli hafa verið það hugulsamur að skilja hana eftir hjá hinum Rucka bókunum - sem við dáum öll og elskum - smyr sólargeislum í kalt hjartað mitt.

Ég settist í rauða stólinn hérna heima og las. Þessi efnisgrein finnst mér áhugaverð.

The Pit was aptly named, a cube of a room, dead-white cinderblock walls with no windows and poor ventilation, gray carpet that utterly failed to diminish the cruelty of the concrete floor beneath it. Each Minder's desk faced out from the three walls, so that the Minder Two desk faced the door from the hall, and the Minder One desk, on the left as one entered, faced Minder Three's. The remaining space was occupied with two metal filing cabinets, a coat stand by the door, and a file safe, on top of which sat the go-bags, one for each agent. Inside each small duffel were the bare essentials - toiletries and clean underwear and socks. The only decorations were, above Minder Two's desk, an old dartboard, and above Minder Three's, a map of the world that had been printed in 1989.

Fjórir gluggalausir veggir, pappír í skúffum, tannbursti og nærföt í poka oná skáp. Þetta er eins praktískt, hversdagslegt og órómantískt og hugsast getur, en það hefur löngum verið yfirlýst markmið hjá Rucka, að skrifa um tannhjólin í vélinni frekar en James Bond**. Það væri hægt að líkja þessu við fyrstu þáttaröð af Spooks, áður en sá missti taktinn, eða Tinker, Tailor, Soldier, Spy fyrir seinni tíma, þegar stelpurnar fá að vera memm.

Lýsingin á skrifstofunni gefur til kynna hverskyns spæjarasögu næstu blaðsíður hafa að geyma og um hvað starfið snýst í raun og veru, skv. Rucka. En þá eru það kannske veggjaskreytingarnar sem segja meira en hitt, þótt lýsingin á þeim virki helst einsog glettileg viðbót við dauflega innanstokkslýsingu.

Um leið og þú kemur inní skrifstofuna blasir við þér, á veggnum beint á móti, píluspjald - en það hefur sýnt sig oftar en einusinni í Queen and Country bókunum sem á undan koma að Minder nr. 2 er sá sem lendir í skítlegustu verkunum og mestri lífshættu. Nr. 1 er nokkurskonar yfirmaður og nr. 3 er jafnan óreyndur eða einfaldlega dauður sökum þess að vera sendur óreyndur í hættulegt djobb. Þannig að þegar einhver kemur neðan úr skrifstofunum með skipanir handa teyminu þá beinast spjótin jafnan að Minder nr. 2, þessum með skotmark yfir skrifborðinu sínu.

Heimskortið (sem nr. 3 þarf ekki að hafa fyrir augunum því hann er svo grænn hvorteðer) er sérlega skemmtileg viðbót, því það er prentað fyrir eða um það leyti sem Berlínarmúrinn er rifinn. Maður sér fyrir sér Austur- og Vestur-Þýskaland, USSR lengra í austur, landamæri sem eru ekki til lengur og nöfn sem hafa jafnvel breyst nokkrum sinnum síðan kortið var prentað. Það þjónar varla praktískum tilgangi, en hverju þá? Er þetta eitthvað í líkingu við skrítlur úr dagblöðum, sem vinnudýr í saklausari bissness festa upp í básum eða á hurðum kaffistofa? Heimsmynd sem er svo fjarstæð deginum í dag að maður getur varla annað en glottað, en ber þó með sér grjótharðan raunveruleika njósna og launmorða sem áttu sér stað þegar kortið var fyrst hengt á vegg. Manni dettur í hug rússneska máltækið um ,,gömlu góðu vondu dagana", sem hefur verið komið fyrir í einræðum spæjara og hermanna í Hollywood seinni tíðar, þarsem kalda stríðið er séð í hillingum, ,,einfaldari tími þegar menn vissu hver óvinurinn var." Og svo framvegis.

Fyrr í kaflanum hefur verið snert á því að hverskonar skreytingar á veggjum séu illa liðnar, en landakortið er nógu kalt og ríkisstyrkt til að fá að vera í friði. Það stendur bæði fyrir þessa James Bond-kaldastríðs-nostalgíu og sem gagnrýni á hana: Undir kortinu situr græninginn í spæjaraleik, en þeir sem sjá það úr hæfilegri fjarlægð eru þeir sem vita um hvað málið snýst, og þeir sem ná brandaranum. Heimurinn breytist og kortin breytast, en djobbið er alltaf það sama. Þetta er litli kettlingurinn sem hangir á þvottasnúrunni, Hang in there fyrir kaldlynda, fátæka og léttklikkaða tannhjólaspæjara í svona óskaplega raunverulegum raunveruleika.

-b.

**Það væri reyndar gaman að lesa Bond með það fyrir augum að hann sé bara viljalaust númer oní kassa. Væri það yfir höfuð hægt?

Engin ummæli: