14 ágúst 2007

Allt um þessa helgi þarna með hlutunum og fólkinu

Ég fór á opnunina hans Halls og ég tók engar myndir og ég sagði eiginlega ekki neitt við neinn, því ég var þreyttur sem hálfur hundur. Ég hafði verið á kvöldvakt daginn áður og morgunvakt um morguninn, hálfvakandi undir stýri báðar leiðir. Austur. Vestur. Svo í rúmið. Daginn eftir líka morgunvakt og svo rölt niðrí bæ. Ég keypti fjóra bjóra á Austurvelli og rölti upp Laugarveginn í gegnum hverja familíuna á fætur annarri. Úthverfafrumeindafjölskyldurnar mæta niðrí bæ til að skoða hommana og teppa kaffihúsin mín.

Þetta er bara einsog hjá villimönnunum fyrir norðan: Um leið og það er eitthvað að gerast í plássinu þá komast svona heiðarlegar bæjarrottur ekki fyrir lengur.

Ég kíkti á Inga Björn og rétti hann af. Við súptum og kíktum á Entourage, grilluðum svín og fórum svo til Frikka að spila póker. Það virtust allir eiga bjór. Ég vissi að ég þyrfti að opna búðina klukkan að verða níu í fyrramálið, en ég fékk mér einn enn og svo annan til. Var samt á bremsunni, svona einsog maður getur. Rétt rúmlega eitt kvaddi ég og gekk upp Bergþórugötuna. Ætti ég að sækja bílinn hugsaði ég. Ég er nú bara búinn að drekka svona sirka kippu, ég ætti alveg að geta komið bílnum heim.. þá gæti ég keyrt í vinnuna í fyrramálið -- ergó, sofið aðeins lengur en ella hugsaði ég ennfremur.

Eitt af því sem spilaði inní var það að ég þurfti að hætta að vinna klukkan eitt og fara beint á völlinn að sækja ömmu, en hún var að koma frá Svíþjóð. Þá væri betra að hafa bílinn á Ægisíðunni.

En svo hugsaði ég það er auðvitað svona sem þetta gerist, maður sannfærir sjálfan sig um að maður geti keyrt þegar maður getur það vitanlega ekki. Hættu þessu rugli og labbaðu heim.

Ég var rosa sáttur við sjálfan mig. Djöfull valdi ég rétt. Löghlýðinn og réttsýnn borgari, ég. Það var svo ekki fyrren ég var að koma að blokkinni sem ég mundi að jakkinn minn var í bílnum og húslyklarnir voru í jakkanum. Nú myndi ég þurfa að vakna extra snemma til að labba og sækja bílinn og keyra svo í vinnuna. Því ég gæti ekki hjólað niðrí bæ, sótt bílinn og keyrt svo á völlinn og farið úr heima og labbað svo niðrí bæ aftur og sótt hjólið.. Tú möts. Ég velti vöngum yfir þessu.

En það reddaðist á endanum.

Ta-da.

Amma gaf mér kippu af bjór og toblerone. Svo fór ég heim og svaf í fjórtán tíma. Í gær fórum við Már í Góða hirðinn og geisladiskamarkaðinn við hliðina, ég keypti diska og bækur. John Wesley Harding og Blood on the Tracks með Dylan, Adore með Pumpkins, Definitely Maybe með Oasis og Worst Case Scenario með dEUS. Þeir kostuðu að meðaltali 320krónur stykkið.

Í gær vann ég með gaurnum í það sem ég vona að verði síðasta skiptið. Mér skilst að línan ,,Hún er að vinna hjá Flugfélaginu, þessi" hafi verið djókið í Eyjum. Það er gott að einhver getur haft gaman að þessu. Ég geri það líklega seinna.

Hei já en til hamingju með opnunina Hallur. Gott stöff. Þið ættuð öll að sjá þetta hjá honum. Óðinshús á Eyrarbakka, opið næstu helgi (ef ég man rétt).

-b.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

að þeim skuli dirfast það að skoða kaffihúsin og teppa hommana þína.

Nafnlaus sagði...

Hefurðu hugleitt að drepa þau?

ps, takk fyrir pimpið.
hkh