08 ágúst 2007

Til hamingju Ísland

Það eina sem danglar ennþá í útlandinu eftir skiptiárið í Köben eru einkunnirnar mínar - það sem gárungarnir (og ég sjálfur, líka) myndu eflaust segja að væri í raun og veru það eina sem ég fór að sækja þangað. Ég hef sent tvö ímeil til þeirra og ekki fengið svar, svo ég hringdi þangað núna áðan. Þá er vandamálið þetta:

Þegar þeir í KU gefa upp einkunnirnar mínar þá kemur bara fram hverskonar próf ég stóðst, ekki í hvaða kúrsum þessi próf voru tekin. Einsog þið sjáið af þessari myndþá er ég þarna kominn með einkunnir úr ,,Emneområde 5a" og ,,skriftligt emne B", ekki ,,From Mysticism to Postmodernism" og.. hvað hitt er, því ég veit það ekki sjálfur. En HÍ samþykkti ákveðna kúrsa til að færa inní námsferilinn minn og þeir þurfa víst að fá einkunnirnar með nöfnum þessara kúrsa áföstum.

Þetta ærir óstöðugan.

Stefanía, sú sem ég heyrði í áðan, sagðist vera að vinna í þessu. Sagðist myndi senda þetta ,,í næstu viku, líklega. Kannske."

Þannig að ég bíð.

...

Já og fjölskyldan var að koma heim frá Svíþjóð. Þau gleymdu farsíma og vídjóupptökuvél í leigubílnum sínum vegna þess að þau voru að flýta sér. Alveg einsog þegar þau gleymdu töluverðu magni af persónulegum munum í leiguhúsnæðinu á Kanarí vegna þess að þau voru að flýta sér. Þessi samblanda af því að mæta seint (sem hefst af því að leggja seint af stað) og vera ekki búin að pakka drasli niður í töskur fyrren á síðustu stundu er eitthvað sem ég ekki skil.

Ég er ennþá í íbúðalimbói.

-b.

Engin ummæli: