27 mars 2007

BSG sprengir sjónvörp (ekkert skemm) og bókasafnsráp

Það eru ansi skiptar skoðanir á netinu um síðasta Battlestar-þátt. Mér fannst hann æði. Að skeyta textanum inní venjulegt talmál virkaði skringilega, en svo redduðu þeir því og svo hlóðu þeir meiru oná og héldu bara áfram. Meira meira meira! Og spilum smá rokkmússík á meðan þeir fara af stað og svo eru þessir þetta og þessi þarna líka og allt að vera brjálað. Brilljant.

Rome var samt við sig og lokaði með stæl. Mig langar að renna í gegnum alla þættina aftur, sem fyrst. Allra síðasta senan var reyndar dálítið undarleg. Vinstri, hægri, endir? Og svo tekur I, Claudius við eftir nokkur ár, þarsem nýjar svikular konur koma í stað gömlu svikulu kvennanna.

Rome kemur ekki aftur. BSG kemur aftur í febrúar. Þeir ætla að sýna einhvern millibilsþátt í haust, sem tekur ekki upp þráðinn frá því í fyrradag heldur gerist á Pegasusi einhverntíman í fortíðinni. Ef ég skil þetta rétt. The Sopranos og Entourage snúa aftur eftir talsvert hlé til að klára sjöttu og þriðju þáttaraðir, og mikið vona ég að þeir geri eitthvað af viti í seinni hálfleik.

...

Ég aulaðist loks til að skoða bókasafnið í skólanum almennilega. Þeir eru með helling af spennandi dóti, en ekki skil ég hvernig þeir raða því. Bókmenntafræðum og -rannsóknum er skipt eftir landsvæðum og þaðan eftir höfundum sem fjallað er um. Og stundum eru skáldsögur o.þ.h. eftir téða höfunda í sömu hillu, stundum ekki. Nokkrar bækur um Vonnegut í 'Bandaríkin' - 'V'; við hliðina á þeim danskar þýðingar á Timequake og Wampeters, Foma and Granfalloons; og ensk útgáfa á A Man Without A Country. Restin af bókunum hans er undir 'V' í 'Engelsk litteratur', hinumegin í safninu. Við hliðina á þeim fann ég bókmenntafræðiritgerð um Slaughterhouse 5.

Og hvað um bókmenntafræði sem fjallar ekki um ákveðinn höfund eða ákveðið málsvæði? Það má veröld vita.

Kíkti á Íslandshilluna þeirra. Komplet Arnaldur Indriða og Einar Kárason.

-b.

Engin ummæli: