01 desember 2006

..sagði hann og saup á teinu.

Það myndi kosta mig sirka átján þúsund milljón krónur að flýta fluginu mínu heim. Sem sýgur talsvert. En mig er eiginlega farið að langa til þess.

Klockarinn skrifar um það að hann nenni ekki lengur að lesa bækur. Sjónvarpsþættir, myndasögur, ljóð og tónlist geri sitt fyrir hann. Ég lái honum það í sjálfu sér ekki, og ég skil nokkurnvegin hvað hann er að fara. Í athugasemdunum segir einhver gaur að hann nenni sjaldan að horfa á heila bíómynd í einni lotu, en geti hinsvegar horft á marga sjónvarpsþætti í röð, sem taki jafnvel lengri tíma. Sama hér. Nokkurnvegin. Ég er búinn að vera að reyna að komast í gegnum The Prisoner í talsvert langan tíma, er rétt nýlega hálfnaður, en það virðist bara svo mikið verk - miðað við að horfa á eitthvað styttra.

En lengdin sjálf er kannske ekki stóra vandamálið. Þættir einsog The Prisoner eru ekki gerðir lengur. Eða öllu heldur; sjónvarpsþættir eru ekki lengur uppbyggðir einsog The Prisoner. Að fylgjast með einum gaur gera einhvern einn hlut í klukkutíma? Aldrei. Í hverjum einasta sjónvarpsþætti sem þú sérð í kassanum í dag eru fleiri en ein saga í gangi á sama tíma. Helst fleiri en tvær. Lost er alveg ekta dæmi, þarsem hver einasti þáttur skiptist meira og minna í tvennt: atburðir sem gerast fyrir slysið og atburðir sem gerast eftir það. Atburðir sögunnar sem gerist fyrir slysið hafa gjarnan áhrif á það hvernig við skiljum það sem gerist eftir slysið.. það er nokkurnvegin það sem þátturinn byggist á; áhorfendurnir skilja hvern einasta strandaglóp betur en fólkið í kringum þá. Hluti af því sem gerir ,,Hina" svo ógnvænlega er að þeir vita greinilega svo mikið meira en við.

Bestu þættirnir eru líka þeir þarsem atburðirnir eftir slysið gefa okkur aukna sýn inní atburði sem gerðust fyrir slysið. Fyrstu þættirnir þeirra Lockes og Hurleys eru gott dæmi um það. Til hliðar við þessa tví-eind erum við að fylgjast með hinum strandaglópunum um leið, og allt þetta rekur áfram stóra plottið, ,,mýtólógíuna" einsog þeir vilja kalla það orðið. Leyndarmálið á bakvið alltsaman.

Einhverstaðar í haust er til langur póstur um metafiksjón í Lost, sem ég skrifaði aldrei. En þar eru greinilega nokkrir þræðir sem hægt er að tosa í.

Já. En að því leyti er Day Break skemmtilegur sessuvermir fyrir Lost, þarsem það er bara ein stór saga í gangi. Þannig séð. Aðalpersónan kemur nálægt næstum því hverju einasta atriði sögunnar, en ekki öllum í einu. Day Break minnir meira á tölvuleik en margt annað, og það eru nokkur atriði í fyrstu tveimur þáttunum sem styðja undir það, held ég. Atriðið í grjótnámunni, endurtekið á nákvæmlega sama hátt, er ekta ,,dauða-klippa" - eitthvað sem maður sér á skjánum þegar öll lífin eru búin og maður getur ekkert gert lengur. ,,Þú gafst upp og svona fóru þeir með þig. Endir. Viltu reyna aftur?"
Og maður byrjar aftur á sama stað.

Munurinn hér er sá að hann læknast ekki á því að rístarta leiknum, þannig að ef hann deyr þá er ballið búið. Sem meikar sens: hversu spennandi væri þátturinn eiginlega ef dauði aðalpersónunnar hefði engar afleiðingar? Maður lendir fyrst í vanda ef maður ætlar að útskýra hvernig í ósköpunum þetta getur átt sér stað, en svo lengi sem þeir sleppa því bara þá er gaman af þessu. Um leið og þú, sem handritshöfundur, ákveður að hetjan þín upplifi sama daginn aftur og aftur þá geturðu allteins farið alla leið.. ef fólk er á annað borð að horfa þá er það varla að bíða eftir rökréttri útskýringu.

Það held ég að sé einmitt það sem Lost-liðið er að detta útí smátt og smátt. Að gefa ,,trúlegar" útskýringar á hinu og þessu og skilja annað eftir, í staðinn fyrir að hlaða upp meiri mystík.

Ég skil hvað Klock á við þegar hann segist ekki tíma því að lesa skáldsögur. Ég er ofboðslega hissa á sjálfum mér að hafa komist í gegnum Foucault's Pendulum. En það tók mig líka þrjá mánuði. Og ég var rosalega spenntur fyrir henni allan tímann. Ég veit ekki hversu mikið sjónvarp ég glápti á á sama tíma, en það var fór pottþétt mun meiri tími í það en að lesa bókina. Það sem ég tengi ekki við eru ljóðin og lögin. Þar eru miðlar sem reyna gjarnan allt hvað þeir geta að segja sem mest í fáum orðum, en sjónvarp og myndasögur leyfa sér ennþá að breiða sögurnar út. Skáldsagan er þá á hinum enda þessarar línu, og gerir ýmislegt sem hinir miðlarnir geta ekki. Ég á erfitt með að byrja á því að lesa skáldsögu, en ég held ég hafi meira gaman af því en öðru þegar ég er loksins kominn af stað.

Og þessi skilgreining á skáldsögunni finnst mér frábær. ,,Langur prósi sem eitthvað er að." En mér finnst hún ekki verri fyrir vikið.

En já. Mér dettur ekki í hug neinn dags-í-dag sjónvarpsþáttur sem brýtur ekki upp narratívið til að halda fólki við efnið. Og ég mana ykkur til að nefna einn slíkan. Í alvöru.

-b.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvaðan hefur þú þetta um skáldsöguna? Það er að segja þetta: "Langur prósi sem eitthvað er að."?
Svipaða hugsun orðar Umbi (eða HKL, eftir því hvernig á það er litið) á þennann hátt:

"Einkennilegt að allir fuglar skuli ekki fljúga eins. Loftið er þó samt og jamt á sama stað og sama tíma. Ég hef heyrt að vængir á flugvélum hlíti allir sömu formúlu þarsem fuglar hlíta sinn hverri formúlu. Það hefur óneitanlega þurft meiren lítið ímyndunarafl til að útbúa svo marga fugla sinn með hverri formúlu og ekki verið horft í tilkostnað. Eftilvill hefur samt aldrei fundist sá fugl sem flýgur jafn laukrétt og flugvél; þó fljúga allir fuglar betur en flugvélar ef þeir eru fleygir á annað borð. Allir fuglar eru kanski dálítil rángir, af því að það hefur ekki fundist fullgild formúla að fugli í eitt skifti fyrir öll, á sinn hátt einsog allar skáldsögur eru vondar af því að aldrei hefur fundist rétt formúla að skáldsögu." (Kristnihald undir Jökli bls. 23-24)

Ojæja kannski ekki alveg sama hugsun og þó. Afsakaðu lengdina og allt fuglatalið en þetta er bara svo fjári gott. Nú svo er það þetta með formúluna að skáldsögum. Ef ég man rétt var Klock að tala um þessa hræðilega löngu skáldsögu þarna æi hvað hún heitir, eftir hann þarna æi hvað hann heitir sem þú heldur svo mikið upp á. Ojæja allavega þá sannar hún kannski, líkt og svo margar aðrar skáldsögur að formúlan fyrir skáldsögu er ekki til. Skrifaði sami gaur ekki sögu með ósköpunum öllum af löngum listum?
Jæja nú er ég farinn að rausa!

-ingi

Björninn sagði...

Ég þekki Pynchon ekki svo gjörla.. En ég var lengi að þrælast í gegnum The Crying of Lot 47 og hún var blessunarlega ekki ellefu hundruð síður.

Klock segir að þetta gæti hafa komið frá Paul Valéry, en ég finn ekkert á wikiquote eða í google-skimleit.

Helvíti góður Laxness, samt. Takk fyrir það.

Nafnlaus sagði...

Já Laxnessinn er helvíti góður þarna, enda er Kristnihaldið trúlega lang besta skáldsaga karlsins.

Kannski að maður ætti að tékka á Paul Valéry.

En heyrðu já! Uss hvernig læt ég hann var að tala um Pynchon. Þetta minnir mig reyndar á að ég komst á blaðsíðu 50 í The Crying of Lot 47 (tja segjum frekar blaðsíðu 47) og hef ekki bifast áfram síðan. Verð samt að lesa hana einhverntíman enda er alltaf vitnað í hana í metafiction og pm ruglinu öllu sem maður er að stúdera.

-ingi