17 september 2008

Byrjum á stafarugli

Eða ég gæti líka sagt að þessar tvær línur séu stafarugl hvor af annarri:

A DREAM WITHIN A DREAM

og

WHAT AM I, A MIND READER

Mér þótti þetta sniðugt. Ég heyrði það í þessum útvarpsþætti, sem hægt er að hlusta á á netinu. Þessi tiltekni þáttur fjallar um spurningaþætti og annarskonar þrautir. Nýjasti þátturinn heitir ,,Enforcers" og fjallar um fólk sem sér til þess að aðrir fylgi settum reglum, hvort sem það hefur löglegt umboð til þess eður ei. Svo var þessi hérna, ,,Tough Room", þarsem við heyrum m.a. hvað gengur á í ritstjórnarskrifstofu The Onion.

Og þátturinn ,,The Giant Pool of Money", sem fjallar um tilurð húsnæðislánakrísunnar í BNA. Það er gaman að heyra skiljanlega útskýringu á því hvernig ástandið gat orðið einsog það er í dag, og að hlusta á sögur frá gaurum sem tóku þátt í dæminu, hvort sem þeir vinna á Wall Street, fyrir lánasjóði eða hjá eftirlitsstofnunum ríkisins, eða bara fólk sem tók lán og er nú í djúpum skít. Og hvernig í helvíti þetta fer að hafa áhrif á okkur hér fyrir austan.

Gaman af þessu semsagt. Svona til að sjóða þetta alltsaman niður í fjögur orð.

Ég reyndi að hringja í Víði núna rétt í þessu. Í augnablikinu næst ekki í farsímann. Kannske er slökkt á honum, hann utan þjónustusvæðis eða eigandinn kominn á þriðja bjór suður í London og ekki farinn að spá í að kaupa sér nýtt símanúmer.

Önnur vikan í ræktinni hálfnuð og ég er með smá hálsríg. Ég ætti að teygja betur eftir átökin. Hvílík átök! En við þurfum að fara að skrifa niður hvað við gerum hverju sinni, ég man aldrei kílóafjölda vikna á milli.

Þeir sem elska mig og dá, og muna allt sem ég hef nokkurntíman sagt eða skrifað, vita að ég hef unun af góðri sturtu, en sturturnar í Laugum eru æðisgengnar. Ég ýti á takka og alltíeinu er ég umlukinn mátulega heitu vatni. Vatnsflæðið minnir ekki á sturtuhaus heldur úrhellisdembu, en ég stend þá útí rigningunni á adamsklæðum og opna sjampóbrúsa og á erfitt með að bera hendurnar uppað höfðinu, mikið er það góð tilfinning. Þannig að ef ég ætti að segja nokkrum hvað mér finnst best við þennan stað þá eru það sturturnar. Og handklæðin sem maður fær í tækjasalnum, og þarf þessvegna ekki að taka með sér að heiman.

Þarna er komið allt það sem ég vil: Að þurfa ekki að taka drasl með mér, og að fá góða sturtu.

Og að hlæja lágt og kurteisislega að kjöthrúgum sem öskra þegar þær lyfta 220 kílóum í hnébeygju.

Ég hef ekki spilað civ í vikunni, en hef hinsvegar horft tvisvar á Gone Baby Gone og þrisvar á Zodiac. Já þrisvar vegna þess að það eru jú tvær commentary-rásir á þeirri síðarnefndu. Nemahvað.

David Foster Wallace hengdi sig um daginn. Ég hef aldrei lesið neitt eftir hann. Það er ekkert til á safninu eftir hann.

Tveir kaflar úr Áræði verða birtir í veftímariti Tíuþúsund tregawatta núna bráðum. Nota þeir enn gömlu slóðina? Hér er allavega eitthvað.

Á mánudaginn komst ég að því að yfirmaður minn, ritstjórinn, var farinn til Danmerkur. Það vissu allir af þessu nema ég. Lét hún mig vita og ég gleymdi að muna eftir því? Sú næsta henni er nýhætt, og í gær fór þriðja vef-konan í vikulangt frí. Þannig að núna er ég eini gaurinn með vefina. Það er ekki beint brjálað að gera, en ég er ykkar gó-tú gæi.

Gaman af þessu semsagt.

Hei já og sjáið þessa mynd af Agli og Hafsteini, úr afmælisrúntinum sem við tókum með þeim síðarnefnda:



-b.

3 ummæli:

[Davíð K. Gestsson] sagði...

Þessi mynd er æði maður, sérstaklega baktjaldamakkið.
En við ættum ekkert að teygja maður, það er ekkert sniðugt...held ég.

Björninn sagði...

Já, makkið? Þau eru sko að makka þessi tvö.

Ég hef samt alltaf heyrt að það sé sniðugt að teygja. Eru skiptar skoðanir um svoleiðis?

Nafnlaus sagði...

Thu verdur ad teygja, annars verdurdu einsog Gunnar.

0044-7531735108
numerid mitt

Vidir