14 júlí 2008

timemachinego

Þetta test tókst sæmilega sko, það bara var ekki réttur myndari í því. Ég get séð svona smámynd þegar ég fletti upp í 'galleríinu' en ekki þegar ég er að velja myndir til að setja inní vef-form. Jæja. Það gengur eitthvað erfiðlega að tengjast gmail hólfinu í gegnum opið þráðlaust net hérna niðrí bæ, en m-blogg formið á vitleysingum virkar hinsvegar fínt. Einhver lokuð port eða hvað veit maður.

Fyrir nú utan það að ég hef engar myndir til að sýna hvorteðer. Nú er rigning, ég vinn og glápi á vídjó. Þessa stundina er ég að vinna, einhverntíman seinna í kvöld verð ég eflaust að glápa á vídjó. Ég fór yfir vinnustundina hjá mér í fyrsta skipti síðan ég fór á Ísafjörð, ég var frá vinnu 2. til 23. júní og þar á eftir í hálfri vinnu eina viku. En nú er Finnur kominn í frí og þá er engin miskunn.

Ekki það, það er óskup rólegt niðrí á fyrstu hæð, jafnvel þótt það sé helgi á kalendarnum. Ég las tvær myndasögur og inní þriðju. Secret Invasion: The Infiltration, bara svona til að sjá hvað væri í gangi. Þetta er kannske fínt dót en einsog allt þetta krossóver maxi-kræsis ívent dæmi þá er meira gaman af því ef allar þessar persónur skipta mann einhverju máli. The Umbrella Academy: Apocalypse Suite er hinsvegar algert æði. Temmilega klikkuð fjölskyldu/ofurhetju(?)-saga, kreisí hugmyndir en hógvær skrif. Og Fables: The Good Prince. Þetta er eitt af því sem ég verð að lesa um leið og ég kemst í það en hef þannig séð enga löngun til að lesa aftur. Spennandi og skemmtileg saga, hæfur teiknari, litari bla bla bla en þannig séð ekkert úmf. Að minnsta kosti fá úmf með löngu millibili.

Ég er samt bara rétt hálfnaður með hana. Sjáum til.

E.t.v. fer það ennþá dálítið í taugarnar á mér að í síðustu bók, númer 9, var Fabletown-flóttafólkinu blátt áfram líkt við Ísrael, og Illa heimsveldinu, sem rak þau úr söguveröldinni, stillt upp sem Palestínu. Þarna finnst manni höfundurinn vera farinn að flækjast fyrir.

...

Það var dulítil umræða í gangi á geoffklock um X-Files, stóru söguna versus stöku þættina, og ég hlaut að vera sammála þeim sem tók til máls, að þeir stöku væru betri en meta-sagan. Eða að minnsta kosti að það væru þeir sem sætu frekar eftir, þegar þættirnir væru frá gengnir. Kannske sérstaklega vegna þess að meta-sögunni fipaðist flugið allsvakalega í síðustu tveimur þremur þáttaröðunum. Í framhjáhlaupi tók ég The Unnatural fram sem dæmi um sérstaklega slæman stakan þátt -- því þeir eru jú fjölmargir, jafnvel nokkru fleiri en þeir sérstaklega góðu.

En viti menn, fólk fílar hann. Ég rausaði eitthvað um að þátturinn væri ein stór klisja sem talaði niður til áhorfenda og ýjaði að því að hann væri rasískur, mótmælandi hélt fram að þátturinn vísaði til einfaldari, gömludaga sæ-fæ á borð við Twilight Zone. En líklega er málið bara að þetta eru kanar sem fíla hafnabolta og ég ekki. Ekki það að umræðan sé dauð og ómerk eða að punktar hvors um sig séu ekki á rökum reistir, en kannske skipta þeir ekki jafn miklu máli og einhver svona beisikk uppeldisgrunnur.

Hvernig gæti hugsandi fólk annars litið framhjá því hversu illa þátturinn er skrifaður?

Segi ég.

...

Já og svo sá ég Wall-E í gær. Hún er barasta fín. Það var sérstaklega gaman að hafa ekkert séð úr henni eða lesið um hana, og vita þessvegna ekkert um á hvaða leið myndin var. Og fyrri hlutinn var endalaust skemmtilegri en sá síðari, en ég er jú svona yfirleitt hallur undir dystópíur frekar en hetjusögur.

Vinni vinn.

-b.

Engin ummæli: