04 mars 2008

It's good to be the Thing

Það er gott að lifa þessa dagana. Reykjavík er blaut og köld en hún á eftir að skána. Bráðum flýg ég til Kaupmannahafnar og keyri útí Sænska víðihlíð. (Eða einhverskonar aðra hlíð.) Ég á miða á Hróarskeldu, og ég þreytist ekki á að tala um það. Vinnuvikan er fljót að líða og ég eyði henni með góðu fólki. Helgarnar eru fyndnar.

Síðasta helgi var bjórhelgi. En hún var líka verslunarhelgi. Helvíti sem maður getur eytt. Ég lét loksins vera af því að keyra útí Ikea, mamma var í heimsókn á jeppanum og ég plataði hana til að renna með mér. Þar verslaði ég nýjan Billy bókaskáp, skemil til að setja lappirnar á þegar ég sit í stólnum mínum, og lítinn púða sem lítur út einsog fótbolti og heitir SPARKA.

Nöfnin þeirra eru æðisleg. Ég sá ferkantaðan uppháan blómavasa sem hét REKTANGEL.

En já, ég var alltaf að tala um að kaupa eitthvað til að fleygja í Víði þegar hann er með læti. Og núna er ég búinn að því. Maður kallar SPARKA! og fleygir SPARKA í gaur. En maður sparkar ekki. Nei nei nei.

(Og ef menn eru að drekka bjór þá endar það náttúrulega á því að SPARKA fer í opinn bjór og kastarinn þarf að þrífa hann upp. Gúd tæms.)

Við Sævar settum Billy hilluna saman og skelltum upp í herbergi við hliðina á hinni hillunni minni. Nú eru þær tvær. Ég sótti allar bækurnar sem ég hef geymt inní skáp og setti þær í hilluna. Þær eru næstum því fullar núna.. Og ég veit ekki hvað það er en þegar ég horfi á bókahillur fullar af bókum, röðuðum eftir kerfi með kápunum sínum og titlunum og ein og ein liggur oná hinum langsum, þá líður mér vel. Heilinn gefur frá sér einhverskonar vellíðunarensím. Getur verið að það sé eitthvað svipað í gangi hjá fólki sem horfir á endalausan hring eftir hring af formúlu 1?

Maður hefði haldið að vinnan á bókasafninu hefði drepið eitthvað í þessu, en það er alls ekki. Bókasafnið er góður staður, en þetta er einhvernvegin óskylt. Veggirnir á mínu heimili gegna einhverjum tilgangi þegar það eru komnar bækur á þá.

Mér finnst Reader's Block æði. Ég var að lesa hana í matstofunni og gaur í innkaupum ætlar að sjá hvort Markson verði ekki keyptur hingað. Það er ekkert til með honum einsog er. Það væri gaman.. ég þarf pottþétt að lesa meira eftir þetta.

Metasnakk.

Ég fór líka á bókamarkað og keypti bækur fyrir slikk. Ljóðabækur og myndasögur og einhverja helvítis bókmenntafræði. Það er það sem ég kalla hana í samtölum við annað fólk. Helvítis bókmenntafræði. Prófið það bara, það er mjög þægilegt.

Ég fíla það að eiga helling af tímum inni í vinnunni og geta mætt seint þegar ég er þreyttur í rúminu á morgnana. Yfirleitt er það á þriðjudögum. Afhverju ætli það sé.

Ég ætla samt ekki að kaupa xbox tölvu. Jafnvel þótt maður geti spilað n á henni. Nei nei nei.

Einhverjir meðleigjanda okkar eru samt hálfvitar. Þeir stálu tveimur töxum af okkur á aðfararnótt sunnudags. En það var líklega fyrir bestu.. bæjarrölt er oft foj.

-b.

2 ummæli:

[Davíð K. Gestsson] sagði...

Jú kommon. Kauptu boxið. Þá getum við orðið Xbox live vinir; spilað Halo 3 í Co-op; stofnað clan; rifið kjaft við bandaríska unglinga; lifað lífinu til fulls.

Björninn sagði...

Úff, það hljómar svo sikk hellað þegar þú segir það.

..eða bíðum við, þýðir það 'gott' eða 'slæmt'? Ég held samt ekki, í öllu falli. Þetta er rosa dýrt!