23 desember 2007

Þorláksmessa á safninu

er óóskaplega róleg. Ég er kominn nokkuð langt með krossgátuna, sunnudagsgátuna. Ég hef aldrei klárað hana en komist vel inní nokkrar. Núna á ég bara 9 orð eftir en mér sýnist ég ekki komast lengra.

Jæja.

Jólabækurnar eru The Black Diamond Detective Agency eftir Campbell og Dermaphoria eftir Clevenger. Og svo hef ég Darkly Dreaming Dexter í eyrunum.

Ég hlustaði á Engla Dauðans eftir Þráinn núna síðustu daga. Hún byrjaði ágætlega en hann hefur ó svo margt að segja um eiturlyfjavandann og villimennina sem eitra fyrir börnunum okkar o.s.frv. o.s.frv. að hann gleymir að gera söguna spennandi. Og óspennandi krimmi er eiginlega hvorki fugl né fiskur. Mann langar kannske að vita hverjir þessir ónafngreindu einstaklingar eru, sem bókin byrjar á, en þegar það kemur í ljós þá finnst manni það varla lestrarins virði. Eða áheyrnarinnar virði.. Þetta er reiðilestur yfir eiturlyfjasölum sem Þráinn reynir að snúa uppí hugleiðingu um réttlæti, glæp og refsingu, en það leikur aldrei neinn vafi á því hver hefur rétt fyrir sér og hvers það er að dæma.

Mér finnst það eiginlega frekar leitt, því ég hef yfirleitt gaman af því sem hann skrifar í blöðin og þessháttar. En það er eitt og þetta er annað.

Svo var ég að klára Loftskeytamanninn núna áðan. Þar þýðir Jón Kalman Knut Hamsun og það virkar svona helvíti vel. Stutt saga um sterkar persónur sem maður les undir Guinness á hlýju kaffihúsi.

Rútan heim núna um sjöleytið, svo veit ég ekki meir.

-b.

Engin ummæli: