05 desember 2007

Lesist ekki

En sko ég sit hérna og það er falleg stelpa hérna fyrir framan mig, ég sit með tjaldið í bakið og hún situr á því sem ég hef alltaf talið vera borðið mitt en það er allt í lagi hún má eiga það akkúrat núna því hún er með brúnt hár sem nær í sveig niður að augum og hún er með eitthvað nisti í langri keðju sem hangir milli brjóstanna og hún er þrýstin og mjúk og klædd í eitthvað sem maður gæti kallað síða peysu? Hún nær frá hálsi (með hettu), niður fyrir úlfliði og niður fyrir rass, hún er bæði með mjaðmir og læri, ég veit það því hún stóð upp áðan. Hún er með tómt vatnsglas fyrir framan sig, sem hún hefur troðið fullt aftur af mandarínuberki, hún er jólastelpa jólastelpa, með lítið nef sem vísar beint áfram, hún er ekki með lokka í eyrunum en samt örugglega með göt, hárið hárið það er tekið aftur í teygju en alls ekki í tagl því það vill ekki vera teglt. Við hliðina á glasinu er hún með fölappelsínugult pennaveski þarsem hún geymir allskonar allskonar eitthvað sem ég veit ekki hvað er en ef ég gæti smellt lásnum í sundur, þá myndi hún opnast fyrir mér, tölvan situr opin á borðinu og hún horfir oní hana, apple-merkið aftaná skjánum segir mér að ef hún væri í bíómynd þá myndi hún bjarga deginum, þessi hérna hún myndi sko ekki vera svikarinn eða morðinginn eða leigusalinn, hún snertir skjáinn einsog til að halda við hann, hún heldur utan um tölvuna sína, er gefandi og traustvekjandi, svo þrýstin með tvo hringi á fingrunum hún er hrúga af kjöti og beinum og fitu og silfri en það sem skiptir mestu máli er að þessi hrúga tekur pláss og maður getur fundið fyrir henni taka pláss, jafnvel þótt maður snerti hana ekki, maður finnur fyrir henni með augunum, án þess væri svæðið tómt, einsog glasið áður en hún fékk sér mandarínur með puttunum sínum með hringunum á og bar þá uppað munninum sem er rauður og mjúkur og kemur saman í krókum beggja vegna, samsíða línunni sem maður dregur í plássið með augunum þegar maður lítur á milli augnanna, frá hægri til vinstri og svo tilbaka og aftur tilbaka. Hún er með pilluglas við hliðina á vatnsglasinu og sprittkerti við hliðina á því, ég held að pillurnar séu mintur, eitthvað sem hún setur í munninn líka, þegar hún teygir höndina eftir því kippist nistið til og óróar í smá stund og hún færir til vaselíndolluna sem er við hliðina á tölvunni, hún er með vaselíndollu hún er með dollu af veselíni við hliðina á tölvunni og rólegur rólegur, þetta er eitthvað eitt í viðbót sem hún tekur með höndinni og ber uppað vörunum, það er ekki uppúr þurru og köldu og bítandi sem yfirborðið er svona borðleggjandi ég vil leggja hana á borð og skoða kjötið með fingrunum og hringjunum og brosinu undir augunum og nú dregur hún upp símann sinn því hún á síma einsog allir hinir sekkirnir en hennar er hvítur og opnast einsog ljósabekkur, og hún klípur eitthvað úr höfðinu á sér og setur það inní símann með höndunum og snýr sér svo aftur að tölvunni, hún fer höndum um tölvuna aftur og það er einsog að horfa á Maríu kjöt sitja í kofa og snerta kinnina á Guði kjöt, tveir pokar af próteini og nöglum að skiptast á heilagleik, þau eru tengd í gegnum hausinn og það er taska á stólnum við hliðina á henni því hún er að fara með vínflösku og brauðhleif uppí Þingholt, hún ætlar að henda því í rúmið þarsem kjötið liggur hún ætlar að kalla það einhverju sætu nafni með munninum og fingurnir sleppa flöskunni og hún sest í stólinn við rúmið og fæturnir fara uppúr skónum og hún setur þá uppá rúmgaflinn.

3 ummæli:

[Davíð K. Gestsson] sagði...

Ka-tsjíng.

Sævar sagði...

Hmm. Ég las fyrirsögnina síðast. Fjandinn.

Björninn sagði...

Sævar: þú ert nú meiri meðleigjandinn. Skrýtinn meðleigjandi, meira að segja. Einsog stendur. En ekki lesa þessa setningu heldur.

Davíð, við komum til með að eiga þessa borg fyrr en varir. Ég heyri krónurnar og tíkallana velta inn í draumum mínum.