09 nóvember 2007

Bróðir, bróðir, sagði refurinn við rakkann bundinn

Já ég er alltof latur við þetta djös djöll. Hvað er að gerast Björn, segir Björn framtíðarinnar. Um daginn rambaði ég inná færslu á vitleysingum þarsem ég sagðist vera nýhættur að drekka kaffi. Hún var skrifuð þann 11. september 2004, og þar stendur: ,,Meira svona handa sjálfum mér, svo ég geti séð nokkurnvegin hvenær það var sem ég reyndi þetta í fyrsta skipti fyrir alvöru. Ég er hættur að drekka kaffi." Þrjú ár síðan lagsmaður. Og nú vitna ég í sjálfan mig fyrir sjálfan mig, þarsem ég er að skrifa fyrir sjálfan mig. Þessi blókveröld er svo sjálfhverf að maður getur allteins velt sér uppúr því og slett úr sjálfs-klaufunum.

Það hefði verið gaman að kíkja austur um helgina en ég er að vinna. Á morgun og hinn og hinn. Mamma var að koma frá Bandaríkjum Norður-Ameríku, þarsem hún var í heimsókn hjá Rósu frænku. Mér líður einsog í Djöflaeyjunni, við eigum góðhjartaða frænku í Amríku, hún sendir okkur gotterí.

En látum sjá.

Ég er enn að hlusta á In Rainbows. Í blaðinu í dag, Morgunblaðinu eða Fréttablaðinu, skrifar einhver stutta og hálfvitlausa grein um það að Radiohead hafi lítið grætt á því að gefa plötuna út á netinu og leyfa fólki að ráða verðinu sjálft. Þar kemur fram að u.þ.b. tveir þriðju þeirra sem sóttu plötuna hafi ekkert gefið fyrir hana, og meðalgreiðsla þeirra sem borguðu hafi verið 6 dollarar, eða um 350 krónur. Nú las ég fyrir skömmu, annaðhvort í Morgunblaðinu eða Fréttablaðinu, að hefði Radiohead gefið plötuna út hjá plötufyrirtæki hefði þeirra skerfur verið sirka 100 krónur per plötu. Og ég leyfi mér að ætla að fólk sem kallar sig fréttamenn hafi aðgang að þessum upplýsingum einsog ég.

Þetta þýðir að jafnvel þótt tveir þriðju hafi neitað að borga krónu þá greiða hinir upp þetta fræðilega ,,tap", og fimmtíu krónum betur. Gróflega áætlað eru Radiohead þá að fá 113 krónur per plötu í stað 100. 13% aukning er ekkert smáræði.

Tónninn í þessari grein er hinsvegar sá að Radiohead hafi tekið áhættu með því að dreifa plötunni á netinu, og mistekist. Þessi fljótfærni og þessi makalaust fyrirsjáanlega neikvæðni í garð netdreifingar og nýrra viðskiptamódela fyrir þennan geira er eitthvað sem á ekki að líðast þegar hlutir einsog torrent.is, höfundarréttarbrot og hugverkaþjófnaður á netinu eru í umræðunni. Mér þykir það mjög ólíklegt að þeir sem sóttu plötuna fríkeypis hefðu borgað fyrir hana útí búð að öðrum kosti, en á hinn bóginn er mun líklegra að einhverjir þeirra sem gerðu það hafi fílað hana nógu vel til að vilja kaupa viðhafnarpakkann, vínilinn og allt það gúmm.

En þetta er reyndar ekkert nýtt úr mínum munni. Hinsvegar er tvennt í þessu sem er gaman að minnast á. Radiohead tilkynna með mjög stuttum fyrirvara að þeir ætli að setja nýja plötu á netið. Heila plötu, ekki bara nokkur lög sem þeir hafa náð að klára. Enda sýnist mér, eftir að hafa hlustað á plötuna ótal mörgum sinnum uppá síðkastið, að þar sé komin heildstæðasta skífan þeirra síðan OK Computer sprengdi huga minn. Í mínum huga eru lög ennþá hlutar úr heild, og þetta tiltekna band er a.m.k. á sömu skoðun.

Hitt er svo að upptökurnar sem Radiohead seldu á netinu eru í undarlega lélegum gæðum, og því hefur verið fleygt að þessi netsala hafi verið til þess eins að auka sölur á geisladiskunum, þegar þeir koma út fyrir rest. Lögin eru í 160kbps, sem dugar ef skal, en sjálfur rífur maður ekki niðrí minna en 190kbps. Ef þeir eru vísvitandi að selja slappa vöru, og hugsa sér hana sem kynniseintak frekar en stafræna præm eign, þá veit maður varla hvað maður á að halda. Ég vona að sú sé ekki raunin. En hvað veit maður.

Hana. Yorke að syngja og spila Videotape:Og góðanótt fjandinn. Ég ætlaði ekkert að rausa um þetta..

-b.

Engin ummæli: