14 september 2006

Ég er löngu búinn með allar góðu titlahugmyndirnar mínar

Ég er lati gaurinn í útlandinu. Er ekki enn búinn að kaupa eftirfarandi:
  • Gluggatjöld
  • inniskó
  • lampa

Sem þýðir að þegar sólin sest get ég bara lesið inní eldhúsi, og það er eitthvað skrýtið við að sitja inní eldhúsi að lesa. Ég veit ekki.. En ég les á daginn og kveiki svo á tölvunni þegar dimma tekur. Það er ágætt.

Í gær hafði ég ekkert að gera við tölvið lengur og ákvað að tékka á einni af myndunum sem ég fékk frá Ými um daginn. United 93 (Spoilerar - en það breytir líklega ekki miklu..). Ég bjóst satt best að segja ekki við neinu, og var helst hræddur við að lenda í tveggja tíma fánaathöfn þarsem kanar klappa sér á bakið fyrir að vera besta þjóð í heimi.

En það var eitthvað að virka. Ég sat fastur yfir þessari mynd, hún var bara helvíti góð.. Það fer mikill tími í að sýna hversdagsleikann í lífi farþeganna, áhafnarinnar og flugumferðastjóranna, og þósvo maður sé um leið að fylgjast með hryðjuverkamönnunum nær þessi geispandi hversdagur svo góðum tökum á rammanum að flugránið sjálft slær mann í andlitið. Maður veit allan tímann að það er á leiðinni, en það nær samt að koma aftan að manni. Þetta skrifast algerlega á það hvernig myndin er tekin; stuttar og rólegar tökur með handheld myndavélum, svo maður er alltaf innanum fólkið þarsem það er að upplifa þennan morgun einsog hvern annan.

Mér fannst þessi meðferð kunnugleg einhvernvegin, en skildi ekki hversvegna fyrren í lokin þegar ég sá að Paul Greengrass leikstýrði og skrifaði. Þetta er meira og minna nákvæmlega eins og hann sýndi uppþotin í Bloody Sunday og sprengiárásina í Omagh.

Eins furðulega og það kann að hljóma þá fann ég einhvernvegin mest til með flugumferðastjórunum, sem lentu alltíeinu í því að flugvélarnar önsuðu þeim ekki, sveigðu af stefnunni og lentu loks í turnunum, og þeir vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Að vera vanur því að geta stýrt þessum hlunkum í loftinu og sitja síðan með lókinn í lúkunum á meðan þeir sinna ekki kallinu og hrapa til jarðar.. Ráðaleysið og örvæntingin leyndi sér ekki. En það kom líka á daginn í kreditlistanum að nokkrir þeirra léku þarna sjálfa sig. Þetta er auðvitað eitthvað sem var ekki hægt í tilfelli farþeganna, en þar hefði samt nokkuð geta farið betur.

Ég gat tildæmis ekki varist þeirri tilhugsun að á hverri stundu gæti David Rasche dregið upp Gun og skotið þessa misindismenn í sundur með bros á vör. En kannske er það bara ég.

-b.

Engin ummæli: