16 júní 2008

Lungnamynd í dag

Ég fór til læknisins í morgun og hún (læknirinn) skildi ekki hversvegna ég var með útbrot. Mér leist náttúrulega ekkert á það. Afhverju gat þetta ekki bara verið að klárast? Ég vaknaði hitalaust í morgun..

Hún skoðaði þetta eitthvað frekar, tók fleiri blóðprufur og sendi mig síðan í lungnamyndatöku niðrí Domus Medica.

Þegar ég kom þangað, kynnti mig og tilkynnti erindi mitt, horfði afgreiðslustúlkan á mig með mjúkum augum og spurði með vonartón í röddinni hvort ég væri með afsláttarkort. Nei sagði ég. Ljósið í augum hennar slokknaði. Hún leit niður á skjáinn sinn. Það gera fjórtánþúsund og eitthundrað, sagði hún svo. Áts. Við myndum aldrei líta hvort annað sömu augum.

Ég fór úr skónum og settist uppá bekk með beygð hné og hendur fyrir ofan haus. Röntgendaman stakk nál í hægri handlegginn minn og festi einhverskonar pumpu við hann, þetta er skuggaefnið sagði hún. Ég læt þig vita áður en ég dæli því inn. Hún sagði að þetta væri joð og eitthvað svoleiðis, með því kæmu lungun til með að myndast betur. Ég beið spenntur.

Ég rann fram og aftur á þessum bekk í gegnum stóran hring, sem tók væntanlega myndir. Það var e.t.v. eitthvað kynferðislegt við hreyfinguna, en mér datt það ekki í hug fyrren ég leit tilbaka. Þarna var ég bara að draga andann, halda honum inni, bíða og hlusta. Svo sagði hún mér að núna færi dælan í gang.

Það hljómaði einsog einhver hefði skrúfað frá krana, ég fann hita inní handlegginn, uppí brjóstið, höfuðið og niðrí fætur og pung. Mjög skrýtin tilfinning. Og svo dró ég djúpt andann, hélt honum inni, beið.

Á leiðinni út verslaði ég ofnæmislyf, sem áttu að losa mig við kláðann í útbrotunum. Sem þau og gerðu. En fokk, þetta var dýr dagur.

Læknirinn hringdi seinnipartinn, búinn að fá niðurstöður úr myndatökunni. Hún sagði að ég væri með bólgið milta og lifur, þetta væri væntanlega einkirnissótt. Mónó, kossaveiki. Blóðprufurnar koma til með að staðfesta það hundrað prósent, og það kemur í gegn á miðvikudaginn, en nú göngum við útfrá þessu. Ég á ekki að vera í neinum íþróttum næstu þrjá mánuði og ekki að hjóla næstu vikur, af hættu við að rífa lifrina eða eitthvað.. Og taka því ofsa rólega og alls ekki að fara of snemma af stað, svo ég fái ekki einhverskonar síþreytu-sindróm.

Grábölvað andskotans andskotans helvítis andskotans..

Og hún vill ekki að ég fari á Hróarskeldu.

En ég ætla nú að sjá til með það, ég get ekki bara strikað það út einn tveir og þrír.

Mér líður allavega betur en í síðustu viku. Hausverkurinn og augnaverkurinn, þeir eru farnir, sjö níu þrettán. Það kom mér satt best að segja á óvart þegar þyngslin í höfðinu hurfu, ég var hættur að gera mér grein fyrir því hvað það var orðið óþægilegt að haga höfðinu eðlilega.

Svona stendur þetta. Skipunin er sú sama, liggja í leti, drekka vatn. Wikipedia mælir með sólböðun? Jæja. Ég reyni allt tvisvar.

-b.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"Kissing decease"... hvern varstu að kyssa?

Og engin Hróarskelda? Það hljómar ekki vel..

-Ýmir.

Björninn sagði...

Ég minnist þess ekki að hafa kysst nokkurn eða nokkra nýlega. En þetta getur jú smitast á aðra vegu.

Og nei, það hljómar ekki vel. Jafnvel þó ég verði kominn á lappir þegar tíminn kemur, þá er til lítils að fara ef ég get ekki drukkið og djöflast. En sjáum til.