20 júlí 2007

Uppgjörsógeð

Halló íbúð. Ég er seinn í kvöld, ég veit.

Það var hringt í mig klukkan átta og ég ræstur í vinnuna. Enginn mættur ennþá, sagði röddin í símanum. Þegar ég mæti á staðinn er stöðin opin, vaktstjórinn löngu mættur. En ég ætlaði að mæta tveimur tímum síðar hvorteðer svo ég varð bara áfram. Mínútu fyrir lokun mætir svo drukkin (?) og slefandi stúpid kerling á bíl og vill láta fyll'ann. Það boðaði ekki gott.

Málið er sko: Í þessu nýja (nokkurra mánaða gamla) kassakerfi, þá mega ekki of margir reyna að gera upp á sama tíma því þá frýs alltsaman og hrynur oní djúpa gjá. Norður í öræfum. Og maður verður að hringja í bakvaktina hjá EJS og bíða eftir því að komast að (það er gjarnan á tali því það eru allir að lenda í sama veseninu) og fá einhvern gaur til að laga draslið svo maður geti haldið áfram. Þetta er víst einhver villa sem ,,er verið að vinna í". (Sem þýðir ,,þetta virkar ágætlega þegar það virkar, látum þessi fífl bara halda áfram að hjakka í því.")

Málið við það er sko: Það gera allir upp á sama tíma, alltaf. Ef kerfið virkar ekki undir álagi þá virkar það ekki, punktur. EJS eru hálfvitar.

En allavega. Ég lenti í þessu. Og ég beið á meðan bakvaktin var á tali. Og svo náði ég í gegn. Óskar svaraði. Ég sagði honum hvað væri að, hann endurtók vandamálið og svo heyrði ég hann anda í símann í sjö mínútur. Ég tók tímann. Í bakgrunninum heyrði ég í Leno að taka viðtal við.. einhvern. Svo segir Óskar að hann sjái uppgjörið hjá sér og þar sé allt í lagi. Ég skoða aftur, segi nei, þetta er ekki allt í lagi. Hvaða stöð var þetta aftur, segir Óskar. Ægisíðan, segi ég. Já, ókei ég er í vitlausri búð, segir Óskar.

Meiri Leno. Eftir ellefu mínútur komst hann að rót vandans (býst ég við) og leysti málið. Ég kvaddi og hélt áfram að gera upp. Þá virkaði Concordinn ekki. Ég hringdi í bakvaktina þeim megin. Engin svör. Fokkitt ég er farinn heim.

Og svo kom ég hingað. Hæ íbúð.

-b.

Engin ummæli: