26 júlí 2007

Harður deyr

(Er hugsanlegt að tölurnar einar hafi fengið manninn til að taka þetta að sér, og skrifa það sem hann ætti ekki að vera að skrifa? Svipað og að ríða í takt við stillimyndina á RÚV og bíða með titrandi tárin í kverkunum eftir endursýndu Helgarsporti. Einn tveir og. A S D F. A D og E. Da rara ra Ra.)

Ég var að hugsa um þetta í bílnum á leiðinni heim, því ég var að reyna að koma þessu í frambærileg orð við Hall fyrr um kvöldið. Die Hard 4 fór ekki síst í taugarnar á mér vegna þess að hún reynir að skapa einhverskonar spennu á milli þess gamla og þess nýja (eða yngra), en það sem kemur úr krafsinu er þessi þreytta mýta um taugaveiklaða pabbann sem veit ekki, og skilur ekki, hvað krakkarnir hans eru að gera.

John McClaine njósnar um dóttur sína að næturlagi svo hún fari sér ekki að voða. Hún segist ekki þurfa á honum að halda og hann skilur ekki hvað gengur að henni. Þegar henni er rænt getur hún ekkert annað gert en að kalla á pabba gamla og hann kemur og bjargar henni. Niðurstaða: Litla stelpan hans þarfnast hans ennþá, jafnvel þótt hún haldi öðru fram.

John McClaine skilur ekki þennan svokallaða internet-terrorisma, m.ö.o. hvað þessir krakkar eru að pikka á tölvurnar sínar, en þegar allt kemur til alls þá þarf hann bara að keyra bíla utaní hluti, berja fólk og skjóta fólk og hreinn og klár þjösnaskapur hefur sigurinn þegar yfir lýkur. Niðurstaða: Sama hversu mikið er keyrt á tölvum nútildags þá er ennþá nóg pláss fyrir gamla, góða (og sköllótta) yfirvaldið.

Fjandinn, þrátt fyrir að hakkaranördið, sem býr hjá mömmu sinni, sé svo vel víraður að hann geti tengst netinu á meðan restin af veröldinni getur það ekki, þá er það gammeldags radíóið sem gerir honum kleyft að hjálpa hetjunni þegar sú stund rennur upp.

John McClaine skilur ekki hvað þessi herþota er að abbast utan í hann, en með því að grípa í hálsinn á henni og skrúfa hana niður í jörðina þá getur hann haldið áfram að elda vondu gaurana. Ef hann hefði ekki verið að flýta sér svona mikið þá hefði hann örugglega látið það eftir sér að sveifla hattinum í fallinu og tjóðra svo þotuandskotann utaní staur. Harkan sex blívar alltaf.

En það þyrfti í sjálfu sér ekki að vera svo slæmt ef þetta nýja illskiljanlega internet-jamadahababbl væri sett fram á raunhæfa vegu. En það sem þeir sýna í myndinni er því miður ekki svo frábrugðið því sem kemur fram í þessari strípu:


Myndin sem er dregin upp af ,,internetkrökkunum" (og þar eru meðtaldir terroristarnir og tölvusérfræðingar ríkisins) endurspeglar ekki raunverulega þekkingu eða getu heldur blautar martraðir þessa steríótýpíska miðaldra karlmanns. Við eigum ekki að gera kröfu til þess að tæknidjargonið meiki sens vegna þess að John McClaine á ekki að skilja það. Þetta er bara eitthvað abrakadabra sem á víst að vera framkvæmanlegt með lyklaborði og ósýnilegu netsambandi, en það skiptir ekki máli lengur þegar maður er kominn með byssu og stóran trukk.

Frásögnin er þannig einradda: Ef McClaine lendir upp á móti einhverju sem hann skilur ekki þá skyldi engan undra því við gætum aldrei skilið það heldur - þannig er það skrifað. Og ef það er eitthvað sem hann kann ekki eða hefur ekki tök á, þá kemur í ljós að það skiptir engu máli þegar allt kemur til alls. Vonda konan kann bardagalistir svo hann keyrir hana niður á trukknum sínum. Hann kann ekki að fljúga þyrlu en þeir þurfa að komast á milli staða svo það hefst í fyrstu tilraun.

Svona rekur hvert atriðið á fætur öðru og alltaf enda þau nákvæmlega einsog maður hefði búist við. Nú er talað um að handritagerð snúist um það að smíða árekstra. Ef einn hlutur er ekki að rekast utaní annan þá hefurðu ekkert drama til að moða úr. Í þessari fjórðu Die Hard mynd eru árekstrarnir einsog á milli snjókorna og beltagröfu, þarsem ekkert stendur raunverulega í vegi fyrir hetjunni. Tilhæfulaus ótti hennar við krakkana og tölvurnar er hrakinn æ ofaní æ og það sem dugar alltaf alltaf er að ýta bara fastar. Mér finnst, svona eftir á að líta, ekkert skrýtið að á ákveðnum tímapunkti hafi mér einfaldlega farið að standa á sama um hvað gerðist næst. Fínt fínt, haltu bara áfram að hetjast eins fast og þú getur svo við getum klárað þetta og ég geti gengið burt frá þessum andskota.

Ef þið skiljið hvað ég er að meina.

Hei ég fór annars á Selfoss í dag. Og þaðan í Gunnarsholt og þaðan á Hvolsvöll. Svo aftur tilbaka. Ég fór með Halli í hambó á gallerí pítsa. Og Helgi, eða mamma hans öllu heldur, gaf mér helling af myndasögum sem átti að fleygja í tiltekt. Góður dagur semsé.

Engin ummæli: