07 febrúar 2012

Númer næsta

Mér dettur í hug að reyna þetta aftur, ég hlóð meira að segja niður Firefox viðbót til að prófa. Hérna er hún, hylur hálfan skjáinn.

Á netinu er talað um morðhótanir. Sennilega ætti maður ekki að telja með þetta þegar strákar segja hver við annan „ég drep þig“, það eru meinlausar ýkjur.. dálítið eins og þegar talað er um að einhver sé að „nauðga“ tilteknu lagi. Einhverstaðar skrifaði Siggi pönk hugvekju um það. En látum svoleiðis liggja á milli hluta.

Semsagt morðhótanir þegar einhver segist ætla að drepa þig, og þú hefur enga ástæðu til að ætla að þar sé um ýkjur eða myndhvörf að ræða.

Ég hef haft dálítið gaman af því, eftir á, að eina morðhótunin sem ég hef nokkurntíman fengið – sem fellur undir þessa skilgreiningu – hafi komið frá æstum aðdáanda Sigur Rósar. Ég var að vísu ekki eina andlag þessarar hótunar, það vorum við Már báðir. „Ég drep ykkur“ var það sem hann sagði blessaður. Kannske er það helsta sem situr eftir nokkurskonar nostalgísk minning um tíma þegar það tók því að rífast um Sigur Rós.

En morðhótunin sem kemur útúr nafnlausu tómi. Við Már slógum þessu upp strax í kjölfarið. Tilfinningin var ónotaleg en það var ekkert annað að gera en að búa til einhverja þekkjanlega stærð úr þessu. Ekki meðvitað held ég, sem taktík, en það eina sem okkur datt í hug að gera með græjurnar sem við vorum með í höndunum: að fagna því að við værum nú „gengnir í klúbbinn“, eins og Davíð kallar það.

Það hlýtur að vera ansi sorrí klúbbur. Breiður hópur af allskonar vitleysingum sem hafa einhverntíman sagt eitthvað sem einhverju vanstilltu símtóli mislíkaði. Og nær langt aftur í aldir sjálfsagt; hérna í gamla daga skrifaði fólk nú bréf. Eða ætli maður þurfi að endurnýja áskriftina með reglulegu millibili? Hugsa sér napurlegri mælikvarða á frægð.

Mér finnst einsog ég hafi ætlað að tala um eitthvað skemmtilegra. Ég skal gera það næst. Ekki drepa mig.

-b.

Engin ummæli: