Þetta var annað árið sem ég hélt sérstaka lestrardagbók. Þetta er lítil svört stílabók, ekki sérútbúin lestrardagbók með fyrirfram ákveðnum dálkum eða slíkt. Ég fékk hana að gjöf frá Þorra bróður, fyrsta færslan er frá 6. september 2010. Ég man ekki lengur við hvaða tilefni ég fékk þessa bók.. mögulega var hún jólagjöf sem sat svo uppí hillu þar til mig vantaði bók.
Þannig að síðasta ár gat ég litið yfir neysluárið 2011 frekar auðveldlega og mér þótti það ekki leiðinlegt. Það sem kemur mér á óvart í ár -- og ég held það hafi átt við um árið áður líka -- er hversu fljótt það fennir yfir. Bækur sem ég las fyrstu þrjá mánuði ársins hefði ég annars svarið að tilheyrðu 2011. Ég er líka hissa á því hversu fáar kvikmyndir ég sá á árinu, og í sama vetfangi hversu ofboðslega mikið sjónvarpsefni ég horfði á.
26 kvikmyndir tel ég, þar með talið myndir sem ég hafði séð áður og eina sem ég sá tvisvar á árinu, þ.e.a.s. hún er talin tvisvar. Af sjónvarpsefni hinsvegar tel ég 28 þáttaraðir. Raðir! Fyrir utan þætti sem ég rétt kíkti á, horfði á einn eða tvo og nennti síðan ekki meir.
Ég hlustaði á böns af hljóðbókum en mér fór að þykja erfitt að finna eitthvað sem ég entist yfir. Speaker for the Dead var orðin hálfgerð kvöl undir lokin, ég datt strax út úr The Mote in God's Eye og The Naked and the Dead. Beer in the Middle Ages and Renaissance var mjög áhugaverð til að byrja með en ég hætti að geta fylgst með öllum tölunum. Það er bók sem maður myndi þurfa að hafa í höndunum, til að geta flett yfir allar töflurnar. Um mitt árið fannst mér ég ekki finna neitt sem ég hafði áhuga á svo ég bakkaði í það sem ég hafði áður hlustað á, renndi í gegnum The Diamond Age og Barrokk sveiginn hans Neal Stephenson. DA var betri í seinna skiptið en Barrokk sveigurinn ekki. Eða, það var misjafnt eftir bókum: The Confusion, sem mér þótti sú lakasta í fyrra skiptið, þótti mér nú skemmtilegust. Ég held að hún líði minnst fyrir það að maður viti hvernig sagan fer, eða endar. Þó ég hafi ekki munað allan söguþráð The System of the World frá því síðast þá mundi ég nógu vel hvernig allt fór, og nennti ekki að fylgjast með því aftur.
Þannig að ég fór að hlusta meira og meira á hlaðvörp. Eða hlaðvarp? Varla hlustar maður á útvörp. Hlaðvarpsþætti, þá? Ég hef áður dottið svona út, hætt að nenna að hlusta á bækur í nokkra mánuði. Þá hef ég kannske fundið einhverja músík til að hafa í eyrunum en nú er það alveg frá. Ég hlustaði á tvo nýja diska á árinu (ég held ég sé ekki að ýkja), það voru nýir diskar frá böndum sem ég kynntist fyrst fyrir a.m.k. sex árum síðan. Hvorugur kveikti sérlega mikið í mér.
Þannig að, hér er það sem ég fann og mér fannst best.
Skáldsögur, íslenskar:
Illska eftir Eirík Örn Norðdahl
-- Ég las sáralítið af íslenskum skáldskap á árinu en Illska var stærst og best. Umfjöllunin sem ég skrifaði um bókina var sennilega of jákvæð, þ.e.a.s. ef meiningin hefði verið að lýsa lestrarreynslunni allri. En hún sat í mér, bæði vel og illa, og ég reyndi að koma því frá mér. Ritdómari Víðsjár, nafni minn, sýndi meiri yfirvegun en ég var ósammála öllu því sem hann fann bókinni til vansa -- jafnvel þó mér hafi alls ekki þótt hún fullkomin. Það er e.t.v. klisja en mér fannst hann fara villu vegar (eða önnur og betri þýðing á missing the point) í því að segja of litla tengingu milli Helfarar-frásagnarinnar og sögunnar úr nútímanum. Tengingin er í uppstillingunni, þetta versus hitt. Og eins í þeirri túlkun að illskan eigi rætur að rekja til Helfararinnar, þegar skáldsagan gefur sterklega í skyn að hún sé bara viðkomustaður. Loks er það einfaldlega ósatt að rasisma Arnórs sé fundin skýring í tráma úr barnæsku. Að öðru leyti fannst mér hann fjalla af miklu meira viti um bókina en ég, sem segir mér svo aftur að hefði ég reynt að ballansera umfjöllunina einhvernveginn með því að finna aðfinnsluatriði þá hefði ég sennilega dottið í dýpri gryfjur en hann.
En ég þarf varla að halda uppi vörnum fyrir Illsku, henni hefur gengið ágætlega.
Skáldsögur, enskar:
The Map of Time eftir Felix J. Palma
Hyperion eftir Dan Simmons
Ender's Game eftir Orson Scott Card
-- Þetta er allt vísindaskáldskapur. MOT sá ég á árslista fyrir 2011 en vissi annars ekkert um hana þegar ég byrjaði. En hún er einstaklega skemmtilegt sæfæ og um leið meta-sæfæ því hún kannar allar mögulegar útfærslur á tímaflakkssögunni með því að henda inn hinum og þessum sjónarhornum, mismunandi blekkingum og skáldskap, svindli, endurskipulagningu og óhugsandi ósköpum. Hún flakkar á milli þess að vera mjúkt og hart sæfæ, eða hún blekkir mann stöðugt fram og tilbaka. Æðisleg bók.
Hyperion á það sameiginlegt með The Map of Time að sögumennskan skiptir höfuðmáli, eins það að hugmyndin um tíma virðist mjög á reiki. Annars eru þær eins ólíkar og hugsast getur. En hún er jafn frábær og framhaldið, The Fall of Hyperion, er ömurlegt.
Og Ender's Game er langt frá því að vera fullkomin en hún fjallar svo einstaklega vel um grimmd, og á einfaldan og snöggan hátt. Stutt bók og einföld saga, á allt sitt hæp skilið.
Myndasögur:
Habibi eftir Craig Thompson
Vampíra eftir Sirrý og Smára
Habibi fékk ég í útskriftargjöf 2011 og kíkti aðeins í hana þá en las hana svo í ár. Sérlega metnaðarfull og á allt öðrum skala en Blankets, en einsog þar þá er tilfinningalegi kjarninn alveg gegnheill, þó þær séu báðar stundum kjánalegar.
Og Vampíra kom mér hreinlega mikið á óvart. Alveg merkilega akkúrat íslensk myndasaga sem ætlar sér ekki of mikið en tekst það frábærlega.
Nonfiksjón:
The Code Book eftir Simon Singh
Rekferðir eftir Guðna Elísson
I Am Alive and You Are Dead eftir Emmanuel Carrère
Þessar bækur eiga það allar sameiginlegt að ég átti erfitt með að leggja þær frá mér, mig langaði alltaf að vita meira og þær gefa alltaf meira og meira. Hvert einasta sögusvið eða hver einasta tækni sem Singh fjallar um mætti sennilega fá bók út af fyrir sig, en The Code Book dregur fram svo rosalega spennandi atriði við hvert og eitt, og leiðir mann í gegnum söguna. Rekferðir samastendur auðvitað af endurbirtum pistlum en þeir eru svo leikandi vel skrifaðir og heilsteyptir í hugsun að það skiptir engu máli þótt margir hverjir séu andsvar við það sem var að gerast þá vikuna fyrir öllum þessum árum síðan. Og IAAYAD er sennilega skáldskapur af miklum hluta en þrátt fyrir það gapir maður eiginlega yfir lífshlaupi Dicks. Og hún rak mig í að lesa meira eftir hann, sem er best allra markmiða.
Sjónvarp:
Sherlock 1. og 2. þáttaröð
Breaking Bad, 1.-5. þáttaröð
Game of Thrones, 2. þáttaröð
Louie, 3. þáttaröð
Community, 1.-3. þáttaröð
Í þessari röð: Besta endurgerð ársins; besti krimmi ársins; besta aðlögun ársins; besta "hvað dettur mér í hug þessa vikuna" ársins; og besti sjónvarpsþáttur ársins.
Leiðinlegasta sjónvarp ársins var Walking Dead, 2. þáttaröð. Ég gafst upp í þriðja þætti minnir mig. Það var einsog þættirnir væru bæði skrifaðir og leiknir í gegnum plastpoka.
Bíó:
Shame
Another Earth
The Cabin in the Woods
The Dark Knight Rises
Looper
Röðin er tímaröð, held ég. Tvær sæfæ, metahrollvekja, ofurhetjumynd og McQueen. Passlegt. Í þessari sömu röð: Besta fjölskyldusaga ársins; besta mjúka sæfæ ársins; besti endir ársins (og sennilega besta mynd ársins); besta framhald ársins; og besta harða sæfæ ársins.
Hlaðvarp:
Comedy Bang Bang
Harmontown
The Pod F. Tompkast
WTF w/ Marc Maron
Ég á erfitt með að segja eitthvað frekar um þessa þætti. CBB er oftast skemmtilegt, stundum frábært og stundum beinlínis leiðinlegt. En þátturinn er vel yfir meðallagi og Paul F. Tompkins kemur oft við. Sem er gott. Hans eigin þáttur, PFTkast, er það besta sem er að gerast í þessum hlaðvarpsgeira. Harmontown eru upptökur af vikulegum (sirka) samkomum sem höfundur Community heldur ásamt vinum sínum, þarsem fólk mætir í lítinn sal og horfir og hlustar á hann drekka og tala. Mjög losaralegt og mistækt en ég hef oft mjög gaman af því. Liam Neeson eftirherman hans í þriðja þætti innsiglaði dæmið fyrir mér. Og WTF er besti viðtalsþáttur sem ég hef heyrt. Bryan Cranston, Gilbert Gottfried, Tom Kenny, Tim Heidecker, Todd Solondz, Pauly Shore, Dylan Moran -- þetta eru þeir bestu sem ég heyrði bara frá ágúst til dagsins í dag. Þættirnir með David Cross, Bob Odenkirk, Conan O'Brien, Chris Rock, Gallagher og einmitt Dan Harmon, góðir líka. Þeir eru sennilega orðnir það gamlir að þeir kosta orðið pening, en annars er þetta allt frítt. Sem er náttúrulega plús.
Ókei þetta er orðið ansi langt. Ég ætlaði að skrifa eitthvað svipað um bjórgerðina og annað sem ég hef dundað við á árinu, geymi það sennilega til betri tíma. Þarf að fara í sparifötin og svona.
Gleðilegt nýtt ár ég og þið hin!
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli