08 febrúar 2012

Nítján hundruð sjötíu og níu

Ég er með sömu lögin á heilanum og allir aðrir. Það er eins og það á að vera; við erum manneskjur úr sömu kolefnisatómum og sama þjóðfélagsgrunni, meira og minna. Ég velti því samt fyrir mér hvort lögin staldri lengur við hjá mér en öðrum, þar sem ég er latur neytandi tónlistar. (Eða njótandi tónlistar? Nei, sennilega nýt ég þess alveg eins mikið og aðrir að neyta tónlistar, ég bara neyti ekki sama magns.) Lag sem ómar í dag dúkkar sennilega upp aftur á morgun, og þess vegna daginn þar á eftir, vegna þess að það kemur ósköp lítið til að hrinda því úr sessi.

Þetta er hanaslagurinn í höfðinu.

Það var það fyrsta sem mér datt í hug en líkingin er skemmtileg vegna þess að það er einmitt bara eitt í gangi í einu. Hversu svakalegur njót-neytandi sem maður er, þá eru varla nokkurntíman fleiri en eitt lag í gangi í einu höfði á sama tíma? Út frá minni eigin reynslu er það ómögulegt. - Reyndar eins og svo margt annað.

En hanaslagurinn semsagt. Það er auðveldara að standa í hásætinu í lengri tíma, raula og hafa það kósí þegar áskorendurnir eru færri. Ef maður hlustar lítið á músík þá hangir sama lagið kannske í manni í fleiri, fleiri frímínútur. Og það að maður sé á toppnum segir þá ennþá minna um það hvað maður sé góður slagari.

Um daginn fékk ég lagið '1979' á hausinn. Það er með Smashing Pumpkins, af plötunni Mellon Collie and the Infinite Sadness. (Titill plötunnar sýnir, bæ ðe bæ, að Corgan hafi haft miklu meiri húmor fyrir sinni eigin svartsýni og þunglyndi heldur en textarnir hans gefa til kynna. 'Depurðin endalausa' er nógu absúrd yrðing í sjálfri sér, en þarna verður hún eins og hluti af plotti í barnabók, eitthvað sem rekur áfram ærslafulla leit en skiptir engu máli í neinu stærra samhengi: Hin fjögur fræknu og Hvíthattaklíkan, Ástríkur og grautarpotturinn.. Og melankólían sjálf er þá aðalpersónan, persónugerð í melónu-voffa. Titillinn í heild er svo náttúrulega tvítekning, sem er með einfaldari leiðum til að blikka áhorfandann: 'Depurðin og depurðin endalausa'. Aftur og að eilífu, ó við erum svo döpur. Þetta minnir mig að nokkru leyti á Smiths, sem fara samt öfuga leið: textarnir gera grín að sjálfum sér en titlar platnanna eru háalvarlegir.)

En já, '1979'. Það sem ég var með í höfðinu, þegar ég fattaði að það var þarna, var melódía úr þessu lagi. Ég las einhverstaðar myndbandinu lýst svo að það væri 'pure, unfiltered nostalgia' og það er sennilega ekki hægt að orða það betur. Þarna er Corgan að syngja um það hvað það var gaman í den, þegar hann var ungur. Það er meira en lítil kátína og lífsgleði í þessu lagi, hann minnist að vísu á það að beinin þeirra vina hans fari oní jörðina að þeim látnum en þó aðallega til að sýna fram á að honum sé sléttsama akkúrat núna. Eða þá, öllu heldur.

'Þá' var semsagt árið 1979. Þegar Mellon Collie kemur út, árið 1995, eru sextán ár liðin. (Hvað ætli Corgan sé gamall þá? Ég neita að gá á Wikipediu. Sextán plús svona fimmtán, sextán, sautján samasem kannske 32? Gæti passað.) Hann teygir sig aftur í áttunda áratuginn, rétt svo, en leiðin er ekki óskaplega löng. Þetta rann upp fyrir mér (segi ég eins og ég hafi uppgötvað eitthvað merkilegt) þegar ég mundi hvaða ár er nú. Það eru semsagt sautján ár liðin frá því lagið kom út. Þrjátíu og þrjú ár frá því Corgan var ungur og sæll árið 1979, en það skiptir harla litlu máli. Heldur það að lagið sjálft, hljómarnir sem hanga í höfðinu á manni og textarnir sem rifjast upp ef maður sönglar, er orðið sautján ára gamalt. Það tengir mann afturábak, tengir mig afturábak, á svipaðan máta og það gerði fyrir Corgan áður.

Þáþráin elur af sér þáþrá, eða hún verður hluti af 'þá'-inu sem maður þráir. -- Ekki svo að skilja að ég þrái árið 1995. Þeir sem vilja vera þrettán ára aftur þurfa að hugsa sinn gang. En ég meina þetta á svona almennari máta.

Ég nefndi þetta við Nönnu og henni fannst það vægast sagt ekki merkilegt. Lög eldast, sagði hún og yppti öxlum. Það sem hankaði mig í þessu var samt það að tímabilið þarna á milli er jafn langt, en það virkar svo alls alls ekki þannig í tilfinningunni. Nítján hundruð sjötíu og níu? Það er óralangt síðan. En ég man 1995 eins og það hefði gerst fyrir örfáum árum síðan. Og svo framvegis. 'Þá'-ið var 1979, 'þá'-ið var 1995, 'þá'-ið var 2012.

Eða er 2012.

Er 2012?

-b.

Engin ummæli: