Ofninn er að hitna, ég er búinn að hræra pönnukökudeigið, pítsubotnsdeigið er að hefast, hvítlaukssmjörið að hlýna, pakkarnir komnir í viðeigandi pappír og á leiðinni austur með mömmu. Ég er búinn að fá mér tvo bjóra í kvöld, ætli meiningin sé ekki að halda sér slökum. Nanna skrapp til systur sinnar að sækja búr undir kettlingana fyrir svona einum og hálfum tíma síðan. En ég er orðinn svangur.
Kettlingana já, við ætlum að fá okkur kettlinga. Tvo högna. Það er komið búr fyrir þá undir stiganum. Við ætlum að sækja þá í Borgarnes á morgun. Kannske dálítið löng leið að fara eftir köttum en svona er þetta nú bara.
Ég kemst svo að segja ekki í jólaskap fyrren ég fatta að ég er orðinn seinn með jólakortin og hespa einhverju af síðustu dagana fyrir jól. Þetta er búið á áætlun núna en eftir að það var allt komið í umslög þá fékk ég fína hugmynd að kortum, sem ég hefði getað framkvæmt í gær, en ekki í dag. Vertu á sömu akrein og ég, heimur. Eða ekki, vertu frekar á hinni akreininni við hliðina á mér þannig að við getum benst á og lesið af vörum hvors annars.
Það eru fjórir dómar eftir mig komnir á bókmenntavefinn, það eru: Vormenn Íslands eftir Mikael Torfason, Himinninn yfir Þingvöllum eftir Steinar Braga, Síðustu dagar móður minnar eftir Sölva Björn Sigurðsson og svo Íslensk dægurlög og Alhæft um þjóðir eftir Hugleik Dagsson og Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur (í þeirri sömu röð).
Ég er nokkuð sáttur við þetta. Var pínu súr yfir að hafa ekki gripið líkindin við A Confederacy of Dunces í Síðustu dögum en það er ekkert nei nei nei, bara svona.. Uss, Bjöss. Best? Alhæft um þjóðir. En ef maður les ekki myndasögur? Himinninn yfir Þingvöllum hugsa ég. Annars er rugl að skipa í einhverja röð. Ég myndi ekki mæla með sömu bók við alla sem ég þekki.
Ætli ofninn sé orðinn heitur?
...
Jamm hann var það. Hvítlauksbrauðið fínt, Nanna komin heim, pítsan er í ofninum. Klukkan er korter yfir tíu, Þorláksmessa á morgun.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli