31 desember 2009

Áramótabréf

Ég svaf í svona þrjú korter áðan með Cryptonomicon í eyrunum og dósahláturinn í Friends barst dauflega gegnum svefnherbergisdyrnar. Ég er með smá verk í mjóbakinu eftir ræktina, bara svona eitthvað sem fylgir þessum ógurlegu harðsperrum, úr herðum niðrá bak og oní hásinar. Ég fékk mér te, bollinn er hérna við hliðina á mér, hann er blár og teið er á litinn einsog dauft kaffi. Hugsa að ég fái mér kaffibolla til hátíðarbrigða, en það verður á eftir.

Í dag fann ég treo í apóteki, og nýárshatt handa Nönnu. Við eigum afmæli á morgun en ég veit ekki hvað við gerum þarsem það verður allt lokað og líklega einhver þynnka í gangi. Auðvitað væri hentugast að halda uppá þetta í nótt.. kannske gerir maður það í huganum og heldur svo rólega áfram í fyrramálið. Eða eftirmiðdaginn. Allt eftir því hvernig Bakkus brosir.

Hérna inná gangi er Logi, labradorhundurinn af hæðinni fyrir ofan, að skoða kettlingana, Bjart og Glúm. Glúmur er nefndur eftir Glúmi Óleifssyni, öðrum eiginmanni Hallgerðar langbrókar. Ég er að vísu ekki viss um að þeir hefðu haft skap saman.. en jú jæja, Glúmur hugsa ég að gæti slegið einhvern í bræði og iðrast þess en haft grimm örlög af.

Bjartur er ekki nefndur í höfuðið á neinum, hann er bara alhvítur, hvergi dökkur blettur á honum þannig að þetta liggur mjög beint við. Hann á ekki heima í Sumarhúsum og hann er ekki á leið í Vetrarhús. Hálf-enskuþýðingarnar Bright og Gloomy eru tilviljun. Þeir eru ekki andstæður.

Nú rétt í þessu datt mér í hug að fletta nöfnunum upp í Snöru. Bjartur segir sig sjálft, en Glúmur er gamalt bjarnarheiti. Eða einhver með skuggalegt augnaráð.

Stefnan er semsagt tekin á efri hæðina í kvöld, þar er matur klukkan sjö, eftir svona fimmtíu mínútur. Við skálum á miðnætti hér í Breiðholtinu og svo er það partí á Vesturgötunni.

Þetta hefur verið viðburðaríkt ár. Ég fékk semsagt svona ektakærustu og var meira og minna fluttur inná hana áður en við fluttum í nýja íbúð saman. Þar (hér) er lágt til lofts og dálítið dimmt stundum en nóg pláss og leigan drepur mann ekki. Breiðholtið er næs og sambúðin góð. Ég er erfiður í umgengni en þetta gengur furðulega vel, enda er Nanna góð kona.

Ég fór aldrei í megrun en skar aðeins niður í þessu feita, hætti næstum að borða pasta og minnkaði brauðið. Og nú á ég nammidag á laugardögum og jólum. Ég hélt mig við ræktina þrisvar í viku og tók svo á sprett í sumar, alla virka daga í mánuð. Það kom mér dálítið á óvart að ég skyldi endast í því og halda svo áfram þegar sumarfríinu lauk en það var eiginlega ekki annað hægt þarsem ég var farinn að finna góðan mun á mér sjálfur. Ég er sterkari en ég var, hef meira þol, kann ýmislegt í salnum fyrir utan það að x-a við prógramm og svo hef ég misst 17 kíló síðan á jólunum '08.

Ég hef staðið mig að því, sérstaklega þegar ég er kominn í glas, að tala ekki um annað en ræktina hitt og þetta. Sem er hættulegt. Það sama á við um kettlingana, við Nanna stoppuðum okkur nokkur nokkrum sinnum af síðasta spilakvöld.

-------

Nei nú fór ég upp að borða, kíkti niður til að ná í trefil, klukkan er að fara að slá. Gleðilegt nýtt ár!

-b.

Engin ummæli: