26 nóvember 2008

Laxness hvergi heima

Þeir segja það í fréttunum að enginn vilji kaupa Laxness vegna þess að enginn þykist geta selt hann aftur. Og þeir sem vilja selja hann núna til að byrja með vilja selja hann allan alltaf en ekki bara að hluta til hér og þar. Og þeir sem eru að selja hann keyptan núna akkúrat einsog er, þeir mega ekki selja hann lengur því þeir eru með yfirburðastöðu á markaði. Umfram þá sem vilja ekki kaupa Laxness, þessa sem ég minntist á í byrjun.

Nú eru rúm tíu ár síðan skáldið dó. Hann er því löngu hættur að rukka útgefendur sína. Ég legg til að útgáfurétturinn verði gefinn frjáls. Ekki laus heldur frjáls.

Forlagið getur þá haldið áfram að gefa karlinn út því þeir sitja ekki lengur einir að honum. Minni forlög (sem eiga ekki efni á stóru F-i) geta gefið hann út ef þau vilja, hugsanlega myndu þau einbeita sér að því sem Forlagið nennir ekki að prenta, og þá í minni upplögum. Og afkomendurnir geta haldið áfram að skrifa í blöðin, leikstýra kvikmyndum og gefa út sínar eigin bækur.

Nú þekki ég ekki höfundaréttarlög svo gjörla en hugsanlega mætti setja einhverskonar varnagla sem tekur til erlendra þýðinga, nokkra aura sem erlendir útgefendur greiða til Gljúfrasteins til dæmis.

Málið er leyst.

Og í anda lausnarinnar mun ég ekki krefja neina lifandi sálu um úrlausnarþóknun. Kannske handaband frá skáldinu þegar ég sé hann handan.

-b.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Í hvaða fréttum var þetta? Finn þetta hvergi. Tengil!
-Ingi

[Davíð K. Gestsson] sagði...

Hér:
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/24/halldor_laxness_ofaanlegur/

og hér:
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/15/utgafa_a_bokum_laxness_i_haettu/

Björninn sagði...

Góður Débein.

Nafnlaus sagði...

Magnað! En kannski hefur þetta jákvæð áhrif, kannski verður þetta til þess að íslensku kennarar í framhaldsskólum á Íslandi átta sig á því að það skrifuðu fleiri höfundar skáldsögur á íslensku á 20. öld en HKL.
-Ingi