12 júní 2007

Ég er fluttur

og kominn inn með flest mitt drasl. Byrja að vinna á morgun. Ég hef ekkert annað að segja í bili, fyrir utan það að þetta gekk allt einsog í lygasögu. Og hérna er raus úr flugvélinni.

-----

Ég sit í 17C, eftir að hafa farið í gegnum hlið A23, flughöfn númer 3. Og núna segi ég flugvallarsöguna sem enginn vill heyra nema ég sjálfur. (En það er nóg, því ég hef tæpa þrjá klukkutíma til að slátra, og bara þrjá bjóra í viðbót. Eitthvað verður að halda höndunum í gangi.)

Þetta var semsagt leiðindadagur. Ég vaknaði klukkan að verða níu, sturta og tannburst, pakkaði sænginni og koddanum, færði lampann og töskurnar yfir í herbergið hans Tommys og rúmið bakvið húsgafl. Settist við tölvuna og beið. Værmemesteren, hún Pia Jessen, mætti á slaginu. Ertu tilbúinn, sagði hún (á dönsku). Já, sagði ég (líka á dönsku). Hún leit í kringum sig, sagði að allt væri ókei, bað mig um að kvitta á blað þarsem tekið var fram að allt væri ókei og brosti. Þarftu að taka eitthvað með þér, spurði hún (á dönsku). Uuu neeii, en ég er ekki að fara fyrren í kvöld og Tommy leyfði mér að nota herbergið sitt þangað til þá, sagði ég næstum því (á vonlausri dönsku). Eitt ókei frá henni og svo er hún farin. Væk.

Ég spilaði smá Baldur's Gate. Fór að leita að tei handa mömmu en fann ekki. Hún verður að láta sér þessa sex pakka nægja í bili. Fór heim og gekk um gólf. Hvernig á ég að bera þessar þrjár töskur niður á lestarstöð, hugsaði ég. Ég hugsaði það nokkuð oft í framhaldi, stundum upphátt. Ég var kominn með plan. En það þurfti ekki því Ýmir og Hlynur og Helga komu og hjálpuðu mér að bera draslið. Það var ómetanlegt. Ég náði ekki að kveðja þau nógu vel því lestin kom strax og fór strax en ég sé þau von bráðar.. Hann Ýmir (sem er að fara til Íslands næstu helgi, í giftinguna) sagðist skyldi taka poka af fötum fyrir mig, því ég var að stressa mig á því að vera með of mikinn farangur. En bökkum aðeins og lítum yfir hlutina sem ég hef verið að stressa mig yfir undanfarið:

  • Klára ég þessar helvítis ritgerðir?
  • Klára ég þessa helvítis ritgerð? (þegar sú fyrri var búin)
  • Er fyrri einkunnin mín ennþá í kerfinu hjá þeim? (ég sé hana ekki á netinu, en hún á nú að vera þarna)
  • Get ég skilað íbúðinni af mér á skikkanlegum tíma?
  • Fæ ég íbúð í Reykjavík?
  • Fæ ég vinnu í sumar?
  • Er heimurinn að farast og á ég eftir að eiga pening til að sjá hann springa í loft upp?
  • Hættir mig nokkurntíman að dreyma sólbrúna stráka í strápilsum?
  • Hætti ég nokkurntíman að stuðla vitleysuna sem ég skrifa?
  • Verður þetta nógu vel þrifið hjá mér?
  • Verður þetta kvef endalaust?
  • Er ég nú loksins búinn að rústa bakinu á mér endanlega?
  • Get ég borðað bæði þessi keböb?

..En þá erum við reyndar farin að tala um smávægilegar njúrósjónir.

Égmeina, auðvitað klára ég bæði keböbin. Og auðvitað fallbeygi ég þau að íslenskum hætti. Einsog Bilku.

Strákurinn við hliðina á mér er líka með IBM Thinkpad. T60. Massavél. En pabbi hans á hana líka. Gaurinn fyrir aftan mig í öryggistékkinu var líka með Thinkpad, en ég sá ekki hvaða týpu. Ég var of upptekinn við að láta rannsaka farangurinn minn. En bíðum við, þá er ég kominn aftur að flugvellinum. Látum sjá.

Eftir að ég kvaddi þessa hjálpsömu og yndislegu vini míná á Örestaðs-lestarstöðinni lokuðust dyrnar og við runnum af stað. Það voru lestarverðir útum allt, en enginn tékkaði á miðum. Sem var heppilegt því í öllum hamaganginum við að komast af stað þá gleymdi ég að mánaðarpassinn minn dugar ekki í zón 4. Þar var 600króna sekt sem ég slapp við. Gott karma.

Ég fékk kerru um leið og ég steig útum dyrnar á lestinni. Meira gott karma. Það var ekki venjulegur stigi upp í flugstöð, einsog hefur verið þegar ég hef farið þarna um áður, heldur rúllandi gangvegur. Meira gott karma.

Það var búið að opna 7/11 sjoppu í ganginum á leiðinni að flugstöð nr. 3, og þar gat ég keypt mér einn stóran Tuborg. Góða karmað hleðst upp hérna..

Í tékkinninu fékk ég að vita að ég væri með yfirvigt. 20 kíló eru hámarkið, sagði hún. Þú ert með 28 kíló. Ég var hinn aumlegasti. Ég er að flytja aftur heim til Íslands eftir að hafa búið hér lengi, og ég get ekkert skilið eftir, þetta er allt sem ég á. Og ég kveinkaði mér. Og augu mín sögðu Ekki láta mig borga pening fyrir að flytja aftur til föðurlands míns, kæra tékkinn dama. Hún sá aumur á mér. Þú þarft að borga átta kíló í yfirvigt. Kílóið er á 60 krónur danskar. En ókei, borgaðu 5 kíló og málið er dautt. Ókei, sagði ég. En bíðum við. Ég er ekki með neinn pening, sagði ég (aumlega, aftur). Tekurðu kort? Hún ráðfærði sig við sessunautinn. Hugsaði smá. Farðu bara, sagði hún svo.

Dýrð.

Ég lét ekki segja mér það tvisvar. Ég fór. Góða karma.

Og það er ekki úr vegi að minnast á að ef Ýmir hefði ekki fallist á að taka smávegis af drasli fyrir mig þá hefði ég verið í rúmum tíu kílóum í yfirvigt.. sem hefði kannske verið erfiðara að láta eiga sig, ég veit ekki. Takk Ýmir og takk Hlynur og takk Helga.

Í öryggiseftirlitinu var ég stoppaður. Ef það lítur út fyrir að maður sé með heftara í töskunni sinni þá þarf maður víst að taka hann fram og sanna þarmeð að þar sé heftari á ferðinni en ekki galdrabein til að drepa flugmenn. Og ég gerði það, því ég er góður þegn, gegnblautur af góðu karma. En þegar ég var að loka töskunni þá datt Powers heftið mitt niður í gegnum rifu á milli eininga í borðinu þeirra. Þeir vissu ekkert hvað þeir áttu að gera, blessaðir mennirnir. Glæný tól sem þeir voru að vinna með og aldrei þurft að standa í svona löguðu áður. Þú ert sá fyrsti, sagði minn maður aftur og aftur. Við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur, sagði hann. Ég var rólegur, enda kominn inná flugstöð með allt mitt hafurtask og (aftur) gommu af góðu karma.

Minn maður kallaði á yfirmanninn. Hann kom og ýtti á takka, og annar helmingurinn af borðinu færðist upp. En hann náði ekki blaðinu. Og þeir tosuðu og ýttu og rembdust, og ég sat hjá og sendi sms. Íslenskt par spurði hvað væri í gangi. Ég sagði þeim. Þú verður að sækja skrúfjárn, sagði karlinn. Hah, hló ég. Svo kom yfirmaðurinn með skrúfjárn og náði blaðinu. Jei.

Og þetta var ekki skemmtileg saga, en hún gerðist nú samt. Flugvallaævintýri!

Svo keypti ég kippu af Carlsberg og settist við hlið A23. Mér leið vel. Mér líður ennþá vel. Það var gaman í Kaupmannahöfn, en ég átti aldrei heima þar. Ég gaf mig aldrei í það þannig, held ég. Níu mánuðir? Það er ein meðganga. Maður byggir sér ekki hús í móðurkviði, hengir upp myndir og raðar sófunum. Maður hefur gaman af því að lepja rjómann úr lífinu og bíður þess að vera settur af stað. Þrír tveir einn Farðu heim.

En þetta var fjör, mikil ósköp. Fullt af góðu fólki. Suma hitti ég aftur, suma ekki. Var einstaklega heppinn með meðleigjendur. Gott karma. Hver ætli taki svo við íbúðinni minni?

Og hva, er ég þá búinn að segja flugvallarsöguna? Það er bara rétt rúmur klukkutími búinn af fluginu. Strákurinn við hliðina á mér horfir á einhverja Jack Black mynd. Ég þori varla að kveikja á vídjóinu af ótta við að brenna batteríið. 73% akkúrat núna. En ég ætti að geta lesið nokkur hefti af Action Philosophers, kannske núllta hefti af Black Summer.. Ég er fól sem hleður niður myndasögum afþví að ég get það. En ég kaupi kiljurnar ef ég fíla sögurnar. Alveg satt. Næst á lista er Casanova, sem ég hefði aldrei litið í ef ég hefði ekki getað sótt hana á netinu.

En það er tuggin tugga.

Heyrðu við skulum hvíla okkur aðeins. Ég verð vonandi kominn heim á Selfoss um tvöleytið, ef ekki fyrr. Pás.

...

Vá, þetta er besta flugferð nokkrusinni. Rólegur súpi af bjór og Action Philosophers. Hér er lína, um Anaximenes:
So was inaugurated one of the most common philosophical traditions: "Every philosopher who came before me was an idiot!"

-----

-b.

Engin ummæli: