13 september 2013

Planið fyrir státinn

Planið er semsagt þetta.

Ég er með malað korn og allar græjur hérna inni í geymslu. Næst á dagskrá í bjórgerðinni er að leggja í stát. Ég hef gert það tvisvar áður (plús einusinni þegar ég gerði sterkan kaffi/súkkulaðistát sem er sennilega svona þriðji versti bjór sem ég hef gert) og mér þykir gott að eiga stát til reiðu. Í fyrsta skiptið gerði ég uppskrift beint eins og hún kom fyrir í Brewing Classic Styles, fyrir þurran (írskan) stát. Í annað skiptið skipti ég virtinum í tvennt og gerjaði með tveimur mismunandi gerjum, það var mjög fróðlegt.

Sér í lagi vegna þess að þegar það kom í ljós að "hitt" gerið var betra en það sem ég hafði notað áður, þá var ég löngu búinn að henda því. Hefði getað geymt eina krukku og notað áður, en það gengur svona.

Í þetta skipti er ég að hugsa um að skipta á milli tveggja gerja aftur: Að nota hefðbundna gerið, Irish Ale, og svo annað breskt ölger, afbrigði sem er til sölu í takmarkaðan tíma eitthvað eitthvað.

Enn fremur bætti ég við uppskriftina heilum 60gr af sýrumalti, sem ætti að gefa öörlítið súran keim.

Og svo eru það byggflögurnar. --

Ég tók þátt í bjórgerðarkeppninni sem haldin var í vor. Bjórarnir mínir fengu fínar einkunnir, ég bjóst satt best að segja ekki við mjög miklu. Státinn var orðinn pínu gamall og IPA-inn kom einfaldlega ekki nógu vel út hjá mér. En ein athugasemd kom upp oftar en einu sinni hjá dómurunum sem smökkuðu státinn, og hún var sú að bjórinn væri vatnskenndur. Það gæti verið að hann hafi bara verið borinn fram of kaldur -- og þar með nánast flatur, en það er lítil kolsýra í honum til að byrja með. En ég fór að hugsa hvort þetta væri samt eitthvað sem ég gæti fiffað.

Byggflögurnar sem ég hef notað eru þær einu sem ég hef fundið hér til sölu. Nema að þær eru ekki eins og þær sem talað er um í uppskriftinni sem ég fór eftir, eða í neinni af þessum bandarísku uppskriftum. Þar eru byggflögunum lýst svo að þær séu flattar út með glóandi heitum völsum, svo að sykrurnar í korninu hlaupi eða gelist (?). Byggflögurnar sem ég hef notað eru hins vegar kaldvalsaðar, og ætti því frekar að tala um grófmalað bygg.

Það hefur einhver umræða skapast um þetta á Fágunarspjallinu, og flestir á því að láta bara vaða. En enginn hefur sagst hafa gert nokkurn samanburð, og ég leyfi mér að efast um að nokkur hafi nennt því. Það er að segja samanburð á því annarsvegar að meskja flögurnar einsog þær koma fyrir, og hinsvegar að elda flögurnar fyrir meskjunina. Þannig að ég ætla að prófa það.

Þetta er örlítið meira vesen en normal mesking en mér sýnist þetta gæti bara verið gaman. Það helsta er að ég veit hreinlega ekki hvort þetta skiptir nokkru máli. Flögurnar eiga að bæta áferðina á bjórnum, en hvað er það í flögunum sem á að sjá til þess? Eru það prótínin, sykrurnar eða vatnsleysanlegu trefjarnar? Ef það eru trefjarnar þá á þetta sennilega ekki eftir að breyta nokkrum hlut. Ef það er eitthvað annað, þá kannske.

Skemmir varla fyrir samt.

Og ég á enn þrjár, fjórar flöskur af fyrri uppskriftinni til að bera saman við.

Þannig að ég þarf bara að ná mér af þessari flensu og þá er þetta gó.

... Og ég fatta það núna að ég hef ekkert hugsað bjórgerðina umfram þennan stát. Hvað gerist næst?

-b.

Engin ummæli: