12 september 2013

Það sem ég ræddi

Ég sit heima með flensu.

Það gæti verið að ég hafi ýtt sjálfum mér útúr eigin höfði. Það gæti líka verið að þetta hafi gerst fyrir löngu síðan, og að það sem hefur hringlað þar inni uppá síðkastið sé minningin um röddina einsog hún hljómaði þar áður. Bergmálandi meðfram taugaboðum sem hugsa eitthvað allt annað.

Mér dettur í hug að skrifa nokkur orð. Ég gerði það síðast fyrir helgina sem leið; mér var sett það verkefni að skrifa og flytja ræðu en mér datt ekkert í hug. Það eina sem sá til þess að ég gerði það sem ég hafði sagst ætla að gera var skilafresturinn. („Banalínan“ segir mjólkurfernan, notar það nokkur? Mér finnst það ekki alslæmt.)

Það er sena í West Wing þar sem forsetinn þarf að flytja skálarræðu við afmælisveislu konu sinnar. Veislan er hafin og hann bregður sér út til að flytja ræðuna fyrir aðstoðarmann sinn. Ræðan er að uppistöðu saga af þeim hjónum, eða brandari öllu heldur, sem hljóðar svo: Þau er á ferðalagi; festa bílinn í skurði; forsetinn (þá fylkisstjóri) getur ekki losað hann; lókal gaur kemur til bjargar; forsetinn (þá fylkisstjóri) spyr konuna sína hvort hún hefði frekar viljað giftast lókal gaurnum; konan segir „pah, hefði ég gifst honum væri hann fylkisstjóri.“

Aðstoðarmaðurinn hefur heyrt söguna áður, forsetinn spyr hann einfaldlega hvort hann ætti ekki að segja „söguna af skurðinum“. Aðstoðarmaðurinn segir að það sé fín saga, en hún fjalli samt aðallega um hvað forsetinn sé sniðugur. Forsetinn jánkar því.

Í skálarræðunni segir hann söguna samt sem áður.

Hver er þá tilgangurinn með því að spyrja aðstoðarmanninn álits? Mögulega sá að þegar við heyrum forsetann segja söguna, seinna í þættinum, hafi þessi gagnrýni þegar komið fram og broddurinn þannig brotinn af henni. Og sá að jafnvel þó maður heyri gagnrýni og sé sammála henni þá sé stundum einfaldlega komið að banalínu (!) og maður verði að láta vaða.

Þetta kann líka að vera einhverskonar viðurkenning á því að athygli þeirra, sem yfirleitt hafa sig út í það semja svona ræður og flytja, sé gjarnan bundin þeirra eigin tilveru og að stundum verði bara að hafa það.

Einhverstaðar segir að mikilmenni ræði hugmyndir, meðalmenn ræði atburði og að smáborgarar ræði fólk. Neðar þeim öllum standa þeir sem semja svona bon mot.

Í öllu falli skáldaði ég sögu og sagði hana upphátt. Það var alveg gaman, mér fannst samt lélegt af mér að hafa ekki getað skrifað eitthvað raunverulegt.

Engin ummæli: