13 september 2013

Hleð myndum

Ég hef á tilfinningunni að án mynda séu orðin ekki sjáanleg lengur. Að lesa efnisgrein einsog þessa er svipað og að setjast til borðs með hníf en engan gaffal. Hér er myndatextinn, já, ég sé hvar hann byrjar og endar, og ég renni yfir hann þegar ég hef skoðað myndina, en hvar er myndin? Það er eitthvað að þessari síðu, eða tengillinn á myndina ónýtur. Imgurl liggur niðri.

Hvað á ég nú að lesa?

Ég ætlaði bara að skima yfir eitthvað meðan Ási sækir gaffla upp til sín.

Spyr hann hvort netið sé ekki í lagi þegar hann kemur.

Og svo framvegis.

Ég fór að hugsa um þetta því mig langaði að skrifa niður eitthvað um fyrirhugaða bjórlögun. Eðli málsins samkvæmt get ég ekki birt myndir af einhverju sem hefur enn ekki gerst, og skrifin eru því tví-ómerkileg: Fyrst vegna þess að þau lýsa einhverju sem hefur ekki gerst og á sennilega ekki eftir að gerast einsog því er lýst, og svo vegna þess að það fylgja engar myndir.

Aftur á móti skýrist myndaleysið af því að umfjöllunarefnið er óorðið.

Ja, ég ætti ekki að ofmetnast; ég hefði sennilega gleymt að taka myndir hvort eð er.

...

Að hugsa sér að ég skuli bölva The Glass Bead Game fyrir að vera eintómt forspjall og koma sér aldrei að efninu, eða snúa sér aldrei að neinu sem skiptir máli. Aftur á móti hef ég ekki fengið Nóbelsverðlaun fyrir ras mitt. Ennþá.

En málið er semsagt þetta. Ahemm. Ég ætla bara að byrja upp á nýtt.

-b.

Engin ummæli: