15 janúar 2009

Um grímur af fésbók og annarstaðar

Ég rakst á facebook-hóp áðan sem mér þótti athyglisverður, en þar er fólk enn að tyggja bitana sem Björn Bjarnason fleygir undir borðið. Hann heitir Grímuklæddir mótmælendur tala ekki fyrir mína hönd, ég er líka þjóðin! Hér eru nokkrar athugasemdir þaðan:

,,Þeir sem mótmæla grímuklæddir eru ekkert annað en gungur, skammast þeir sín kannski svo fyrir skoðanir sínar að þeir þora ekki að þekkjast???"

,,Mótmælendur sem að hylja andlit sitt eru hugleysingjar."

,,Ef þú ætlar að vera að mótmæla stattu þá á þínu og láttu þá vita hver þú ert! Annars verða þeir aldrei hræddir!!!"

,,Ég hef lítið álit á þessum grímuklæddu unglingum sem haga sér eins og asnar og bera enga virðingu fyrir lögreglunni."

,,Það er eitthvað ógeðfellt við fólk sem þarf að fela sig á bak við grímu. Fyrir utan að málstaðurinn týnist þegar ekkert andlit er á bak við hann."

Þarna kvarta líka margir yfir ofbeldi og ,,anarkí" og árétta að friðsamleg mótmæli séu líklegri til árangurs en önnur. (Þetta endurtekur fólk æ ofan í æ en ég hef reyndar aldrei séð nein sannfærandi rök fyrir því. Mig langar til að trúa því og það hljómar rétt en er það bara vegna þess að ég hef heyrt það nógu oft?) Þannig að það má vel vera að einhver hluti þeirra sem þarna láta í sér heyra séu aðallega að spá í ofbeldi og eignaspjöllum, en ekki grímuklæðningu í sjálfri sér.

En þetta virðist fara í taugarnar á þónokkrum. Ég er ekki viss um að þetta fólk geri sér grein fyrir því að jafnvel þótt þeim standi persónulega stuggur af grímuklæddum einstaklingum þá sé tilgangurinn með grímunum hugsanlega annar, og komi hvekktum taugum þeirra lítið sem ekkert við.

Gunnar Marel skrifar góðan pistil í vefritið Nei., hér er brot:

Mikið hefur verið rætt að undanförnu að nokkur hópur mótmælenda kýs að hylja andlit sín. Telja margir það rýra málstað þeirra og vera þeim almennt til minnkunnar. En hverjar eru ástæður lambhúshettanna?

Þeir sem hylja andlit sín gera það vegna hugmyndafræði, þeirra persóna skiptir ekki máli, málstaður þeirra er birtingarmynd þess sem Rómverjar kölluðu Vox populi, eða rödd lýðsins. Þar skiptir einstaklingurinn ekki máli og enginn einn á að troða sinni persónu fram fyrir aðra. Önnur ástæða er hreinlega praktísk. Lögreglan gengur óeinkennisklædd um meðal mótmælenda með myndavélasíma og í miðbæ Reykjavíkur eru öryggismyndavélar á hverju götuhorni. Nú um áramótin tóku gildi lög sem heimila handtöku allra sem viðstaddir eru „uppþot eða fjölmennar óeirðir … sem hafa haft eða gætu haft í för með sér líkamsmeiðingar eða stórfelld eignaspjöll og ekki verður með vissu bent á hinn seka eða hina seku“ því þá er „lögreglu heimilt að handtaka hvern þann sem nærstaddur er og ástæða er til að gruna um refsiverða háttsemi.“ (2. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008) Lambhúshettan er því öðrum þræði sjálfsbjargarviðleitni þeirra sem reyna á þanþol hins löglega við mótmælaaðgerðir byggðar á hugmyndafræði borgaralegrar óhlýðni.

Það má eflaust rífast um þessa hugmyndafræðilegu ástæðu en sú praktíska meikar sens. Ef einhver vill ekki láta ná sér á mynd, hversvegna ætti hann þá að gefa yfirvöldum færi á því? Þeir eru til sem treysta lögreglunni og finnst blessaðir unglingarnir ekki sýna henni tilhlýðilega virðingu - einsog herramaðurinn sem ég vitna í hér fyrir ofan - en þótt ég geti treyst einstökum lögregluþjóni sem ég þekki persónulega þá þykir mér útí hött að færa það yfir á stéttina í heild. Ég myndi t.a.m. ekki treysta hvaða trésmiði sem er jafnvel þótt ég þekki þá nokkra, og líki vel. Nú, eða símadömum eða bifvélavirkjum eða fréttamönnum. Og ég myndi ekki fara berskjaldaður fyrir neinn sem ég ekki treysti, upp á von og óvon að hann eða hún eða þeir kjósi að misbeita ekki valdi sínu í það skiptið.

Það þýðir nefnilega lítið að byrgja brunninn eftirá og svona.

Og þetta raus um að hinir grímuklæddu séu gungur og aumingjar nær auðvitað ekki nokkurri átt. Eða er þetta spurning sem sérsveit ríkislögreglustjóra fær reglulega að heyra frá nokkrum sem mark er á takandi?

En þeir hafa auðvitað allskonar vopn og þessháttar til að sýna framá karlmennsku sína og dug..

-b.

Engin ummæli: