09 apríl 2009

Ferðasagan - annar dagur

Jæja. Mér leiðist án þess að finna beint fyrir leiða, það er einsog ég sé ennþá að gera hluti en ég finn fyrir því að ef ég hætti í smá stund detti gírarnir úr takti og ég sullist aftur í stólinn og láti mér leiðast og líki það ekki.

Þannig að ég kveiki á kerti og reyni að muna hvað við gerðum annan daginn í London.

(Ég tók ekki eftir því fyrren ég renndi yfir færsluna núna áðan, en það er nokkuð athyglisvert við staðsetningu okkar í þessari frásögn. Sá fyrsti til að koma auga á það vinnur eitthvað fallegt.)Ég var mikið frískur þegar ég vaknaði, það var ekki að sjá að ég hefði verið að sulla í bjór allan liðlangan daginn áður. Víðir var farinn í skólann, við myndum hitta hann um kvöldið en nú var að fá sér kaffi og fara í sturtu.

Kaffið gekk fínt og strákarnir fengu sér bolla. Svei mér þá ef ég færði ekki Davíð kaffi í rúmið þarsem hann lá ennþá og nennti ekki á lappir.. bölvaði okkur að öllum líkindum fyrir að geta ekki sofið lengur. En það var bara svo bjart og klukkan orðin níu eða tíu. Ég furðaði mig á því að hafa sofið eins vel og ég gerði og stalst til að drekka bollabotnfylli af kaffi.

Íbúðin þeirra var lítil og þægileg. Stelpurnar virtust hafa komið sér betur fyrir en Víðir en það er auðvitað allt afstætt. Ég tók ekki mikið af myndum inní húsinu en á veggnum hennar Guddu sá ég röð af póstkortum sem dásömuðu bæði afmælisdaginn minn og nafnið mitt, svo ég tók mynd af því:Ég fór í sturtu, sem þýddi að ég sat á hækjum mér í baðkarinu og reyndi að lyfta sturtuhausnum ekki of hátt yfir inntakið, en samt þannig að ég næði að vaska helstu álagspunkta á líkamanum. Svo sápaði ég með einhverju tiltæku og endurtók síðan vaskið. Ég hafði ekki tekið með mér handklæði (ég var að spara pláss, meira um það síðar) þannig að ég notaði það sem var minnst blautt og hendi næst þarna á staðnum. Þar sem ég er mikill áhugamaður um sturtur og kann vel að meta gott steypibað þá var þetta líkast því að kjamsa á dormandi belju útá túni þegar mann langar í steik, en það er viss sjarmi í því að röffa það í nokkra daga. Ég sleppti sturtunni næstu tvo morgna (ekkert meira um það síðar).

Okkur vantaði að éta og planið var að fara í London Eye og sjá svo til. Við settum í töskur og lögðum af stað niður hæðina. Samkvæmt Wikipediu er nafnið Sidcup afbökun á ,,cettecopp", sem þýðir ,,hæð sem er flöt í toppinn". Sem er varla hæð, ef maður spáir í því. En við töltum þarna niður og fundum lestarstöðina þarsem hún átti að vera, keyptum einn dagpassa og biðum eftir lestinni. Drukkum vatn. Veðrið var gott en ekkert til að hrópa húrra fyrir.. maður þakkaði bara fyrir að það var ekki slæmt.

Við fórum út á Waterloo og gengum í einhverjar áttir. Fórum yfir einhverskonar torg og upp tröppur og leist ágætlega á veitingastað sem varð á vegi okkar. Skjótt á litið leit hann út einsog bakarí en svo var sæmilega stór matsalur fyrir innan, staðurinn gaf sig út fyrir að vera með organískan mat. Það hljómaði ágætlega. Ég man að ég pantaði einhverskonar platta. Það voru ólífur, pestó, einhverjar skinkur, ostar, smjör, annarskonar mauk og einhverskonar grænmeti. Og brauð. Með þessu drakk ég hveitibjór:Davíð pantaði bjór sem hét Freedom. Annarstaðar drakk maður London Pride eða Courage. Og hafði gott af. Hér er mynd af okkur á þessum náttúrulega stað:Þaðan gengum við í áttina að London Eye. Fyrst löbbuðum við upp tröppur og aðeins inná Golden Jubilee Bridge:Og svo aftur niður og framhjá fullt af fólki og vitleysingum sem stóðu og léku listir sínar (eða stóðu bara.. eða blésu í flautu og dilluðu sér) fyrir fólkið í kring og báðu um peninga. Hjólið bar við himininn og hreyfðist ósköp hægt, einsog röðin af fólki sem beið eftir að komast þar inn og upp. Miðasalan var í húsi við hliðina.

Það kom mér mest á óvart hvað það gekk allt hratt fyrir sig, svona miðað við hvað það var mikið af fólki þarna. Röðin að miðasöludömunni var löng, en ég hugsa að ég hafi oft beðið lengur til að komast að kassanum í bónus á þriðjudegi. Og kannske var það bara góð tímasetning eða heppni eða eitthvað, en biðin eftir að komast inní kálfinn var samasem engin. Öryggisvörðurinn vildi fyrst fá að leita í töskunni minni, en þegar hann sá að ég var þegar búinn að opna hana (svo hann gæti leitað í henni, einsog skiltið á leiðinni sagði mér að gera) þá langaði hann ekki lengur. Okkur var bent inní kálf sem var að silast á botninum, hurðinni var lokað og við vorum á uppleið með nokkrum stelpum hinumegin í rýminu.

Hér er mynd sem ég tók þegar stelpurnar voru ekki í augsýn:Ég man náttúrulega ekki eftir því þannig, en samkvæmt upplýsingum sem ég hafði heyrt útundan mér þá átti ferðin að taka hálftíma. Í næstu kálfum sá ég fullt af fólki með börn og eitthvað vesen og var mikið sáttur við okkar sess.. Ég man að ein af stelpunum talaði hátt og mikið um það þegar hún var í París og fór að Effeilturninum og einhver gaur elti dúfu útum allt að reyna að ná henni, og var að gera alla brjálaða, en náði loksins dúfunni og setti hring á löppina á henni og rétti kærustunni. Viltu giftast mér, sagði hann svo.

Stelpan hneykslaði sig töluvert á því hversu fáránlegir þessir tilburðir mannsins hefðu verið, og enn frekar á því hversu vel allir viðstaddir tóku í fyrirtækið. Þetta kom engu við nema kannske að þá hafði sögumaðurinn, sessunautur okkar í þessari ferð, verið við útsýnisstórvirki í heimsborg, og núna var hún það líka. En ég hafði gaman af því.

Það voru litlir reitir vestanmegin í kálfinum, á gólfinu, sem á stóð ,,stand here for your picture", eða eitthvað þvíumlíkt. Við stóðum þar aldrei, en stelpurnar röðuðu sér. Þegar við komum út (eftir að við horfðum uppá tvær dömur fara í gegnum kálfinn og leita að sprengjunum sem við komum fyrir undir bekknum og í loftinu) hefðum við getað keypt myndir af okkur sem voru teknar á leiðinni niður, hefðum við staðið á reitunum góðu.

En þennan hálftíma sem við vorum í ferlinu held ég að það hafi í mesta lagi liðið hálf mínúta á milli smella í myndavél. Ég á allnokkrar. Get ég ekki fundið eina í viðbót til að setja hér?Við gengum aftur framhjá ,,skemmtikröftunum" og yfir brúna. Þaðan fundum við næstu lestarstöð og fórum til London Bridge stöðvarinnar. Þaðan gengum við upp að London Bridge og nánast inn á hana, en fannst einsog hún ætti að vera öðruvísi. Þá höfðum við verið að leita að Tower Bridge - við sáum hana aðeins lengra niðureftir (eða uppeftir?) ánni. Jæja. Niður á götu og finnum bar.

Mig minnir að næsti sem við stigum inná hafi heitað Thames Riverside Inn. Þar voru einn tveir bjórar og eitthvað nasl.. það var víst hægt að leigja staðinn undir grillveislur, ég verð að muna það næst þegar mig langar að grilla í London. Við ákváðum að borða eitthvað um kvöldið, kannske var það þarna sem við ákváðum að reyna eitthvað indverskt, kannske var það síðar um daginn.. Á leiðinni út af barnum varð hópur af skólabörnum á vegi okkar og við gengum framhjá markaði.

Ými langaði að finna bar þarsem hann gæti unnið okkur í fúsball, en við leituðum nokkuð lengi að bar þarsem hægt væri að spila billjarð. Án árangurs. Fórum á næsta bar í staðinn. Á einhverjum tímapunkti komum við okkur fyrir á háborði á stigapalli á Leichester Arms, seinna sátum við og drukkum í sófa á móti pari sem lapti síder. Við vorum í nágrenni við Picadilly Circus held ég.Við fórum aftur að London Bridge stöðinni og þar fundum við bar þarsem hægt var að spila billjarð. Víðir kom og hitti okkur þar og við tókum fleiri lestir til að komast á einhvern indverskan veitingastað. Maturinn þar var góður.

Svo löbbuðum við upp þá götu (Brick Lane?) og á einu augnabliki leit út fyrir að við ætluðum inná einhverskonar garðveislu, en þá vantaði pening og sjálfsalinn vildi ekki bekenna kortið mitt. Ég fékk peninga einhverstaðar vestar, en þarna var uppsafnað bjórmagn orðið ansi mikið og ég man ekki hvenær við ákváðum að kaupa bjór í næstu kjörbúð og taka lestina í partí í Sidcup.

Hálftíma lestarferðir gera lítið fyrir partískapið. Þegar við lentum og gengum þessa örfáu metra að hverfisbarnum (sem var búinn að loka en ekki búinn að henda vinum hans Víðis út) ákvað ég að partí með leiklistarnemum væri ekki það sem ég þyrfti á að halda í rauðu augun mín. Ég man hreinlega ekki hvort Víðir varð eftir eður ei, en við gestirnir fórum í það minnsta Við fórum allir heim að sofa. Ég svaf vel þá nótt líka, og vaknaði ágætur, en þakkaði sjálfum mér prívat og persónulega fyrir að hafa farið heim í bælið.

Bjórinn fékk að sofa inní ísskáp.. við snertum hann varla það sem eftir lifði ferðarinnar.

Ætla hetjurnar okkar ekki að gera neitt
annað en að drekka og sofa?

Vita þær ekki að lesendur ferðasagna vilja aksjón,
þrá rómans, hamfarir, steríótýpur og launráð?

Eða eru þeir úlfar í sauðagærum,
liggja ævintýrin undir yfirborðinu og brjótast
upp á þriðja degi í litla heimsveldinu?

Fylgist með. Eða ekki.
-b.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

...og hver er þessi Jennifer?

En grínlaust, flottar myndir, sérstaklega þessi af þér með London undir höndum -
Hkhkhkhkhkhk

Nafnlaus sagði...

ps.
I think she loves you

Nafnlaus sagði...

ég fór líka heim.

-------Víðir-------

Björninn sagði...

Tekk Víðir, ég er búinn að laga minningar mínar.

Og tekk Hallur, mér finnst myndirnar líka skemmtó.

Jennifer er dauð fyrir mér.

Nafnlaus sagði...

Bíddu við, voru þetta ekki fleirri en tveir dagar ?


V

Björninn sagði...

Jú það voru tveir í viðbót. Sá þriðji var helvíti fínn, ég ætti að skrifa um hann bráðum.

Nafnlaus sagði...

erum við sem sagt að tala um rómans, hamfarir, steríótýpur og launráð í þriðja hluta þessarar ferðasögu?

Hlynur

Björninn sagði...

Já er það ekki bara? Það er ekkert sem hjálpar góðum skrifum einsog að lofa uppí ermina á sér.