17 september 2020

Pan and scan

Ég var að horfa á I'm Thinking of Ending Things í gær. Hún er gerð í hlutföllunum 4:3, sem maður sér ekki oft, en hentar henni ágætlega.

Það minnti mig á senu í Magnolia, sem sló mig svo ég vankaðist þegar ég sé myndina fyrst. 

Ef ég man rétt þá leigði ég Magnolia og Storytelling á VHS skömmu eftir að ég útskrifaðist úr FSu? Ég hafði tognað hressilega á ökklanum og lá í rúminu á jarðhæðinni á Heiðarveginum. Ég nappaði annaðhvort vídjótækinu á heimilinu eða fékk lánað með spólunum, og tengdi gamla sjónvarpið hans Óskars, á að giska 12 tommur, og kom því fyrir í rúminu með mér.

Ég er sennilega að rugla saman minningum, en það gerðist einhvernveginn svona.

Ekki besta umhverfið til að upplifa Magnolia; Storytelling hinsvegar, já já.

En ég er a.m.k. viss um að ég sá Magnolia fyrst í pan-and-scan útgáfu á VHS vegna þess að þessi sena sat í mér lengi vel, og ég var ennþá nógu glær til að halda að hún ætti að vera svona:


Það eru óskaplega mörg dæmi til um það hvernig pan-and-scan flutningurinn skemmir myndina, en þessi sena er dæmi um faglega uppgjöf gagnvart viðfangsefninu. Það vill auðvitað enginn horfa á alla myndina svona, en einsog stundum gerist með þýðingar þá fann maður eitthvað stórkostlegt þarna sem tapast í frummálinu.

Ég man annað svipað dæmi úr Pulp Fiction, en finn það ekki á Youtube. Það er þegar Jules skýtur Flock of Seagulls gaurinn. Í upprunalegu útgáfunni hreyfist ramminn ekki, en í pan-and-scan útgáfunni sem ég sá á VHS færist fókusinn snögglega til vinstri, ramminn fylgir handahreyfingu Jules þar sem hann miðar og skýtur, og truflar þá ekki bara vesalings Brett heldur áhorfandann sömuleiðis. 

Senan er ekki betri í þessari útgáfu en ég myndi ekki segja að hún væri verri heldur.

Nú er ég að reyna að muna hvaða mynd þetta var, sem ég sá ásamt Storytelling, ef ekki Magnolia. Láttu mig vita ef þér dettur eitthvað í hug.

I'm Thinking of Ending Things er fín, bílferðirnar stórkostlegar, heimsóknin mátulega ónotaleg. Hún hefur meiri áhuga á að viðhalda spennu heldur en að.. hvað á maður að segja.. springa út? En það er ekki ljóst fyrir mér hvað liggur undir þegar persónurnar virðast svo augljóslega vera einhverskonar tilbúningur, dúkkulísur eða endurvarpanir. Ég er enn á því að Kaufman komi betur út þegar hann vinnur með öðrum leikstjóra en sjálfum sér -- þar á meðal í Anomalisa, þar sem hann er þó annar af tveimur.

En hann er að reyna eitthvað.

Það er sól í höfninni, ég reyni að hugsa ekki um hausverkinn sem ég vaknaði inní, Danmörk var að skella í lás, ég ætla að dansa í kvöld.

-b.

Engin ummæli: