14 mars 2019

Best ársins 2018

Ó boj.

Eins og venjulega hef ég byrjað á að setja saman þennan lista uppúr miðjum desember og klára svo ekki að skrifa síðustu línurnar fyrren komið er vel inní næsta ár. Ekki það að ég liggi yfir þessu á meðan; ég bara hætti að skrifa og uppkastið lúrir á meðan ég legg mig í sófanum. Svo man ég eftir þessu þegar ég á að vera að gera eitthvað annað, einsog núna.

Þetta breytist ár frá ári, núna einsog í fyrra hefur tónlistin stærri sneið af kökunni, athygliskökunni! Ég stari, hlusta og þreifa oní eldfast mót og baka í ofni við 180 gráður í sirka 20 mínútur. Já, hefur stærri sneið núna en mörg fyrri ár. Það er einfaldara fyrir mig að nálgast nýja músík, og ég get gert það á meðan ég geri eitthvað annað. Sem er ótvíræður kostur þar sem mér finnst ég alltaf þurfa að vera að gera eitthvað annað.

Um leið hlusta ég alltaf jafn mikið á hlaðvörp, les sífellt minna (og engar hljóðbækur í gangi núna), og áhorfið er alltaf meiri hópíþrótt.

Tónlist

Spotify eykur mér leti enn sem áður. Ég fæ deilivænan lista (sem ég tek fyrir að deila) með nöfnum uppáhaldsbandanna og laganna þetta árið. Það hlýtur reyndar að miðast við 1. des til 1. des vegna þess að það sem ég hef hlustað á án merkjanlegra hléa síðan í nóvember kemur ekki upp á þessum ágæta lista.

En ef ég stilli þetta af með tilliti til hins nýafstaðna þá lítur þetta einhvernveginn svona út:

highasakite - Silent Treatment og Camp Echo

Einhverntíma á árinu hefur algrímurinn veitt lagið Hiroshima uppúr djúpinu, mögulega byggt á fyrirliggjandi smekk fyrir skandinavísku elektró poppi, og sett á vikulista. Ég merkti við það þá og kíkti svo á plötuna í nóvember? Ég lá allavega kylliflatur fyrir Silent Treatment og Camp Echo í framhaldi. Seinni platan er talsvert frábrugðin þeirri fyrri en sama stemning, sama fagurfræði í gangi. Lögin eru grúví, söngurinn heillandi og textarnir á stundum naívir vegna þess hvernig enskan er bjöguð -- viljandi eða ekki, það kemur út á eitt. Hiroshima er besta dæmið um þetta: „I should be digging my way to China / with a shovel but winded up in Portugal.“ Winded er æpandi rangt en virkar samt betur en það sem er rétt.. Og þegar hún talar um að koma upp í Hiroshima veit ég ekki hvort ljóðmælandi gerir sér grein fyrir því að það er í Japan? Þetta er allt aðeins á ská.

Camp Echo er aggressívari, og ég ég er ekki sérstaklega hrifinn af laginu Someone Who'll Get It. En plöturnar eru annars jafnvígar þrátt fyrir að vera hvor sinn hluturinn.

The Mountain Goats - Transcendental Youth

Hún var á toppnum eða nálægt því síðasta ár, og hélt því bara áfram. Ég hef ekki hlustað á hana nýlega en heyrði fátt annað í byrjun þessa árs. Mest spilaða lagið mitt á Spotify** var The Diaz Brothers, sem ég væri alveg til í að hlusta á nokkrum sinnum í röð akkúrat núna..

Fleetwood Mac - Fleetwood Mac og Rumours

Þetta er bandið sem ég hlustaði mest á á árinu, það byrjaði með því að ég heyrði Tusk í einhverjum síðastu þátta The Americans. Þetta er al-nálægt og alltumlykjandi band, en ég hef alltaf heyrt lögin útundan mér, nú datt ég oní þessar tvær plötur. Þó ekki plötuna Tusk?

Ég sé bara núna að það var að koma út stærðarinnar best of plata. Um daginn var einn af þessum gæjum í Song Exploder að tala um Go Your Own Way. Þau eiga semsagt eitthvað móment í ár.

En hvað sem því líður þá eru þessar plötur alveg geggjaðar. Þær eiga eitthvað sánd, og það er gott sánd.

REM - Out of Time

Sennilega vegna þess að ég hef verið að hlusta á R U Talkin' REM RE: Me? Automatic For the People var alltaf í uppáhaldi, eiginlega sjálfkrafa (!), hvernig er ekki hægt að verða ástfanginn að þeirri plötu? En nú tengdi ég mest við Out of Time og sennilega eru það lögin sem voru mest í spilun í kringum mig á einhverju upptökuskeiði. Leave er lag sem ég gæti aldrei mælt með við neinn út af þessari furðulegu sírenu, en þegar ég spila það fellur það inní einhverja heilagrófina einsog púsl. Ég man eftir að hafa sótt það á audiogalaxy á sínum tíma og spilað það trekk í trekk án þess að skilja almennilega hvers vegna..

Þannig að það kom mér ekki sérlega á óvart, en ég var pínu hissa á því hversu mikið ég fílaði restina af  plötunni. Ég get ekki hlustað á Losing My Religion alveg einsog ég get ekki hlustað á Creep, en Near Wild Heaven er stórkostlegt lag. Og svo framvegis.

Ég hlustaði líka aðeins á nýjustu og síðustu plöturnar, sem ég hafði aldrei verið sérstaklega forvitinn um, og þær komu skemmtilega á óvart, þó ekki þannig að ég nefnir þær sérstaklega. Nema hér. Óbeint.

Kids See Ghosts

Hún átti nokkrar góðar vikur. Ég kann ekki að nefna neitt ákveðið. Bara ofsalega sterk og grúví plata.

Ég nefndi þriðju Run the Jewels plötuna í fyrra, og að ég hefði ekki komist inní fyrri plöturnar. Plata númer tvö er ennþá útá kanti fyrir mitt leyti, en fyrsta platan kom sterk inn í ár. Hún er rosaleg. To Pimp a Butterfly var líka hálfgerð opinberun. Ég held áfram að kveikja á nýliðinni kanónu.

Og ég hlustaði aðeins á Everything Now með Arcade Fire. Fór á tónleikana með Ými í Laugardalshöll og hefði ekki getað verið ánægðari með þá, þau voru ofsalega flott læf. Lagið We Don't Deserve Love var sennilega hápunkturinn fyrir mig, ég hafði aldrei heyrt það áður en þau hefðu sennilega ekki getað merkt mér það betur þó lagið héti Björn Unnar og svo símanúmerið mitt.

** Fyrir utan Woody's Roundup af Toy Story 2 plötunni, en það var ekki fyrir sjálfan mig skulum við segja.

Bækur

Má vera að ég hafi bara hreinlega ekki lesið neitt á árinu nema myndasögur og leiðbeiningar?

Ég keypti Skuggaleiki á bókamarkaði í Laugardalnum og las hana aftur, það var gaman.

Ég las Hundakæti núna fyrir jólin og hafði mjög gaman af, sennilega besta bók sem ég las á árinu, með þeim fyrirvara að ég las ósköp fátt.

Ég er að lesa The Big U eftir Neal Stephenson og ég skil vel hvers vegna hann var ekki heitur fyrir að halda henni í útgáfu.. en ég er ekki búinn með hana, og hún færi aldrei á neinskonar árslista, ég er bara að reyna að fylla í þennan reit?

Ég byrjaði að lesa 2666 aftur en er ekki búinn með hana, strandaði í þriðja hluta? (Uppfært byrjun mars: ég er núna stopp í fjórða hluta, þriðji hluti var æðislegur.)

Og ég er sömuleiðis stopp í Blood Meridian, hún er ofboðslega falleg og ljót en var orðin einhvernveginn svo abstrakt og þrúgandi að ég þurfti að leggja hana frá mér.

Myndasögur

Saga heldur áfram að vera besta dótið. Hún hefur ekki alveg náð sömu hæðum aftur og hún gerði í lok þriðja bindis, en það er samt ekkert sem ég vil frekar lesa. Ég las bækur 4-7 á árinu held ég alveg örugglega.

Seinni hluti Inkal er misjöfn myndasaga en á engan sinn líka.

Svo las ég fjórða bindi Sex Criminals og þriðja bindi Injection, bæði seríur sem ég bíð eftir að halda áfram með.

Ég las Planetary allt í gegn á árinu, eftir að hafa keypt fyrri hluta heildarsafns í tveimur hlutum á útsölunni í Nexus. Mjög gott dót, sem ég hlýt að hafa byrjað að lesa fyrir rúmum fimmtán árum síðan? Gaman að klára það loksins, og að sagan skyldi halda dampi svona meira og minna allt í gegn.

Poppies of Iraq var líka góð, daglegt líf undir ógnarstjórn og allt sem því fylgir, uppvaxtarsaga, horfin æska og rústir þjóðfélags undir hælnum á ungum mönnum með byssur.

Hlaðvarp

[Hér klikkaði upptakan, til að grípa í hlaðvarps-myndlíkingu.. ég var búinn að skrifa þennan hluta og næstu þrjá, en það virðist ekki hafa vistast? Demit. Eins gott að árið var tíðindalítið og ég hef fátt að segja, það tekur mig ekki svo langan tíma að segja það aftur.]

Hollywood Handbook toppar þennan lista enn og aftur. Það er eitthvað við þessa gæja sem mig langar til að heyra, og þeir halda þessu meira og minna fersku. Besti þátturinn í ár var sennilega Joe Mandy / George Carlin þátturinn. Kannske Triumph at Comic Con.



Fyrir utan HH præm eru þeir líka með HH Pro Version, sem er hálftíma langur þáttur á Stitcher Premium. Og uppá sína vísu gera þeir aðallega grín að því að þeir skuli ekki nenna að taka upp hálftíma í viðbót. Viðkvæðið "How long has it been?" varð í ár grunnurinn að lagi (eða nýjum texta við lagið Otherside með RHCP) sem hlustandi tók upp og sendi þeim, og einn af hápunktum þáttarins á árinu. Sean var sömuleiðis með Hollywood Masterclass, sex þátta seríu á Stitcher Premium; Hayes startaði LA Podcast með tveimur öðrum; og saman ásamt Carl Tart eru þeir með körfuboltahlaðvarpið The Flagrant Ones á Patreon.

Af þessu er LA Podcast það sem ég hef minnst hlustað á, það fjallar um innanbæjarpólitík í Los Angeles og eðli málsins samkvæmt er ég oft dálítið út á þekju, og ekkert sérlega invested.

Hinsvegar sæki ég og hlusta á einstaka þætti af öðrum hlaðvörpum þar sem strákarnir koma fyrir. Alveg einsog með Paul F. Tompkins þegar ég elti hann sem mest. Sagði ég einhverntíma frá því þegar ég elti hann niður á Reykjavíkurhöfn en þorði svo ekki að heilsa honum? Úff. Kannske seinna. En sem dæmi um þetta sótti ég þátt af Can I Pet Your Dog þar sem tvær konur tala um hvað hundar eru sætir, vegna þess að Sean og kona hans voru gestir og töluðu um hundinn sinn.

Nýtt sem ég hafði gaman af á árinu var / er Behind the Bastards, Unspooled (stöku þættir), The Dream, R U Talkin' REM RE: Me?, Threedom og The Americans hlaðvarpið.

West Wing Weekly er standard hlustun, sömuleiðis Harmontown, og ég athuga alltaf hvað Rosewater er að tala um í Drive to Work Podcast.

Og af og til líða nokkrir dagar þar sem ekkert spennandi kemur út, þá hlusta ég aftur á Paul F. Tompkins og James Adomian þættina á The Todd Glass Show.

Kvikmyndir

Alpha Go, skemmtileg heimildamynd um AI vélina frá Google sem burstaði heimsmeistarann í Go.

Og ég horfði á Heat held ég tvisvar sinnum.

Er sennilega búinn að koma mér upp fælni gagnvart nýjum kvikmyndum. Er það bara þetta sem gerist?

Sjónvarp

The Americans lauk á árinu, og það helvíti vel.

Ég horfði á 1-3 þáttaröð af Better Call Saul -- eða einsog þættirnir eru nefndir á mínu heimili: You Better Go Get Sal. Þeir eru mikil snilld, ljós í pollinum.

Fyrsta þáttaröð The Deuce var líka gott sjónvarp, James Franco er meira að segja bara ágætur.

Ég horfi mestmegnis á sjónvarp útundan mér, sem hlutlaus aðili, á meðan annaðhvort kona mín eða sonur horfa á það sem þeim finnst skemmtilegt. Barnasjónvarpið er óskaplega misjafnt, að stórum hluta rusl einsog gengur, en tveir þættir sem ég hef alltaf gaman af að sjá eru Hæ Sámur og Begga og Fress. Stórkostlega uppfinningasamt og lúnkið stöff, vel hannað og grípandi. Fyrir utan alla uppfræðsluhliðina, sem er bara bónus.

Bjór

Bjórhátíðin á KEX var jafn góð og alltaf. Plúsar og mínusar miðað við fyrri ár: minna pláss til að sitja þetta árið, en meiri bjór til skiptanna. Ég var hálflasinn meðan á þessu stóð, en lét kylfu ráða kasti og kylfan sagði skál.

Brugghús sem stóðu uppúr þar voru Black Project, Other Half, Aslin, og Garage Brewing. Borg og Malbygg á toppnum af íslenska slektinu.

Og af íslenskum bjórum hafa Malbygg einfaldlega rústað árinu 2018. Galaxy er uppáhald, allt annað sem hefur skilað sér í ríkið hefur verið virkilega solid. Kútatilraunirnar hjá Borg hafa verið spennandi, RVK opnuðu sitt pláss í Skipholti og mjög gott að koma þangað.

Ég bruggaði tvisvar sinnum á árinu, ef ég man rétt. Einusinni á gamla kerfinu, þokkalegan pale sem ég gleymdi svo mestmegnis inní ísskáp. Og í fyrstu tilraun á Robobrew kerfinu reyndi ég við kaffistátinn minn, en gafst upp eftir endalaust vesen. Bæði var ég með aðeins of stóra uppskrift fyrir pottinn, og svo hafði ég ekki kynnt mér nógu vel hvernig ætti að fara að, svo allt sat fast. Kunni ekki nógu vel á hringrásina, hafði mulið kornið of smátt o.s.frv. Gengur betur næst.

(Það gerði það: önnur lögun var í janúar 2019, betri pale / ipa sem ég setti á kút.)

Engin ummæli: