19 júní 2018

Enn frekara liðhlaup

Eða þannig.

Undanfarna mánuði hef ég pirrað mig á því hversu miklum tíma ég eyði í facebook, twitter og instagram í símanum mínum. Fyrir einhverju síðan eyddi ég instagram út og hef ekki beint saknað þess. En þessvegna eru semsagt engar instagram myndir inná þessari síðu fyrir síðustu vikur.

Og þessvegna hef ég ekki hjartmerkt neina instagram mynd uppá síðkastið.

Dómstólar framtíðarinnar, lesið játningu mína.

Facebook og twitter hefur verið erfiðara, ég eyddi öppunum út en mobile síðurnar þeirra eru fínar þannig að vafrinn virkar alveg eins vel. Þá gerði ég þá tilraun núna fyrir skemmstu að fleygja vafranum sömu leið.

Ég eyddi út chrome og firefox, svo er einhver samsung-vafri sem ég get ekki eytt án þess að róta símann. Gæti gert það fyrir rest. En þetta eitt og sér hefur haldið þokkalega.

Ég hef ekkert sérstaklega mikla trú á viljanum til að gera eitthvað annað, einsog sjá má. Frekar að hella draslinu í vaskinn.

Á móti sótti ég aftur kindle appið, þannig að ég get opnað það og lesið nokkrar línur ef ég er alveg að drepast í nennunni.

Það sem mér hefur ekki þótt þörf á að fleygja enn sem komið er er messenger og snapchat, af því það pingar ekki nema einhver sé að reyna að segja mér eitthvað. Og goodreads og untappd, af því það er meirihluta logg fyrir sjálfan mig. Ekkert af þessu er eitthvað sem stend mig að því að fletta inní tómið þartil ég ranka við mér kaldur í myrkrinu og heyri öskrin og vatnið nær uppað ökklum.

Síminn er þá í meginatriðum koparþráður milli okkar Nönnu, pósthólf, mp3-spilari með podcast ui, myndvél, dagbók og skeiðklukka.

-b.

Engin ummæli: