10 október 2017

Blade Runner 2049

Mér sýnist ég vera í minnihluta þeirra sem ekki fíluðu nýju Blade Runner myndina.

Ég myndi segja að hér eftir komi nokkrir léttir spojlerar.

Hún vinnur í sömu fagurfræði og gamla myndin gerði svo vel, en hún fer líka aðrar slóðir. Sem er fínt. Hún lúkkar vel. Og ég var alveg kátur með hana fyrir hlé. 

Ég sagði við Gunnar Marel að ég hreinlega kviði fyrir því að sjá Harrison Ford á skjánum. Ég var sannfærður um að hann myndi draga myndina oní ræsið.

En hann þurfti ekki einusinni að birtast á tjaldinu; áður en við sjáum honum bregða fyrir heyrum við hann vitna í Fjársóðseyjuna, algerlega út í loftið, línu sem bætir engu við og hefur enga tengingu við neitt. Það að Deckard hafi lesið Fjársjóðseyjuna síðan við sáum hann síðast á væntanlega að segja okkur eitthvað? Um þroska persónunnar í millitíðinni? Það er nefnilega hluti af mýtósi gömlu myndarinnar að Deckard sér kollega sinn lesa bókina á sjúkarhúsi í senu sem var klippt útúr gömlu myndinni. Fjársóðseyjan er komin úr höfundarrétti, á að heita klassík þó enginn lesi hana lengur, er þar af leiðandi seif leikmunur til að hafa í höndum í sjúkrahússenu.

En hún birtist (næstum því) í gömlu myndinni! Og þá þarf að finna henni stað í nýju myndinni!

Það eru allnokkur svona atriði: hlutir, línur og smáatriði sem eiga að kallast á við gömlu myndina. Og sá fyrirferðamesti og tilgangslausasti þeirra allra er Harrison Ford.

Semsagt: hann fer með línuna úr Fjársjóðseyjunni, hann lemur Ryan Gosling, gefur hundinum sínum viskí, fílar Elvis, vorkennir sjálfum sér fyrir að hafa yfirgefið barnið sitt, en hei það þurfti einhver að gera það. Þess utan hefur hann ekkert hlutverk í þessari mynd. Hann hittir vonda kallinn (sem geri heldur ekkert í þessari mynd), hann er handsamaður og er næstum því drukknaður og við eigum að vera á nálum yfir því hvort hann lifi en svo man hann alltíeinu hvernig bílbelti virka og þá er hættan liðin hjá.

Hann er leikmunur sem var í gömlu myndinni -- og þá þarf að finna honum stað í nýju myndinni! 

Nema það er ekki hægt að veifa honum framaní tjaldið, blikka alla í salnum "manstu?" og stinga honum síðan aftur oní vasa. Nei, ef Harrison Ford mætir í tökur þá þarf hann að hafa eitthvað að gera. Þannig að tekur við myndinni af Gosling, meira og minna, og í kjölfarið meikar ekkert sens.

Senan þegar "plottið" kemur saman í neðanjarðarbyrginu eða hvað þetta var. Hún sem dæmi. Hvernig tengist hún restinni af myndinni, nema bara til að segja okkur hvað Gosling vissi ekki fyrir hlé? Og hvernig er hægt að halda því fram að endirinn á myndinni komi þessari mynd hérna, Blade Runner 2049, þessari sem við erum að horfa á akkúrat núna, að hann komi henni nokkuð við? Þetta er endir á einhverri ímyndaðri kvikmynd sem við eigum að sjá fyrir okkur gerast inná milli gömlu myndarinnar og þessarar, vegna þess að það var ekki hægt að leyfa Deckard og Rachael að flýja í friði.

Myndin snertir á þessu í tvígang og í bæði skiptin er það Harrison Ford sjálfur sem færir það í orð. Gosling spyr hversvegna hann hafi flúið frá konu og barni, Ford segir: "sometimes, to love someone, you've got to be a stranger." Myndin þarf ekki á Harrison Ford að halda. Það er augljóst af því hversu litlu hlutverki hann þjónar, og hversu vel gengur áður en hann mætir á svið. Það besta sem hann hefði getað gert væri að halda sig frá henni. Vertu ókunnugur mister Ford. Í almáttugs bænum.

Seinna býður vondi kallinn honum að fá Rachael aftur, hann geti smíðað hana uppá nýtt og þau Ford geti lifað hamingjusöm til æviloka. Ford segir nei, og finnur formlega ástæðu til að hafna eftirmyndinni, en ástæðan er augljóslega sú að jafnvel þótt Rachael hafi verið tilbúningur þá er eftirmynd hennar alltaf bara eftirmynd, og þá vantar blaðsíðurnar inná milli: lifuðu árin sem gefa sambandinu gildi. 

Þessi grey maður, Harrison Ford, býr með þeirri bölvun að hafa leikið aðalhlutverk (eða þvísemnæst) í Raiders, Star Trek og Blade Runner, og lifa nógu lengi til að láta plata sig í framhaldsmyndir allra þriggja. Og af því hann á enn að heita stjarna, þá þarf að smíða allskonar vesen í kringum hann til að réttlæta það að koma honum fyrir í þessum seinni tveimur.

Og það eru ekki bara þessar sæfæ framhaldsmyndir sem hann togar á skjön.

Við Nanna horfðum á rómantíska gamanmynd um daginn sem var svona hálfrómantísk og sennilega fyndin á köflum? Hún heitir Morning Glory. Rachel McAdams leikur nýjan pródúsent á morgunsjónvarpsþætti, sem er stýrt af Diane Keaton og Harrison Ford. McAdams hittir nýjan gæja (Patrick Wilson) og þau verða fljótt og örugglega ástfangin, ekki mikið drama í gangi þar. En svo dömpar hún honum hálfpartinn um miðja mynd og við tekur kafli sem er svona hálfpartinn samt alls ekki byrjun á ástarsögu milli McAdams og Ford. 

Þar koma allir kunnuglegu kaflarnir úr rómantísku ástarsögunum, þar sem þessi úrilli gaur fer rosa mikið í taugarnar á henni, og hann er alltaf meira og meira hissa á því hversu fær hún er í starfi. Hann lýgur að henni og fer á bakvið hana til að redda fréttamanns-egóinu og hún dáist að honum fyrir það. Síðan sannfærir hann hana um að taka ekki við betra djobbi, sem hana langar í, en vera frekar áfram hjá sér í morgunþættinum, þar sem hann getur haldið áfram að gera lítið úr henni.

Þannig kemur einhverskonar lúkning á þeirra faglegu ástarsögu. Það sem gerist næst er þetta:

McAdams nær aftur í gæjan sem hún saltaði að ástæðulausu fyrir sirka 40 mínútum.

Og Ford tekur saman við Keaton og þau rölta inní sólarlagið. Þetta hafði aldrei verið gefið í skyn fram að því.

Þannig að Ford tekur við hlutverki í þessari rómantísku fréttastofugamanmynd, sem gæti verið tvöföld ástarsaga ásamt smá vinnudrama, en vegna þess að hann er úrill górilla er sagan beygð í kringum hann þartil hún stendur á haus. Þetta má eiginlega ekki vera eiginleg ástarsaga, vegna þess að það eru 36 ár á milli þeirra og það er óhuggulegt. En þetta má vera ástarsögulíki, með árekstrum og upphrópunum og misskilningi og þar fram eftir götunum, og á augnablikinu þar sem hæfilega misaldra par myndi kyssast og slútta myndinni getur McAdams sótt gæjann í ísskápinn og Ford látið sig hafa að leiða burt konu sem er bara fjórum árum yngri en hann.

Sem sagt. Harrison Ford er skaðvaldur. Hann er hálfáttræður steypuklumpur sem Blade Runner 2049 dregur fram til að sækja blessun yfir framhaldsmyndina, og hann þakkar fyrir sig með því að þvinga lestina út af sporinu og draga hana með sér oní skurð. Það er ekki einusinni einsog hann taki myndina af Gosling, heldur stöðvast myndin bara um leið og þeir þurfa að skipta henni á milli sín allt í einu! Og svo heldur hún áfram í sporunum í rúmlega klukkutíma eftir það. Jesús almáttugur hvað myndin er löng eftir hlé.

Ég hafði lesið að Villeneuve væri að leikstýra myndinni en ég mundi það ekki þegar ég fór á hana. Arrival fannst mér æðisleg, Prisoners, Enemy, Sicario, allar frábærar. Það er sosum ekki alltaf hægt að gera öllum til hæfis en það er hægt að stórauka líkurnar á því að halda góðri hrinu gangandi og hún er að gleyma Harrison Ford.

-b.

Engin ummæli: